Ríkulegt tungutak óspart notað
„Við tölum um sletturnar og gerum leik úr því að finna sambærilegt íslenskt orð,“ segir Daníella Hólm Gísladóttir, íslenskukennari í Heiðarskóla
Það gustaði af Daníellu Hólm Gísladóttur, íslenskukennara á unglingastigi í Heiðarskóla í Reykjanesbæ, en hún ásamt samstarfskennurum sínum á unglingastigi vinnur í því að örva og hvetja nemendur sína bæði málfarslega og á bókmenntasviðinu. Hún hefur brennandi áhuga á móðurmálinu og þykir vænt um að halda því lifandi og eins réttu og unnt er. Nemendurnir hljóta að hafa unun af því að vera í íslenskutímum með svona ástríðufullum kennara.
Góður kennari kveikir í nemendum
Daníella er með meistaragráðu í faggreinakennslu þar sem sérsvið hennar var íslenska, leiklist og lífsleikni. „Í grunnskóla átti ég ekki mjög auðvelt með málfræðina í íslensku, hafði lítinn áhuga á henni en ég elskaði að lesa og skrifa, las mikið af bókum, þær sem efldu lesskilning minn og sköpunargáfu. Svo þegar ég byrjaði í FS þá kynntist ég frábærum íslenskukennurum, þeim Þorvaldi og Huldu Egils, sem hafði þau áhrif á mig að ég vildi læra endalaust meira í íslensku og tók alla íslenskuáfanga sem voru í boði. Þetta var svo gaman og þau ásamt hinum íslenskukennurunum höfðu svona jákvæð áhrif á mig. Það skipti öllu,“ segir hún og blaðamaður er viss um að Daníella hafi sjálf fangað þennan eldmóð góðs kennara sem þarf til þess að heilla nemendur. Kennarar dagsins í dag hljóta að vera í mikilli samkeppni um athygli nemenda sinna og þurfa jafnvel að vera hálfgerðir skemmtikraftar eða lifandi fræðarar því annars missi þeir mögulega athygli og áhuga nemenda.
Orð vikunnar
Íslenskukennarar á unglingastigi í Heiðarskóla örva nemendur sína með orði vikunnar og velja nýtt orð í hverri viku. Þessa vikuna var „greiðvikinn“ orðið sem þeir vildu vinna með á mismunandi vegu. Þá er spjallað um þýðingu orðsins og krufin merking þess með nemendum, búnar til setningar því íslenskt mál er sérlega myndrænt og lýsandi og þetta finnst krökkunum yfirleitt gaman. Haldið er á lofti mikilvægi þess að tala rétt og að velja íslensk orð yfir hlutina fremur en enskar slettur. Krakkarnir skilja það að samræmdar málfræðireglur skipta miklu máli. „Ég spyr nemendur hvers vegna það er mikilvægt að tala rétt. Þau svara án þess að hika að við verðum að hafa málfræðireglur því annars ættum við erfiðara með að skilja hvert annað og tjá okkur. Ég hef gaman af því að ígrunda tungumálið með nemendum mínum. Ég kenni íslensku í 7.–10. bekk og hef því oftast sama bekkinn öll árin. Það býður upp á góð tækifæri til að henda inn málfræðireglum inn á milli í upprifjun og leyfa nemendum að spreyta sig. Ég hvet þau til að vera skapandi, ekki vera hrædd við að tala vitlaust því það gefi okkur tækifæri til að leiðrétta og læra meira í leiðinni. Við leikum okkur með orðatiltæki en nemendur fá orðatiltæki eða málshætti einu sinni viku, rétt eins og orð vikunnar, og ég hvet krakkana einnig til að nota orð úr Íslendingasögunum sem við lesum á unglingastigi. Tungumálið okkar er með þeim elstu í heiminum og við eigum að vera stolt af því að tilheyra lítilli þjóð, þeirri einu sem talar þetta tungumál,“ segir Daníella og bætir við að henni þyki mjög vænt um móðurmálið sitt og að fá að kenna það sé heiður sem hún er að njóta í botn.
Menningararfurinn
Að nemendur noti ríkulegt tungutak er áríðandi. „Öll tungumál eru á hreyfingu en við eigum að vera dugleg að nota íslensk orð þegar við getum og það hvetjum við nemendur til að gera. Við tölum um sletturnar og gerum leik úr því að finna sambærilegt íslenskt orð. Nemendur hafa gaman af því. Íslenskt mál er krefjandi málfræðilega en þeir sem byrja að nota það á yngri árum eiga yfirleitt auðveldar með að tileinka sér málið. Ensk áhrif eru alls staðar en íslenskt mál á alltaf orð yfir allt, við þurfum bara að finna þessi orð og nota þau og hafa gaman af því, vera metnaðarfull,“ segir Daníella.
Notast er við leikræna tilburði til að kveikja í nemendum og nemendur eru einnig hvattir til að leika fyrir framan bekkinn. Stundum taka þau mismunandi orðatiltæki og leika þau og það finnst öllum gaman. Leiklist fléttast því oft inn í íslenskutímana og hjálpar stundum að útskýra betur einhver íslensk orð.
Gamla kennarahjartað í blaðamanni byrjar að slá þegar hún hlustar á Daníellu segja frá kennslustundunum og man sjálf hvers vegna það var svo gaman að kenna móðurmálið á sínum tíma. Líklega skemmtilegasta tungumál heims til þess að garfa í, ígrunda og miðla áfram til næstu kynslóðar.