Robin Nolan Trio í Listasafni Reykjanesbæjar
Robert Nolan Trío leikur í Listasafni Reykjanesbæjar n.k. fimmtudagskvöld 3. febrúar kl. 19:30. Hið þekkta trio er um þessar mundir á ferð um Ísland til tónleika- og námskeiðahalds. Dagskrá tríósins í ferðinni er mjög þétt, en m.a. mun hljómsveitin fara til Akureyrar og Vestmannaeyja.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar var svo heppinn að komast inn í dagskrána og mun Robin Nolan Trio halda tónleika á vegum skólans í Listasafni Reykjanesbæjar, Duushúsum, á morgun.
Robin Nolan Trio er vel þekkt og hefur ferðast víða um heiminn til tónleikahalds og eiga þeir félagar marga aðdáendur hér á landi. Tónlistin sem hljómsveitin leikur er sígaunadjass og tónlist í anda Django Reinhardt. Þetta er tónlist sem sjaldan heyrist hérlendis og er mjög sérstök og spennandi.
Aðgangur að tónleikunum verður ókeypis og eru allir hjartanlega velkomnir.