Reynir að smita frá sér jólagleði og aðstoða flóttamenn
Gunnar Hörður Gunnarsson er menntaður stjórnmálafræðingur og almannatengill, en hann segist þó fyrst og fremst vera FS-ingur. Síðan í febrúar 2017 hefur hann starfað við stafræna miðlun og almannatengsl fyrir Markaðsstofu Reykjaness. Gunnari finnst jólin snúast um bland af samveru með fjölskyldunni og góðum mat. Hann ætlar að verja jólunum með tengdafjölskyldu sinni og gefa til góðgerðamála.
Hvar ætlar þú að verja aðfangadegi?
„Ég og Perla, kærastan mín, munum eyða aðfangadeginum í Kópavoginum heima hjá foreldrum hennar. Tengdamamma gerir truflaða sveppasósu með hamborgarhryggnum og er alltaf með heimagerðan ís í eftirrétt. Rosalega kósý og ég hlakka mikið til.“
Ert þú byrjaður að kaupa jólagjafir?
„Já, byrjaður en ekki búinn. Ég gef ekki margar gjafir og þetta tekur vanalega ekki mjög langan tíma.“
Ert þú með einhverjar hefðir um jólin?
„Hefðirnar hafa tekið svolitlum breytingum síðustu ár. Lengst af horfðum ég og bróðir minn á einhverja jólateiknimynd, oftar en ekki var Mickey’s Christmas Carol fyrir valinu. Þegar ég vann í Bláa Lóninu fannst mér svo mjög næs að vinna fyrir hádegi í gestamóttökunni, þá komu ekki mjög margir en þeir sem komu voru mjög glaðir, ætli fjöldi gesta hafi ekki eitthvað aukist síðan það var. Í dag höfum við Perla farið með tengdó í heimsókn í kirkjugarðinn og svo farið og fengið okkur heitt kakó með fjölskyldunni. Það er mjög hátíðleg og jólaleg hefð sem ég hef komið mér inn í.“
Hvað verður í matinn á aðfangadag?
„Geri ráð fyrir að það verði hamborgarhryggur og heimagerður jólaís í eftirrétt. En átta mig núna á því að ég hef ekki fengið það staðfest. Fer kannski að spyrjast fyrir…“
Er eitthvað hér á Suðurnesjum sem þú mælir með að fólk nýti sér/geri um jólin?
„Það er náttúrulega ótrúlega margt spennandi í gangi. Duus húsin eru orðin sérstaklega jólaleg og ég mæli með því að kíkja þangað í heimsókn ef það vantar upp á jólaskapið. Annars er ég líka mikill matgæðingur og finnst jólin svolítið snúast um bland af samveru með fjölskyldu og vinum og rosa góðum mat. Ég geri ráð fyrir að fara út að borða einhvern góðan jólamat yfir hátíðarnar með fjölskyldunni hér á Suðurnesjum, mæli sterklega með því.“
Ætlar þú að láta eitthvað gott af þér leiða um jólin? Ef svo er, hvernig?
„Ég hef vanalega gefið til góðgerðarmála, málefni flóttamanna hafa verið mér mjög hugleikin síðustu tvö ár svo ég mun finna einhverja leið í ár til þess að styðja við verkefni sem aðstoða flóttamenn á einhvern hátt. Að gefa peninga er þó ekki eina svarið en mörg félög hér á Íslandi taka glöð á móti sjálfboðaliðum í kringum hátíðarnar, sjálfur hef ég nokkrum sinnum aðstoðað við úthlutanir hjá Mæðrastyrksnefnd en það er ekki erfitt verk en mjög gefandi. Svo er ég mjög mikið jólabarn og reyni að smita jólagleðina ótrúlega mikið frá mér, það hlýtur að leiða til einhvers góðs.“