Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Reyni alltaf að mæta í árgangagönguna
Laugardagur 7. september 2024 kl. 06:10

Reyni alltaf að mæta í árgangagönguna

Guðlaugi Helga Sigurjónssyni, sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar, þykir Ljósanótt vera frábær fjölskylduskemmtun og segist alltaf mæta í setningu hátíðarinnar. Bestu og verstu minningar hans frá Ljósanótt eru tengdar veðri.

Hvernig varðir þú sumarfríinu? Tók lítið frí í sumar vegna anna en fór stutta golfferð til Spánar í maí með góðum hópi og náði svo tveim vikum með fjölskyldu, börnum og barnabörnum í afmælisferð konunnar til Ítalíu mánaðarmótin júní/júlí. Þá fór ég aðeins í pallinn hjá mér, setti upp heitan og kaldan pott. Útieldhús komið í hönnun í hausnum á mér sem verður tekið næsta sumar.

Hvað stóð upp úr? Samveran með fjölskyldunni og svo stendur Ítalía sjálf alltaf upp úr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar? Hvað þetta var ótrúlega lélegt sumar veðurlega.

Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands? Æskuslóðir föður míns heitins, Snæfellsnes, er mitt uppáhalds – ótrúlegur kraftur á því svæði.

Hvað ætlar þú að gera í vetur? Liverpool-ferð á dagskránni og mögulega smá frí eftir Ljósanótt og úttekt á Stapaskóla, öðrum áfanga.

Hvernig finnst þér Ljósanótt? Ljósanótt er frábær fjölskylduskemmtun, mér finnst þetta byrja á miðvikudagskvöldum þegar svokallað „konukvöld“ er, þá fyrst getur maður farið að slaka á því þá er yfirleitt öllum undirbúningi lokið og maður getur farið að njóta.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt? Fer alltaf á setninguna, reyni svo að heimsækja eins mikið af listsýningum eins og ég get og svo auðvitað fastir liðir.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt? Þar sem ég fer fyrir öryggismálum á hátíðinni þá eru bestu og verstu minningarnar mín frá Ljósanótt tengdar veðri. Hef slæmar minningar þegar veður eru válynd þar sem álagið eykst til muna, t.d. á síðasta ári þegar við þurftum að huga að plani A, B, C og jafnvel D á síðustu metrunum. Þá eru einnig góðar minningar þegar veður er gott og allt gengur vel og bærinn fullur af íbúum og gestum.

Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf? Kjötsúpan hjá Skólamat er ómissandi, reyni alltaf að mæta í árgangagönguna og svo slúttar maður þessu með dagskrá laugardagskvöldsins og flugeldasýningu. Sunnudagar hafa vaxið undanfarin ár og hef gaman af því að kíkja í bæinn þá líka.