Reykjanesbær hafði sigur eftir æsispennandi keppni
Reykjanesbær er kominn áfram í Útsvari, spurningakeppni sveitarfélagana eftir æsispennandi rimmu gegn Fljótsdalshéraði í gær. Allt frá upphafi var keppnin hnífjöfn en Reykjanesbær var alltaf skrefinu á eftir Fljótsdalshéraði sem hafði fimm stiga forskot lengi framan af keppni.
Bæði lið skoruðu fullt hús stiga í orðaleiknum, eða 30 stig en í valflokkaspurningunum náði Reykjanesbær að stela nokkrum mikilvægum stigum og koma sér í forystu. Stóru spurningarnar í lokin reyndust erfiðar en svo fór að lokum að Reykjanesbær hafði sigur með einu stigi, 68-67.