Reykjanesbær: 13 þúsundasti bæjarbúinn heimsóttur
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, heimsótti í gær þá manneskju sem fær þann heiður að verða íbúi númer 13 þúsund í Reykjanesbæ. Umræddur íbúi er stúlkubarn sem fæddist 17. september síðastliðinn og býr á Vallarheiði, þar sem hún fæddist reyndar líka en um var að ræða fæðingu í heimahúsi . Foreldrar stúlkunnar eru Kristín Magnúsdóttir og Gústaf Adolf B. Sigurbjörnsson.
Af þessu tilefni afhenti Reykjanesbær, ásamt Keili og Hjalla, nýjum leikskóla Hjallastefnunnar ehf. stúlkunni gjafabréf fyrir fyrstu 6 mánuði á leikskólanum Hjalla. Einnig færði Samkaup fjöldskyldunni góðar gjafir úr nýrri verslun sinni á Vallarheiði.
Þess má geta að Reykjanesbær tók vel á móti 12 þúsundasta íbúanum í mars sl. þannig að íbúum bæjarins fjölgar ört.
Ekki er þó hægt að skrifa það allt á frjósemi bæjarbúa því samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni voru eitt þúsund manns aðfluttir umfram brottflutta í Reykjanesbæ fyrstu níu mánuði þessa árs. Inn í þeirri tölu eru 340 nýir íbúar á Vallarheiði. Þess ber að þó að geta að í september var ekki nema hluti þeirra íbúa kominn á skrá.
Reikna má með að íbúatalan á Vallarheiði í dag sé öðru hvoru megin sjötta hundraðið.
Sjá einig VEFTV hér á vefnum.
Mynd: Bæjarstjórinn, ásamt framkvæmdastjóra Keilis og fulltrúum Samkaupa og Hjalla, í heimsókn hjá nýbökuðum foreldrum og 13 þúsundasta íbúanum í Reykjanesbæ. VF-mynd: elg