Ronja fer á kostum í Frumleikhúsinu
Leikfélag Keflavíkur frumsýndi barna- og fjölskylduleikritið Ronju ræningjadóttur síðasta föstudag. Að vanda var húsfyllir á frumsýningu og er óhætt að segja að áhorfendur hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum. Ekki kæmi á óvart þó aðsóknarmeti yrði ógnað en það eiga Dýrin í Hálsaskógi sem félagið sýndi fyrir nokkrum árum.
Ronja ræningjadóttir er aðalpersóna samnefndrar barnabókar eftir hinn kunna sænska höfund, Astrid Lindgren, en bókin kom fyrst út árið 1981 og hefur verið þýdd á yfir fjörutíu tungumálum. Það er því ljóst að Leikfélag Keflavíkur var ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur en verkið hefur m.a. verið sýnt í Þjóðleikhúsinu og víðar.
Söguþráðurinn er skemmtilegur og gott dæmi um mikla vináttu sem verður á milli Ronju og Birkis en þau eru börn sitt hvors ræningjaforingjans í Matthíasarskógi. Mikil illindi ríkja á milli ræningjaflokkanna sem pabbar þeirra stýra, þeir Matthías og Borki. Í upphafi ríkir heldur engin vinátta á milli Ronju og Birkis en það breytist þegar hún bjargar honum úr háska. Óvæntir hlutir gerast og vinátta þeirra hefur mikil áhrif á framhaldið í Matthíasarskógi.
Tara Sól Sveinbjörnsdóttir leikur Ronju en Tara mætir hér á sviðið annað leikverkið í röð hjá LK í aðalhlutverki. Það er alveg ljóst að hún er ein af efnilegri leikkonum Suðurnesja. Hún fer mjög vel með hlutverk Ronju og nær persónu ræningjastelpunnar sérlega vel, er vel áberandi á sviðinu og skýrmælt. Almar Örn Arnarson leikur Birki og stendur sig líka vel. Allur hópurinn er mjög flottur á sviðinu, bæði fólk í stærri hlutverkum sem og þeim minni. Sumir eru með meiri reynslu en aðrir í leikhópnum og einhverjir eru á sviði í fyrsta sinn. Það er virkilega áhugavert að sjá svona marga, m.a. nokkra unga leikara, fara svona vel með textann, dansinn, sönginn og sín hlutverk. Meðal þeirra sem setja líka svip sinn á sýninguna eru tipplandi grádvergar og rassálfar. Litlir þættir í stóru myndinni í Matthíasarskógi en hafa áhrif.
Leikfélagið er áhugafélag en maður gleymir því oft því þetta rúllar svo flott, eitthvað sem maður gerir ráð fyrir í atvinnuleikhúsum en ekki endilega hjá áhugaleikfélögum. Leikmyndin er líka góð. Þá er lifandi tónlist frá hljómsveit félagsins undir stjórn Sigurðar Smára Hanssonar í leikritinu enn einn gæðastimpillinn.
Sá sem þetta ritar var með sex ára tvíburaafastelpur með sér á sýningunni. Þær fylgdust vel með allan tímann og höfðu mjög gaman af, eitthvað sem afinn var ekki viss um fyrirfram. Ein leikkonan er vinkona þeirra úr Njarðvíkurskóla og þeim fannst það svolítið skrítið að sjá hana svona allt öðruvísi en dags daglega. Enda leikur hún Skalla-Pésa sem er frekar ófrýnilegur.
Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm, leikstjóri, kom á svið eftir sýninguna og hrósaði í hástert leikhópnum og öllum í félaginu sem koma að sýningunni. Þeir eru fleiri en bara leikararnir. Undir það er hægt að taka en við sendum líka hrós á leikstjórann sem hefur greinilega unnið flott verk með hópnum.
Þá er bara að hvetja Suðurnesjafólk að mæta í Frumleikhúsið. Það verður enginn svikinn af því. Þetta er skemmtileg sýning og söngleikur sem ætti að ná til fólks á öllum aldri þar sem vináttan á sviðið.
Páll Ketilsson.