Risastór rófa hjá börnunum á Suðurvöllum
Börnin í leikskólanum Suðurvöllum voru heldur betur ánægð þegar þau litu í grænmetisgarð sinn nú á dögunum en í vor var ákveðið að prófa að setja niður grænmeti þrátt fyrir, að sögn Salvarar Jóhannesdóttur skólastjóra leikskólans, allar vondar spár sem sögðu að slíkt myndi aldrei fá að vera í friði.
Meðal uppskeru barnanna var risastór rófa eins og sést á myndinni hér til hliðar en börnin fóru með hana til matráðsins og báðu um að hún yrði skorin svo allir gætu smakkað. Hún var síðan borðuð með góðri lyst í ávaxtatímanum.
En það var ekki bara grænmetið sem gladdi börnin heldur einnig sumarblóm sem voru sett niður í vor en þau prýða leiksvæðið og að sögn Salvarar munu börnin halda áfram með garðræktina eftir þennan góða árangur.
Myndin: Börnin voru hæstánægð með rófuna sem var risastór