Risatónleikar Valdimar og Lúðrasveitarinnar
Hljómsveitin Valdimar mun ásamt Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar koma fram á tónleikum í Andrews leikhúsi á Ásbrú þann 27. apríl næstkomandi. Flutt verða lög af tveimur fyrstu plötum hljómsveitarinnar í nýjum og stórglæsilegum lúðrasveitarbúningi. Lúðrasveit Tónlistarskólans er skipuð 40 afbragðs nemendum og leikur undir styrkri stjórn Karenar Sturlaugsson.
Hljómsveitina Valdimar þarf vart að kynna. Árið 2010 spruttu þeir fram á sjónarsviðið með útgáfu plötunnar Undraland og urðu í framhaldi af því fljótlega ein af vinsælustu hljómsveitum landsins. Í fyrra gáfu þeir svo út plötuna Um Stund sem fékk gríðarlega góðar viðtökur frá gagnrýnendum og naut mikilla vinsælda.