Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Rokkskólinn í Sandgerði
Það var mikið fjör á sviðinu í Rokkskólanum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 22. mars 2024 kl. 06:06

Rokkskólinn í Sandgerði

Það var rokkað feitt á árshátíð Sandgerðisskóla | Vel heppnað samstarf grunnskólans, tónlistarskólans og tónlistarfólks í Sandgerði

Nærri eitthundrað nemendur og kennarar tóku þátt í uppsetningu leiksýningarinnar Rokkskólans í Sandgerðisskóla. Leikstjórarnir Íris Valsdóttir og Hlynur Þór Valsson, voru afar ánægð með afraksturinn en frumsýning var á sal skólans í síðustu viku.

„Við vildum breyta til og rokka þetta aðeins upp. Við höfum áður verið með Dýrin í Hálsaskógi, Ávaxtakörfuna og Latabæ. Við horfðum öll á myndina Rokkskólann (Scool of rock), fengum hugmyndir þaðan og byggðum handritið að hluta til á myndinni en gerðum líka okkar, færðum svona í stílinn eins og hentaði. Það voru settar upp áheyrnarprufur. Það mættu mjög margir nemendur og þær gengu mjög vel. Verkið er mannfrekt og við buðum nemendum í 3. til 6. bekk að taka þátt. Svo hafa verið stífar æfingar frá áramótum, svo stífar að við höfum þurft að fá eitthvað frí frá hefðbundnu námi. Við getum sagt að það hafi verið samþætting á aðalnámskrá. Krakkarnir hafa mjög gott af því að taka þátt í svona verkefni. Þau læra mikið og hafa líka mjög gaman af. Það sýndi sig vel í sýningunni,“ sögðu þau Íris og Hlynur en hvernig gekk svo að rokka upp sýninguna, gera tónlistina?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Samstarfið við Tónlistarskólann var frábært, lifandi eins og það á að vera. Tónlistaralífið er mjög gott í Sandgerði og því gekk þetta mjög vel. Svo fengum við aðstoð frá Sandgerðingnum og tónlistarmanninum Smára Guðmundssyni og frá Jóhanni Ásmundssyni hjá Stúdíó Paradís. Gamli Messoforte meðlimurinn átti þátt í sýningunni. Það þótti okkur ekki leiðinlegt. Við fengum líka aðstoð frá fleiri aðilum, t.d. hjálpuðu verkmenntakennarar við að gera sviðið.“

Leikstjórarnir telja ekki ólíklegt að það hafi verið „kveikt“ í leikaranum hjá einhverjum nemendanna. Þau hafi lært mikið í sviðsframkomu og texta svo fátt eitt sé nefnt. Nú var brugðið á það ráð að taka upp textann sem fluttur var í leikritinu, í stúdíói. Það var af tæknilegum ástæðum og góð reynsla fyrir þau,“ sögðu Hlynur og Íris.