Riðið um Reykjanes
Að ríða um stórbrotna náttúru Reykjanesins sem er oft líkt við tunglslandslag er yndisleg upplifun. Þar leynast hverir, hellar og önnur leyndarmál hraunsins. Hestaleigan Vík í Grindavík gerir óvönum sem og vönum reiðmönnum kleift að kynnast náttúrunni á baki fjórfætlings. Leigan hefur allt upp í 20 hesta á sínum vegum og bíður upp á reiðtúra um Reykjanesið. Hópsneshringurinn er oft riðinn, hringurinn í kringum Þorbjörninn er einnig mjög vinsæll og svo er það lengri túrinn sem fer út á Reykjanestanga. Allir aldurshópar eru velkomnir í túrana og segir Kristólína, eigandi leigunnar, að yngsti reiðmaðurinn sem hafi komið með þeim í reiðtúr hafi verið 5 ára gamall. Leiðsögumaður er ávallt með í för svo enginn ætti að villast.