Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 10. júlí 2000 kl. 12:59

Riðið um Reykjanes

Það er engin náttúrufegurð á Suðurnesjum. Ha, engin? Bara að grínast! Jú, það er sko heilmikil náttúrufegurð á Suðurnesjum. Flest okkar sitja þó í bíl sem keyrir býsna hratt framhjá fjallahringnum til hægri við Reykjanesbrautina og sjáum aldrei neitt inn á milli fjalla. Hestamaðurinn mikli Óli Gunn í Njarðvík, (stundum kallaður „Sá besti”) fer um hverja hvítasunnuhelgi í ferðalag á hestum sínum um Reykjanes. Óli þekkir þetta svæði eins og fingurna á sér. Hann þekkir öll örnefni og veit um bestu og öruggustu reiðleiðirnar þarna. Hann fer oftast einn með nokkur hross um hvítasunnuna,stundum tíu til tólf hross. Hann er engum líkur þegar kemur að hestum og hestarnir hans hlýða honum í einu og öllu. Nema auðvitað þeir sem hafa sjálfstæðan vilja en þannig hesta finnst honum einnig gaman að kljást við. Rekstur hrossa frá Mánagrund Óli gerði undanþágu þetta árið og hleypti útvöldum eðalvinum með sér í hestaferðina um fjöllin blá. Þetta fólk voru bæði þaulreyndir hestamenn og nýgræðingar í hestamennsku m.a. greinarhöfundurinn Marta Eiríksdóttir. Stemningin í ferðinni var afar skemmtileg og slegið var á létta strengi. Ferðalagið hófst um kaffileytið á föstudeginum frá hesthúsinu hans Óla á Mánagrund. Frá Vogum kom hestakonan mikla, Guðný Snæland og hjálpaði til við reksturinn. Lagt var af stað með nokkra lausa hesta og riðið var inn í Voga með viðkomu í Innri-Njarðvík en þar bættist Gummi Sigurðs. söngvari í hópinn með sína fjóra hesta. Í Vogum voru allir hestarnir settir inn í girðingu og látnir hvílast til morguns. Í Vogum er lítið skemmtilegt hestamannasamfélag og þar fengum við notalegar móttökur hjá Tobba og Önnu Lind. Morguninn eftir var lagt af stað með tuttugu og þrjú hross. Óli Gumm hestamaður úr Vogunum og Gunni Gunn úr Reykjavík (bróðir Óla Gunn) komu með í ferðina ásamt Hreini, ellefu ára gömlum syni Gumma Sigurðs. Knapar voru því sjö talsins í ferðinni. Megnið af hestastóðinu fékk að ríða frjálst í upphafi ferðar og var unun að horfa á hestagleðina í þeim. Þeir spörkuðu afturendanum upp í loft og hneggjuðu í frelsinu sínu. Þegar reksturinn var kominn yfir Reykjanesbrautina þá var nánast öllum hestum gefið frelsi. Knapar voru vinsamlegast beðnir að ríða aftan við stóðið eða framan við það. Reyndustu hestamennirnir í hópnum sáu til þess að hestarnir færu hvergi. Það var tignarleg sýn þegar maður leit aftur og sá stóðið hlaupa frjálst á eftir okkur. Það er makalaust hvað hestarnir fylgja straumnum eftir. En þetta gera þeir. Auðvitað fór stundum einhver hesturinn út úr stóðinu og hinir fylgdu á eftir en að mér læddist sá grunur að alvöru hestamenn hefðu bara gaman af því. Þá fengu þeir nefnilega tækifæri til þess að hleypa hestinum sínum og reka hina hestana aftur inn í okkar hóp. Þá vorum við virkilega í kúrekaleik! Þeir segja mér gárungarnir að svona ferðalag með frjálst stóð jafnist á við mánaðartamningu á ótömdu. Þess vegna vorum við einnig með ótamin hross í ferðinni. Stundum tók Óli Gunn sig til og reið ótömdum hestum í ferðinni. Ótemjurnar reyndu að berjast á móti honum og prjóna með hann sem sat eins og límdur í hnakkinn. Þeir urðu þá að beygja af og gefa sig Óla á vald. Svona ferðalag er gífurleg þjálfun fyrir alla hesta og auðvitað fólk líka. Með hestastóð yfir Reykjanesbrautina Frá Vogum var riðið í Kúagerði. Þar kom Hulda Pétursdóttir, eiginkona Óla Gunn og gaf öllum að borða. Þarna nærðust bæði hestar og menn. Hestunum fannst voða gott að bragða á söltu grasinu í flæðarmálinu. Þegar allir höfðu étið á sig gat var ferðinni haldið áfram. Nú var að fara yfir brautina umferðarþungu. Ég var nú hálfkvíðin að það mundi ekki takast en viti menn allt gekk eins í sögu. Þar komu þaulreyndir hestamenn og samstilling hópsins vel með aðstoð eiginkonu Óla sem veifaði til bílstjóranna á brautinni og sýndu þeir okkur tillitssemi. Nú var ys og þys að baki og við tók tignarlegt „tunglumhverfi” Reykjaness. Í fyrstu var hraunið allsráðandi í umhverfinu en svo grænkaði það þegar innar dró. Riðið var í gegnum Höskuldarvelli og þaðan inneftir. Lækir komu nú í ljós og há fjöllin sem maður sá eitt sinn aðeins í fjarska frá brautinni voru nú beint fyrir framan mann. Falleg sjón. Að kvöldi var numið staðar við Krókamýri sem er rétt við Vigdísarvelli. Þar voru hestarnir settir inn í gamlar réttir og rafmagnsgirðing strengd utan um þá því réttirnar héldu illa. Þarna komu akandi og færðu okkur veitingar makar þeirra Óla Gumm og Guðnýjar, þau Halla Guðmundsdóttir og Hafsteinn Snæland. Það var ljúft að renna niður matnum og hvílast. Annars er skrítið að mér fannst ég ekkert verða svo svöng á hestbaki. Við drukkum ískalt vatn í lækjum og maður varð einhvern veginn saddur af öllu súrefninu í hreinu loftinu. Þessa nótt gistu Óli Gunn og bróðir hans í tjaldi á staðnum. Óla finnst ekkert tiltökumál að sofa á milli þúfna undir berum himni þegar hann er á ferðalagi með hestana sína. Það gerir hann oft. Hann er svoddan náttúrubarn þessi drengur. Það er eflaust einungis fyrir harðasta fólk að fylgja honum eftir þegar hann ferðast eins og hann langar. Þá er jafnvel riðið í marga marga klukkutíma án hvíldar. Hann hefur mikið úthald og þarf nánast enga hvíld. Náttúran engu lík Frá Krókamýri var haldið af stað daginn eftir og riðið sem leið lá yfir fjöll og firnindi. Ég átti í mesta basli með uppáhalds hestinn minn sem vildi alls ekki bera mig upp eitt fjallið. Þessi hestastelpa er frekar smávaxin og létt meri. Hún heitir Ögrun og það er afskaplega mjúkt að ríða á henni. Henni fannst knapinn sjálfsagt allt of þungur í brattanum. Svo knapinn varð að gefa sig og fara af baki og teyma hestinn upp. Þessu næst skipti ég um hest og reið á Píu frænku hennar sem er sterkbyggðari. Pía kvartaði ekki baun! Riðið var inn á milli fjalla og útsýnið kom manni sífellt á óvart. Þar var bæði grátt umhverfi, mosavaxið eldgamalt hraun og svo græn engi. Stór vötn og heit hverasvæði komu í ljós þegar við vorum komin á Krísuvíkursvæðið. Tignarleg sjón þegar við sáum fuglalífið í Krísuvíkurbjargi. Á hvítasunnudag endaði ferðin í Ísólfsskála í Grindavík. Daginn eftir hélt reksturinn áfram og lauk í Vogum og svo út á Mánagrund fyrir Óla og hestana hans. Ferðalagið tók fjóra daga og var frábær upplifun á hestbaki um náttúru Suðurnesja sem glitrar af sérstakri fegurð og frumleika.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024