Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sunnudagur 20. desember 1998 kl. 19:41

ROSALEGA GAMAN AÐ LEIKA Í LEIKRITI

Þær Anna Rut Ingvadóttir 16 ára og Guðrún Ásta Gunnarsdóttir 12 ára leika eitt af aðalhlutverkunum í leikritinu Litla stúlkan með eldspýturnar sem Leikfélag Keflavíkur sýnir um þessar mundir. Víkurfréttir litu inn á æfingu fyrir frumsýningu á dögunum og hittu fyrir þessar hressu stúlkur. Þær stöllur voru sammála um að það væri “rosalega gaman” að leika í leikriti en þær hafa nokkra reynslu af leikhússtörfum. Anna Rut hefur tvisvar áður leikið með Leikfélaginu, í Stígvélaða kettinum undir leikstjórn Huldu Ólafsdóttur sem jafnframt leikstýrir stúlkunum nú og Erum við á réttu róli. Guðrún hefur leikið einu sinni áður í Svarthvít og stubbarnir sjö. Anna Rut leikur Júlíu og segir svo um hana: „Hún er gömul og alveg rosalega veik, er bara alveg að deyja og deyr í leikritinu. Hún er mjög góð og henni þykir vænt um Maríu (“það er stúlkan með elspýturnar”, skýtur Guðrún inn í). Hún hefur engan annan að, nema fyrir utan pabba hennar en hann er vondur við hana”. Guðrún: „Ég leik Maríu en hún er stúlka sem á erfitt með að vera til því hún er svo fátæk. Hún deyr líka í leikritinu”. Er þetta ekki alveg hræðilega sorglegt allt saman? Anna Rut: Jú en það er ævintýri þarna innan um þannig að þetta er líka á léttu nótunum. Það er líka í báðum tilvikum gott að þær deyja. Amman var svo gömul og María átti svo bágt að það var betra fyrir hana að deyja og vera hjá ömmu sinni”. Guðrún: “Þær deyja á sama degi”. Hvað segir þessi jólasaga okkur um jólahátíðina? Anna Rut: „Þetta er falleg jólasaga og minnir mann á kærleikann sem er um jólin. Það er mikill kærleiki á milli ömmunnar og stelpunnar”. Guðrún: „Þetta minnir okkur á að það hafa það ekki allir jafn gott um jólin eins og við”. „Það er mjög gaman að leika hjá Huldu og það ættu bara allir að koma og sjá!”, segja þær kátar að lokum og drífa sig upp á svið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024