Ríkir gefa fátækum
Það var fjörug stemning í salnum á leikskólanum Akri einn seinnipart í byrjun nóvember, þegar börn og foreldrar voru í óðaönn að setja dót ofan í skókassa en þetta voru jólagjafir. Framtakið kemur upphaflega frá KFUM og K og er falleg hugsun á bakvið þessar jólagjafasendingar.
Hvað er „Jól í skókassa“?
„Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Með slíkum gjöfum er þeim sýndur kærleikur Guðs í verki. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að tilteknir hlutir séu í hverjum kassa.
Fyrir jólin 2004 ákvað hópur ungs fólks innan KFUM og KFUK að láta reyna á verkefnið hér á landi. Þá voru undirtektirnar frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar það árið. Verkefnið hélt svo áfram og árið 2005 urðu skókassarnir 2600. Sú tala nær tvöfaldaðist árið 2006 þegar tæplega 5000 gjafir bárust og svipaður fjöldi aftur árið 2007.
Mikil fátækt í Úkraínu
Skókassarnir eru sendir til Úkraínu. Þar búa um 50 milljónir manna og er atvinnuleysi mikið og ástand meðal íbúa víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift er allt að 80% atvinnuleysi og þar ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum er meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.
Flest börnin búa á munaðarleysingjaheimilum við erfiðar aðstæður. Þau eiga ekkert sjálf og dagarnir eru allir eins. Þau vakna á sama tíma, horfa á sjónvarp og leika sér á ákveðnum tímum og fara að sofa á ákveðnum tíma. Engin tilbreyting. En þegar skókassarnir koma frá Íslandi gerist eitthvað. Þau fá gjafir sem þau eiga sjálf, þau skynja að það er ekki öllum sama um þau, þau finna kærleikann. Svo fá þau að gefa sjálf þegar Íslendingarnir koma með kassana. Þau undirbúa alls konar sýningar, búa til sælgæti og föndra kort. Þau læra um Ísland og munu aldrei gleyma því þetta er þeim svo mikilvægt.
Kirkjan í Úkraínu er rússnesk rétttrúnaðarkirkja og starfar KFUM í Úkraínu innan þeirrar kirkjudeildar. Aðalskipuleggjandi dreifingarinnar í Úkraínu er faðir Evheniy Zhabkovskiy sem komið hefur tvisvar hingað til lands í heimsókn.
Hollt að gefa frá sér
Stjórn foreldrafélags leikskólans á Akri á hugmyndina að jólagjafasöfnuninni á Akri en þar er formaður Þóranna Jónsdóttir, en ásamt henni í stjórn eru Ósk Laufey Óttarsdóttir og Mille Toft Sörensen. Tekið var vel í hugmyndina af foreldrum, leikskólanum sjálfum og þeim fyrirtækjum sem leitað var til. Gjafirnar sem settar eru ofan í skókassana koma einnig frá börnunum sjálfum. „Já okkur fannst það hollt fyrir börnin okkar að gefa frá sér dót, sem þau jafnvel eru ekkert að nota og önnur fátækari börn gætu jafnvel ekki látið sig dreyma um að eignast. Við höfum það svo gott hérna miðað við svo marga í heiminum, þrátt fyrir allt. Börnin okkar eru alin upp í allsnægtum af öllu tagi. Við vorum svo heppin með fyrirtæki, því þau hreinlega misstu sig í gjafagleði, æðislegt hvað þau voru góð við okkur. Við erum þeim svo þakklát“, segir Þóranna. Stjórnin er að prófa þessa söfnun í fyrsta sinn og miðað við undirtektir foreldra og barna þá vilja þær sjá þetta fallega framtak aftur að ári í leikskólanum Akri.
„Börnunum fannst þetta spennó, að sjá notuð föt og gömul leikföng gefin frá sér, þau voru sjálf hrifin af hugmyndinni og vildu vera góð við fátæku börnin. Þrátt fyrir að við kvörtum hérna heima, þá höfum við það svo gott miðað við börnin í Úkraínu, sem búa mörg við mikla fátækt. Við í stjórn erum svo þakklátar foreldrum fyrir að koma hingað og vera með í söfnuninni, ómetanlegt og leikskólanum fyrir að vera með,“ segir Þóranna.
Greinarhöfundur þekkir sjálf til Úkraínu, hún á hreinlega mágkonu þaðan og veit af eigin raun hvernig mágkonan brást við ýmsu hér á landi þegar hún flutti hingað. Það sem okkur fannst sjálfsagt mál, var lúxus í hennar huga. Bara það að hafa rennandi vatn í húsinu, hvað þá heitt rennandi vatn! Bara það að fá ilmsápu í jólagjöf eða geta farið í rennandi sturtubað á hverjum degi eða hafa heitt inni í húsinu eru mörg stig upp á við í lífsgæðum. Já, þetta er ótrúlegt að heyra fyrir okkur dekurdýrin hérna á Íslandi en svona er þetta og mágkona mín stóð samt ágætlega þar í landi fjárhagslega miðað við marga. Við vitum ekki hvað við höfum það gott hérna, fyrr en við fréttum af eðlilegum lífsgæðum td. í Úkraínu.
Mamma vildi ég það?
Tvö börn voru tekin tali mitt í hamaganginum og þau spurð út í gjafirnar. Kristín Embla Magnúsdóttir var spurð fyrir hvern hún væri eiginlega að pakka þessum jólagjöfum inn. „Þetta er handa stelpu, sem á heima langt langt í burtu. Bangsa og dúkku. Þeir á ekki neitt dót“, svaraði Kristín Embla. Þegar hún var spurð hvort hún fengi dót í jólagjöf sjálf, þá svaraði hún með kannski og horfði á mömmu sína, sem brosti til hennar.
Jón Garðar Arnarsson var næst spurður hverjum hann væri að senda jólagjöf í skókassa? „Stelpa í Úkraínu, já líka strák“, svarar Jón Garðar, þegar hann var spurður hvort hann hafi alveg viljað gefa gjafir frá sjálfum sér, þá leit hann á mömmu sína og spurði; „Tímdum við því?“ og mamman jánkaði og sagði að hann hefði gefið bolta, svo svaraði hann eftir að hafa ráðfært sig við mömmu sína til að rifja betur upp og hún svaraði já, já „já, mig langaði það“.
Þau voru mörg börnin, sem voru viljug að gefa frá sér en heyra mátti smá væl í einhverjum þegar á hólminn var komið. Þarna var t.d. ein lítil sem tímdi ekki að gefa inniskóna sína, sem voru samt orðnir allt of litlir, henni fannst þetta eitthvað erfitt þegar á reyndi en svo gat mamma talað hana til og sú litla gaf gömlu inniskóna frá sér.
Börn eru svo mikil krútt, þau eru oft miklir lífsspekingar og stundum svo fyndin án þess að ætla sér það. Hlakka til sjálf að eignast barnabörn, svo ég geti hlustað á þessar elskur oftar.
Dásamlegt!