Réttað í Grindavík um helgina
Rekið verður til réttar í Þórkötlustaðaréttum í Grindavík sunnudaginn 21. september n.k. upp úr kl. 15:00. Réttirnar eru ómissandi þáttur haustsins og hafa mikið fræðslu- og skemmtanagildi sem sjá má á miklum fjölda fólks sem leggur leið sína í Þórkötlustaðaréttir ár hvert enda mannfólkið löngum fleira en rolluskjáturnar sem koma móðar ofan af fjalli. Hægt er að taka þátt og hjálpa til við að reka í réttina eftir því sem safnið nálgast og ekki er verra að tína upp í sig nokkur krækiber á meðan beðið er. Ökumenn eru beðnir að gæta sérstakrar varúðar og sýna þolinmæði þegar verið er að reka fé yfir vegi.
VF-ljósmynd: Úr Þórkötlustaðaréttum í fyrra, en þarna má sjá Kristján Pálsson, Dagbjart Einarsson og Guðmund Sigurðsson taka lagið.