Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Róandi rannsóknarvinna
Fimmtudagur 24. desember 2009 kl. 16:17

Róandi rannsóknarvinna

Í Sandgerðisbæ starfrækir Umhverfisráðuneytið rannsóknarstöðina BIOICE fyrir botndýr á Íslandsmiðum í samstarfi við Háskóla Íslands, Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun, Sjávarútvegsráðuneyti, Sandgerðisbæ og fleiri aðila. Það eru ekki margir sem vita af þessum vinnustað, sem þó veitir níu konum atvinnu og mun fleiri vísindamönnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Konurnar níu eru viðfangsefni dagsins en þær hafa starfað í mörg ár við rannsóknir á lífríki sjávarbotnsins við Íslandsstrendur, sumar hafa starfað við þessi rannsóknarstörf í sautján ár eða allt frá opnun rannsóknarstöðvarinnar. Þær segjast hafa mjög gaman af starfinu og lofa vinnutímann, sem er frekar frjáls en þær eiga að skila ákveðnum tímafjölda á mánuði og ráða því hvenær dags þær byrja að vinna. Sumar kjósa að mæta eldsnemma eða klukkan sex á morgnana og skila þá fyrr af sér vinnutímum dagsins.


Þessi vísindastörf eru öll unnin í gegnum víðsjá og konurnar fá sýni send alls staðar frá landinu okkar og einnig erlendis frá en nú síðast voru þær að klára rannsóknir með sýnum frá Noregi. Hingað til lands kom norskur líffræðingur, kona sem dvaldi í eitt ár og þegar hún fór til síns heimalands aftur þá ákvað hún að senda hingað sýni til rannsókna því hún hreifst svo af starfseminni í Rannsóknarstöðinni og vildi eiga samstarf við þá sem hér starfa.

Alls konar ormar


„Ég er að finna og flokka burstorma“, segir Efemía Guðbjörg Andrésdóttir, sem er önnum kafin við að skoða í víðsjá og taka frá agnarsmáar lífverur með flísatöng, sem hún setur í annan bakka. Blaðamaður spyr hvers vegna risastórri slöngu sé snúið að víðsjánni. „Nú það er til þess að við fáum frískt loft, því annars værum við alltaf hálf kenndar, öll sýnin liggja nefnilega í spritti, formalíni og fleira en þessu öndum við að okkur ef ekki væri loftræsting“, segir Efemía hressilega og hlær.


Það er sérstakt andrúmsloft inni á svona rannsóknarstofu og blaðamaður er forvitin að vita meira. Til hvers erum við að þessu? Skiptir þetta einhverju máli fyrir okkur?


Því svara þær allar játandi, það þarf að vita hverju er verið að fórna td. þegar reist er olíuhreinsistöð á Drekasvæði, hvaða lífríki er þar á hafsbotni og hversu fjölbreytt er það. Nú þegar, er búið að taka einhver sýni en heildarrannsóknir fara ekki í gang fyrr en nægilegt fé fæst til þess. Rannsóknir eru nauðsynlegar svo við vitum hvaða áhrif maðurinn getur haft á lífríkið í kringum sig með því að bera það saman fyrir og eftir framkvæmdir.

Áhrif mengunar á náttúruna


„Við höfum td. verið að skoða mosategundir í kringum álver og kanna ástand loftmengunar á mosann. Sýni eru tekin og svo nokkrum árum seinna eru önnur sýni tekin, sem borin eru saman við þau eldri en þá kemur glöggt í ljós hversu mikil mengun hefur orðið á lífríkinu í kringum td. eitt álver“, segir Guðbjörg Haraldsdóttir, sem segir jafnframt að þetta sé frábær vinnustaður og spennandi. „En fyrst þegar maður byrjar að vinna á svona vinnustað þá þarf maður að trappa sig niður,“ og Ester Grétarsdóttir jánkar því. „Við vorum vanar að vinna í akkorði í fiski og komum svo hingað þar sem allt fer fram í rólegheitum og við urðum að róa okkur niður, því hér hefst ekkert með látum, allt tekur sinn tíma og hlutirnir vinnast í rólegheitum“, segja þær báðar.


„Já, þetta er rólegt starf, aldrei neitt stress því það þýðir ekki neitt. Hér verðum við að vera þolinmóðar og vandvirkar. Nákvæmni er lykilatriði“, skýtur Hrafnhildur Geirsdóttir inn í. „Mér finnst róandi að setjast við víðsjánna og rannsaka sýni, maður lærir slökun ef maður kann það ekki þegar hingað er komið í vinnu“, segir Sigrún Haraldsdóttir.


Allar níu konurnar sjá um að flokka og greina í ættir en síðan taka líffræðingar við og rannsaka enn frekar. Þær rannsaka m.a. innyfli fiska og margt margt fleira. Þær eru að undirbúa og einfalda verk líffræðinga og segjast hafa lært heilmikið í starfinu án þess þó að vera með neina sérstaka líffræðimenntun en reynslan hefur kennt þeim meira en margt annað. Það má orðið fletta upp í þeim sem hafa unnið hér lengst ef þú vilt fá fróðleiksmola um einstakar lífverur því þær búa að dýrmætri visku um lífríki sjávar og jafnvel sveita.


Einstakt verkefni á heimsmælikvarða


Rannsóknarverkefnið Botndýr á Íslandsmiðum hófst árið 1992 og er líklega eitt stærsta verkefni sinnar tegundar sem unnið er að í heiminum. Það miðar að því að skrásetja botndýrategundir í sjónum innan íslenskrar efnahagslögsögu, sem spannar nærri 800 þúsund ferkílómetra hafsvæði, skráð er útbreiðsla þeirra, magn og hugsanleg áhrif ýmissa umhverfisþátta á dýrin stór og smá. Markmiðið er að byggja upp góðan gagnagrunn sem nýta má til margvíslegra verkefna sem tengjast verndun og skynsamlegri nýtingu lífríkisins í hafinu og vöktun þess.


„Þegar farið var í Kárahnúkavirkjun þá fengum við það verkefni að flokka vegna rannsókna á lífríki sjávar útfyrir Austfjörðum. Tekin voru sýni og líffræðingar fengu þau flokkuð frá okkur en sýnin verða síðar borin saman við nýrri sýni til að athuga áhrif virkjunarinnar á lífríki sjávar undan ströndum Íslands austanmegin“, segir Guðbjörg.


„Stundum finnst manni þetta ekkert ganga en samt vinnst ótrúlega mikið undan okkur, þetta er bara svo smátt og við þurfum að lesa öll nöfn lífvera á latínu, ekkert er á íslensku. Við þurfum einnig að merkja hverja einustu krukku vel“, segir Hrafnhildur. Hún segir að stundum bjóðist þeim óvæntar vísindaferðir út á rúmsjó með líffræðingum og það sé ógurlega gaman.


Þegar þær eru spurðar út í félagslífið á vinnustaðnum þá segjast þær passa vel upp á það. „Já, já við erum með hangikjöt í desember og litlu jól með mökum okkar, jólapakkar og hvaðeina. Svo gerum við margt saman, við vorum að koma úr óvissuferð um daginn þar sem við fórum í Fljótshlíðina að heimsækja fyrrum prest okkar hérna, hann séra Önund. Við erum með á árshátíð Sandgerðisbæjar og fáum að taka þátt í öllu sem bæjarstarfsmönnum býðst“, segir Guðbjörg og hún segir að þær séu með frábæra yfirmenn í stöðinni, alveg yndislega ljúflinga.

Yndislegir yfirmenn


Þá lá beinast við að taka yfirmanninn góða tali og spyrja hann út í starfsemina, Guðmundur Víðir Helgason heitir maðurinn og er líffræðingur, einn af þeim sem átti hugmyndina að þessari rannsóknarstöð árið 1992. „Já, verkefnið gengur út á það að rannsaka botndýr frá 20 metra dýpi og allt niður í 3000 metra, þar sem dýpst er austan megin við landið okkar. Við erum einnig með erlend sýni og rannsökum þau. Svo eru önnur send erlendis því við ráðum ekki yfir þekkingu á öllum sýnum“, segir Guðmundur Víðir.


Aðspurður út í starfsstúlkurnar sínar þá segir hann, „Já, þær eru mjög reyndar og vandvirkar, ég er ánægður með þær. Það býr mikil reynsla í konunum níu, sem hér starfa, ómetanleg þekking. Það er vonandi að við fáum að halda áfram þessu starfi nú á niðurskurðartímum. Það eru blikur á lofti. Botndýraverkefni er að ljúka og óljóst um  verkefni á næsta ári og fjármögnun stöðvarinnar. Þetta er viðkvæmt starf og alls ekki gott að leggja það niður, varla hægt því allar lífverurnar sem þú sérð hérna í krukkum út um allt færu forgörðum, fyrir utan alla þá þekkingu sem býr í starfsfólkinu hérna í gegnum 17 ár“, segir Guðmundur Víðir alvarlegur.


Blaðamaður kveður þennan einstaka vinnustað og heldur út í hressandi rigninguna.


Maður verður stoltur þegar hugsað er til þess að í litlum bæ niður við sjó á Íslandi er vísindastarf unnið á heimsmælikvarða. Vonandi sjá yfirvöld sér fært að halda áfram þessu stórmerkilega vísindastarfi okkar Íslendinga.

Texti og myndir: Marta Eiríksdóttir // fyrir blómstrandi mannlíf í Víkurfréttum.