Röddin er vinnutækið mitt
„Ég elska að spila með hljómsveitinni og búa til nýja músík,“ segir Valdimar Guðmundsson
Hljómsveitin Valdimar heldur upp á tíu ára afmæli á þessu ári og fagnar því meðal annars með stórtónleikum í Hörpu. Forsprakkinn, Valdimar Guðmundsson, er fæddur og uppalinn í bítlabænum Keflavík. Fyrsta plata hljómsveitarinnar var tekin upp í hljóðveri Geimsteins og kom út árið 2010. Rokksafn Íslands í Reykjanesbæ var auðvitað tilvalinn staður til að hitta Valdimar.
„Það eru tíu ár á þessu ári frá því fyrsta platan, Undraland, kom út. Það verður bara svaka stuð. Það verða tónleikar í Eldborg í september og miðasalan er í fullum gangi á tix.is. Upphaflega stóð til að halda tónleikana núna í mars en við tókum ákvörðun að breyta því í ljósi samkomu-banns, miðinn gildir áfram á tónleikana. Þetta verða stórir og miklir tónleikar, alveg klárlega stærstu tónleikar sem við höfum haldið og öllu til tjaldað. Við verðum með svona „best of“ prógramm og ætlum að reyna að hafa þetta í tímaröð, fara í fyrstu plötuna, tala svolítið um hana og taka nokkur lög af henni, fara síðan í plötu númer tvö og svolítið bara í gegnum söguna. Þetta eru fjórar plötur sem eru komnar út núna.“
Hljómsveitin Valdimar á upphafsári sínu.
Er ný plata kannski í smíðum?
„Nei, við erum ekki komnir svo langt ennþá. Það kom plata í lok 2018 og það var svolítið tímafrekt að klára hana, þriggja ára vinna eða eitthvað svoleiðis. Næsta sumar förum við væntanlega að vinna í nýju efni.“
Það eru mestmegnis Suðurnesjamenn í hljómsveitinni.
„Já, við erum fimm í bandinu sem erum héðan af Suðurnesjum, fjórir frá Keflavík og einn frá Garðinum. Það er mikið Suðurnesjablóð í okkur.“
Hefur tónlistin ykkar breyst mikið frá fyrstu plötunni?
„Hún hefur þróast svolítið. Maður finnur alveg mun á hverri plötu. Fyrsta platan var svolítið hrá, við vorum ennþá að leita að okkar „sándi“ og svona. Lögin sem voru tekin upp 2009, ég finn alla vega að ég var þá ekki alveg búinn að finna röddina mína. Hálf platan er svolítið sungin af frekar óreyndum söngvara, svo í öðrum lögum er ég aðeins búinn að finna röddina betur.“
Þið slóuð í gegn með þessari fyrstu plötu.
„Já, blessunarlega.“
Er eitthvað lag eða plata sem þú heldur mest upp á eða er þetta eins og með börnin manns, maður vill ekki gera upp á milli þeirra?
„Það er erfitt. Mér finnst síðasta platan okkar eiginlega vera sú besta. Ég held það sé örugglega svolítið hollt að finnast það, að það síðasta sem maður gerði sé það besta sem maður hefur gert.“
Eru þínar rætur alltaf í Keflavík?
„Já, auðvitað er maður búinn að skjóta svolítið rótum í Reykjavík núna en maður vill alltaf koma hingað aftur. Það er aldrei að vita hvort maður komi aftur þegar maður er orðinn eldri. Kannski eftir svona þrjátíu, fjörutíu ár, þá sjáum við til.“
Hvernig er líf atvinnutónlistarmannsins, ertu að syngja alla daga?
„Það er auðvitað bara mismikið að gera hjá manni. Þetta kemur svona í bylgjum. Stundum er alveg brjálað að gera, stundum ekki neitt. Maður þarf svolítið að skipuleggja sig bara. Þetta er farið að flæða vel hjá mér samt. Það er ofboðslega mikið frelsi sem fylgir þessu. Maður er sinn eigin herra. Það er mjög næs.“
Ertu að syngja úti um allt, giftingar, jarðarfarir og allt þar á milli?
„Já, alls konar, úti um allt. Mestu tekjurnar sem ég fæ er þegar að syngja án hljómsveitarinnar; í jarðarförum, brúðkaupsveislum og afmælum. Að spila með hljómsveitinni er meira „passion-project“ núna myndi ég segja. Það sem ég elska að gera mest er að spila með hljómsveitinni og búa til nýja músík með henni. Til þess er maður í þessu öllu saman.“
Hvar liggja þínir hæfileikar í tónlistinni?
„Við Ásgeir semjum mjög mikið af músíkinni. Við gerum svona flesta grunna fyrir plöturnar okkar. Ég er alveg frekar sterkur í því, þó ég segi sjálfur frá. Söngurinn er svolítið svona vinnutækið mitt, röddin. Hún hefur framfleytt mér síðustu ár svo hún er klárlega svona einn af styrkleikum mínum. Svo er maður ágætur básúnuleikari líka og ágætur í að útsetja. Þetta eru allt svona samverkandi þættir.“
Hvernig lá leið þín í tónlistina?
„Ég byrjaði mjög ungur að læra á básúnu. Ég lærði reyndar fyrst, eins og allflestir, á blokkflautu. Áður en ég fór að læra á blokkflautuna þurfti ég að taka hálft ár eða eitt ár á Es-horn, sem er lítið horn. Ætli ég hafi ekki verið sjö ára gamall þegar ég byrjaði að læra á básúnuna. Ég held ég hafi tekið fimm stig í klassískum básúnuleik í Tónlistarskólanum í Keflavík. Ég fór svo í FÍH og tók fjórða stig þar í jazz-básúnuleik. Ég var þá líka í Listaháskólanum og er með BA-gráðu í tónsmíðum, háskólagenginn tónlistarmaður. Ég hafði svona verið að fikta við að gera tónlist með Ásgeiri, við vorum í hljómsveit sem hét Streng. Svo fjaraði sú hljómsveit út og við byrjuðum með aðra hljómsveit sem við kölluðum á endanum Valdimar. Við byrjuðum að taka upp 2009 og svo kom út fyrsta platan 2010. Ég byrjaði ekkert að syngja fyrr en ég var svona tvítugur en hef verið mjög lengi í básúnuleiknum og tónlistarnáminu. Maður mætti líka á fótboltaleiki með básúnuna í Puma-sveitinni. Við komumst í sjónvarpið og allt! Það er mikil tónlist í ættinni, í blóðinu. Auðvitað græðir maður á því.“
„Við vorum í einhverju bölvuðu basli að finna nafn á hljómsveitina, við ætluðum að heita Hafstola eða eitthvað svona fáránlegt. Kvintett Valdimars Guðmundssonar var einhvern tímann pæling. Svo nefndi Ásgeir það að keflvísku hljómsveitirnar, Hljómar og Hjálmar, enduðu á -mar. Þá stakk hann upp á Sigmar en einhvern veginn, út frá þessu, enduðum við á að Valdimar varð fyrir valinu. Þetta er ekki einhvert svona „egó-thing“ hjá mér að hljómsveitin verði að heita Valdimar því ég heiti það. Ásgeir kom með þessa tillögu og okkur fannst þetta mjög skondið.“
Páll Ketilsson ræddi við Valdimar en hann var í viðtali í Sjónvarpi Víkurfrétta, Suðurnesjamagasín í febrúar.