Rockville er vagga rokksins
- Tónlistarhátíðin Rockville haldin í tíunda sinn
Sandgerðingurinn Halli Valli hefur komið sér vel fyrir í Danmörku en þaðan hefur hann haft umsjón með tónlistarhátíðinni Rockville undanfarin tvö ár. Halli hefur í raun verið með puttana í hátíðallar götur frá árinu 2005 þegar Rockville hóf göngu sína. Tónlistarveislan verður haldin um helgina 1.- 3. maí nk. en hátíðin fer að venju fram á Paddy's í Reykjanesbæ. Í fyrra fagnaði Paddy's 10 ára afmæli sínu með pompi og prakt en staðurinn hefur stuðlað að því að veita ungu og efnilegu tónlistarfólki af Suðurnesjum tækifæri til þess að láta rödd sína heyrast. Að sögn Halla hefur það einnig verið markmið Rockville.
Halli segir að erfiðlega hafi gengið að hafa uppi á ungum hljómsveitum frá Suðurnesjum þetta árið. „Ég er orðinn það gamall að maður þekkir ekki þá krakka sem eru að spila í bílskúrsböndum. Ég leitaðist mikið eftir því að finna slík bönd en það gekk erfiðlega,“ segir Halli. Þó eru heimamenn að stíga á stokk um helgina en þar er m.a. um að ræða böndin: Aesculus, Ælu, Mystery boy og G-Strengi frá Keflavík.
Dagskráin er mjög vegleg að þessu sinni en ljóst er að Rockville hefur fest sig í sessi sem lítil og fremur náin hátíð tónlistaráhugafólks. Upprunalega var þó fyrirhugað að Rockville myndi vaxa og dafna og verða nokkuð stór í sniðum. „Við sáum fyrir okkur að þetta yrði alvöru hátíð þar sem fólk gæti gist og svona. Ekki ósvipað og ATP hátíðin á Ásbrú. Við vildum gefa lókal böndunum möguleika. Það er ennþá markmiðið.“ Halli segir að einnig hafi verið ætlunin að draga jaðarbönd úr Reykjavík til Suðurnesja og reyna að sýna þeim menninguna á svæðinu. Það hefur loðað við hátíðina að ung og upprennandi bönd hafa fengið tækifæri. Síðar meir hafa þau mörg hver svo gert góða hluti bæði á íslenskum og erlendum markaði.
Rokkið hófst í Rockville
Nafnið á hátíðinni er fengið að láni frá grjótaþorpinu Rockville sem stóð á Miðnesheiði en á sínum tíma vildu skipuleggjendur hátíðarinnar að hætt yrði við að rífa þær byggingar sem þar stóðu og þær yrðu jafnvel nýttar undir tónlistarþróunarmiðstöð. Þorpið var jafnað við jörðu og á heiðinni eru eftir sorglegar götur þorpsins og grunnar húsanna sem þar stóðu. Hljómar og fleiri góð bönd af Suðurnesjum hófu sinn tónlistarferil í Rockville. Þannig vildu aðstandendur hátíðarinnar heiðra minningu staðarins og vöggu rokksins á Íslandi.
Halli hefur verið söngvari hljómsveitarinnar Ælu en nú er allt útlit fyrir að plata með sveitinni sé að koma út. „Hún hefur verið tilbúin þannig séð síðan 2008. Við erum búnir að taka hana upp þrisvar og erum núna loks ánægðir,“ segir Halli og hlær en hann hefur einnig verið að grúska í tónlist í Danmörku þar sem hann er búsettur. Þar hefur hann m.a. verið að spila í afrísku bandi og kántrýhljómsveit. Halli Valli vonast eftir góðri stemningu um helgina en hann býst við fólki á öllum aldri og hvaðanæfa af, enda dagskráin fjölbreytt eins og sjá má hér að neðan. Miðaverð á hátíðina er 3.500 fyrir helgarpassa sem gefur aðgang alla daga og veitir 500 kr. afslátt á Rokksafn Íslands í Hljómahöll. 1.500 krónur fyrir stakt kvöld.
Dagskráin um helgina:
FIMMTUDAGUR 1. MAÍ
21:00 - Aesculus
21:45 - Conflictions
22:30 - Icarus
23:15 - TBC
00:00 - In The Company Of Men
FÖSTUDAGUR 2. MAÍ
21:00 - dj. flugvél og geimskip
21:45 - Caterpillarmen
22:30 - Aela (Æla)
23:15 - Lokbrá
00:00 - Skelkur í bringu
01:00 - 04:30 - G-Strengirnir Keflavík
LAUGARDAGUR 3. MAÍ
21:00 - Íkorni
21:45 - Johnny And The Rest
22:30 - Eyþór Ingi og Atómskáldin
23:15 - Markús and the Diversion Sessions
00:00 - Mystery Boy feat. Mixed Emotions
01:00 - 04:30 - Diskótekið Mixed Emotions