Rólegt þrátt fyrir fullt tungl
Rólegt hefur verið síðasta sólarhring hjá Brunavörnum Suðurnesja, að frátöldu brunaútkallinu snemma í morgun. Strákarnir hjá Brunavörnum annast m.a. sjúkraflutninga og þegar það er fullt tungl eiga menn þar á bæ frekar von á annríki frekar en rólegheitum.Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri BS sagði daginn vera mjög rólegan en hans menn eru ávallt viðbúnir og oftar en ekki hefur staða himintungla áhrif á fólk. Sagt er að meiri spenna sé í fólki á fullu tungli. Í nýlegri bók um Svein Þormóðsson ljósmyndara, sem elt hefur Reykjavíkurlögregluna í hálfa öld, kemur fram að lögreglan hafði alltaf meira að gera þegar tungl var fullt. Engin stórtíðindi hafa orðið hjá Keflavíkurlögreglunni í dag.