Reykjanesbær tekur þátt í sundkeppni sveitarfélaga
Reykjanesbær mun taka þátt í sundkeppni sveitarfélaga í Hreyfiviku UMFÍ sem fer fram 29. maí til 4. júní næstkomandi. Á vef bæjarfélagsins eru sundlaugargestir hvattir til að skrá sig daglega í afgreiðslu sundmiðstöðva Reykjanesbæjar og hversu marga metra þeir syntu. Tveir heppnir þátttakendur í sundkeppninni verða dregnir úr pottinum og fá árskort í Sundmiðstöðina. Frítt verður í sund föstudaginn 2. júní í tilefni af hreyfivikunni.
Hreyfivika UMFÍ er árleg lýðheilsuherferð og er markmiðið með henni að kynna kosti þess að taka þátt í hreyfingu og íþróttum. Stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og íþrótta-og tómstundafélög í Reykjanesbæ eru hvött til þátttöku í Hreyfivikunni. Hægt er að senda tilkynningu um þátttöku á [email protected] fyrir 15. maí. Nánari upplýsingar um Hreyfivikuna er hægt að nálgast á vef UMFÍ.
Umsjón með verkefninu í Reykjanesbæ hefur stýrihópur Heilsueflandi samfélags í samstarfi við íþróttafélögin Keflavík og Njarðvík.