Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Reynir að baka eins og mamma sín
Erla tók við sem sóknarprestur Keflavíkurkirkju á árinu. Hún var ein í framboði í prestkosningum. Kjörsókn var 21 prósent og hlýnaði Erlu um hjartarætur við það hve margir lögðu leið sína á kjörstað.
Fimmtudagur 24. desember 2015 kl. 08:00

Reynir að baka eins og mamma sín

Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur í Keflavíkurkirkju heldur fast í jólahefðir og er búin að þrífa hátt og lágt og hengja jólaljósin upp fyrir fyrsta sunnudag í aðventu. Á námsárunum bjó hún í Danmörku með eiginmanni sínum og elsta barninu og þar sköpuðu þau sínar eigin jólahefðir, eins og að útbúa góðgæti handa smáfuglunum. 
 
Erla Guðmundsdóttir var kjörin sóknarprestur í Keflavíkurkirkju í vor. Hún er fyrsta konan til að gegna því embætti og jafnframt fyrsti innfæddi Keflvíkingurinn sem það gerir. Áður hafði hún gegnt starfi æskulýðsfulltrúa hjá Keflavíkurkirkju. Árið 2009 var hún vígður prestur safnaðarins og starfaði þá við hlið sr. Skúla Ólafssonar og sr. Sigfúsar B. Ingvasonar. Erla segir það töluverð viðbrigði að gegna nú starfi sóknarprests. „Mörg eru ósýnilegu verkin í þessu nýja embætti sem ég er enn að máta mig í,“ segir hún. Erla bendir á að fólki fjölgi á Suðurnesjum en prestum ekki. „Það er því mikið að gera hjá okkur í sálgæslunni og hjálparstarfinu. Það góða við fólkið okkar er að það gerir kröfur til kirkjunnar. Það vill að hún standi sig og sé til staðar og við viljum mæta því.“
 
 
Erla ásamt Sveini Ólafi Magnússyni, eiginmanni sínum og börnunum þremur þeim Helgu 13 ára, Hinrik 5 ára og Guðríði 3 ára.
 
Erla og eiginmaður hennar Sveinn Ólafur Magnússon eiga þrjú börn, þau Helgu 13 ára, Hinrik 5 ára og Guðríði 3 ára. Erla og Sveinn byrjuðu ung saman og segist hún varla þekkja lífið án hans. Þau fluttu til Kaupmannahafnar í kringum tvítugsaldurinn og fóru bæði í nám, hún í guðfræði og hann í framleiðslutæknifræði. „Við tókum með okkur 14 tommu túbusjónvarp, fjóra kassa og sængur og ætluðum aðeins að stoppa þarna við. Árin í Kaupmannahöfn urðu svo átta og þegar við komum heim vorum við gift, með barn og heilan gám af búslóð,“ segir hún.
 
Sköpuðu jólahefðir í Kaupmannahöfn
Erla og fjölskylda sköpuðu sínar eigin jólahefðir á námsárunum í Kaupmannahöfn og heldur hún mikið upp á þær allar. „Ég er mikil hefðakona og manninum mínum þykir stundum um og ó. Ég skrifa meir að segja niður hvaða hefðir eru og hverju þarf að bæta við. Ég er alin upp við margar hefðir við hátíðar og í hversdagslífi og það vil ég búa börnum mínum. Þetta verða svo dýrmætar minningar. Það var svo dásamlegt hvernig mamma undirbjó aðventu og jól. Allt var þrifið, pússað og skreytt fyrir fyrsta sunnudag í aðventu og öllum þessum verkum fylgdi aldrei stress hjá mömmu. Við hjálpuðumst að og undir hljómuðu jólalög af plötuspilanum hans pabba. Þann háttinn hef ég haft eftir að ég hóf búskap. Ég er hætt að lesa greinar frá fólki um að maður eigi ekki að vera að stressa sig að þrífa inni í skápum og ofan í skúffum því þar heldur maður ekki jólin. Ég fussa bara yfir þessu og enginn þarf að segja hvernig við háttum okkar undirbúningi,“ segir Erla og hlær. „Maður getur gengið í öll verk með ákveðnu hugarfari og fyrir suma eru þrif afslöppun undir jólalagatónum og öll fjölskyldan er að hjálpast að að gera heimilið fínt fyrir hátíðina.“
 
 
Aðventukransinn á sérstakan sess á heimili Erlu og eiga þau fjölskyldan alltaf góðar stundir þegar kveikt er á hverju kerti. „Þá syngjum við saman lagið Við kveikjum einu kerti á. Dóttir mín er að læra á flautu og spilar undir.“ Stundum er Erla að vinna á sunnudögum og þá kveikja þau á kertinu á laugardegi eða mánudegi. 
 
Erla bakar smákökur fyrir jólin og reynir alltaf að gera eins kökur og mamma hennar. „Þó árin líði þá verða þær aldrei alveg eins og hjá mömmu en hún á það til að bæta stundum í boxin mín.“ Önnur skemmtileg hefð hjá Erlu og fjölskyldu er húslestur. Þá lækka þau í símum og öðrum tækjum og hlusta saman á sögu. Núna í ár er það Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson sem þau hjónin lesa með elstu dótturinni. „Það er ákveðinn sjarmi yfir húslestri og sumar sögur er hægt að lesa um hverja aðventu.“ Í Danmörku tók fjölskyldan upp þá skemmtilegu jólahefð að útbúa góðgæti fyrir fuglana og setja í trén.
 
Fæddi jólabarn
Erla hefur alla ævi hlýtt á jólaguðspjallið á aðfangadag, með einni undantekningu, þegar hún fæddi dóttur sína aðfangadagskvöldið árið 2002 sem hún segir hafa verið einstaka stund. Það er því alltaf afmælisveisla á heimilinu á aðfangadag og ekki minnst á jólin fyrr en mamma gerir sig klára til vinnu klukkan 15. Þau hafa alltaf passað vel upp á að afmæli dótturinnar gleymist ekki í öllu umstanginu á aðfangadag. Á aðfangadag er alltaf messa klukkan 16, aftansöngur klukkan 18 og svo miðnæturmessa klukkan 23:30 og því miðast dagskrá aðfangadagsins hjá fjölskyldunni við það. Hún kveðst vera vel gift og því gangi þetta upp. Sama sé að segja um fólkið í kórnum og messuþjóna sem eiga góða fjölskyldu að meðan þjónað er í hátíðarguðsþjónustum. Í fyrra komu börn Erlu í messu á aðfangadag og voru þau yngri heldur óþolinmóð að bíða eftir því að mamma þeirra hætti að tala. „Þau voru oft að spyrja hátt og skýrt hvort mamma þeirri færi ekki að verða búin að tala. Þetta var því heldur heimilislegt að prestsbörnin voru komin með nóg en vonandi hafa allir umburðarlyndi fyrir óþreyjufullum börnum á aðfangadag.“
 
Fjölbreyttur hópur kirkjugesta
Erla segir gaman að sjá hve margir komi til messu um jólin. „Hjá mörgum fjölskyldum er það hefð að koma til kirkju um jólin þó þær komi ekki á öðrum árstímum. Það er því mikil fjölbreytni sem er skemmtilegt og fallegt. Fólk vill heyra jólaguðspjallið lesið, syngja Heims um ból og upplifa anda jólanna í helgidómnum.“
 
Þvert á það sem flestir myndu eflaust halda segir Erla vera rólegra yfirbragð í starfi prestsins yfir hátíðisdaga jólanna. Á aðventunni sjálfri er aftur á móti í mörg horn að líta og það hlýjar prestunum að upplifa hversu margir vilja fá þá í heimsókn eins og í öllum þeim félagasamtökum sem starfrækt eru á svæðinu. „Það er dásamlegt og manni eru ekki settar skorður um hvað má ræða svo maður talar bara opinskátt um Jesúbarnið.“ Hún segir einstakt hve mörg mannúðarfélög og líknarfélagasamtök séu starfandi á Suðurnesjum sem styðji við hin ýmsu málefni.
 
Janúar er einnig oft annasamur tími í kirkjunni og segir Erla hann jafnvel erfiðasta mánuðinn. „Þá birtast eftirköst jólanna á svo margan hátt. Það er erfitt fyrir fólk sem situr í fyrsta sinn við hátíðarborðið á aðfangadagskvöld og það er autt sæti vegna ástvinar sem hefur fallið frá. Það er líka oft erfitt í janúar eftir öll útgjöldin í desember. Svo bíður fólk stundum með hjónaskilnaði þangað til eftir áramót. Það má því segja að janúar sé erfiður mánuður fyrir margra hluta sakir.“
 
Þakklát fyrir kosningu
Erla tók við embætti sóknarprests við Keflavíkurkirkju fyrr á árinu þegar Skúli S. Ólafsson, þáverandi sóknarprestur, fór til starfa hjá Neskirkju. Fólk innan kirkjunnar kallaði eftir því að fram færu kosningar því það vildi tryggja að Erla hlyti embættið. Því var gengið í hús og undirskriftum safnað til að knýja á um að prestskosningar yrðu haldnar. Hún segir það því hafa verið blessun sína að fólk hafi arkað af stað til að safna undirskriftum. Hún viðurkennir þó að þetta ferli hafi tekið á. „Mér fannst óþarflega mikið af myndum af mér í fjölmiðlum enda finnst mér óþægilegt að vekja þannig athygli, þó að mér líði alltaf vel að tala við fjölda fólks í kirkjunni.“ Prestskosningar fóru fram í vor og var Erla ein í framboði. Henni var  létt að ekki kom fram mótframboð. „Ég hefði varla haft tíma til þess enda vorum við að setja upp stóran söngleik og að ferma fjöldann allan af börnum á þessum tíma.“
 
Á kjörskrá voru 4577 og var kjörsóknin 21 prósent. Erla segir sér hafa hlýnað um hjartarætur við hve margir lögðu leið sína á kjörstað til að kjósa. „Mér þótti vænt um þetta og finnst þetta góð kjörsókn miðað við að ég var ein í framboði og þá var þetta sértaklega góður stuðningur inn í starfið. Ég átta mig núna á velvilja fólks í garð kirkjunnar og okkar sem þar störfum. Ég finn fyrir því að fólk lætur sér annt um okkur sem þjónum í Keflavíkurkirkju; Arnór organista, Þórunni rekstrarstjóra, Önu sem stendur vaktina við að hafa allt fallegt og hreint, sem og um okkur prestana en Eva Björk Valdimarsdóttir var sett í embætti prests í haust. Hún er Akureyringur sem finnur að samfélagið vill að henni líði vel hér í bænum okkar.“
 
Erla mætti með gleði í sunnudagaskólann í Keflavíkurkirkju í æsku, fermdist þar, gifti sig og lét skíra börn sín. Hún er því þakklát fyrir að þjóna þar nú sem sóknarprestur. 100 ára afmæli kirkjunnar var fagnað árinu en hún var byggð í sjálfboðastarfi, meðal annars af forfeðrum Erlu. Keflavíkurkirkja er ein af fyrstu steinsteypu kirkjum landsins og þótti gríðarlega mikið mannvirki á sínum tíma enda var þá gert ráð fyrir að hún gæti rúmað meirihluta bæjarbúa. Langamma- og afi Erlu þjónuðu mikið í kirkjunni og á skrifstofu sinni í kirkjunni situr Erla við skrifborð hans. Í fjölskyldu Erlu hefur alltaf verið talað um hana Keflavíkurkirkju. „Ég upplifi hana sem eina af okkur. Hún hefur staðið hérna í heila öld og er fólkið sem myndar hana. Það hefur alltaf verið þannig að fjöldi fólks hefur viljað þjóna henni. Fólk vill hafa þennan helgidóm til staðar og að hann sé prýði.“

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024