Rétt byrjaður að prófa mig áfram
Leikskólanum Tjarnaseli barst í haust góður liðsauki þegar Gunnar Þór Jónsson, fyrrverandi skólastjóri í Heiðarskóla, gerðist sjálfboðaliði þar í lestrar- og skriftarkennslu. Gunnar Þór er mikill áhugamaður um skrift og kenndi lengi vel skrift á grunnskólastigi og á að baki 40 ára feril sem kennari og skólastjóri Þróunarverkefnið Lestrar- og skriftarhvetjandi umhverfi í leikskóla, sem hófst í Tjarnarseli fyrir 10 árum hefur það meðal annars að markmiði að sporna við þörfum fyrir sérkennslu í grunnskólum. Víða í grunnskólum á Suðurnesjum hefur fyrrum starfsfólk verið fengið til að sinna lestrarstuðningi og þannig nýtt áfram dýrmæta þekkingu og reynslu. Blaðamaður fylgdist með afar lifandi kennslustund hjá Gunnari Þór sem hélt auðveldlega athygli allra barnanna með kennsluaðferðum sínum; lá á maganum á gólfinu og skreið á milli nemenda til að aðstoða þau og hvetja.
Ekki einfalt mál að læra skrift
Gunnar Þór segist hafa fylgst vel með starfi leikskólans og eiginkonu sinnar, leikskólastjórans Ingu Maríu Ingvarsdóttur. „Hún hefur oft haft á orði við mig, hvort ég gæti ekki útbúið skriftarverkefni fyrir leikskólann. Eftir að ég lauk störfum í Heiðarskóla, greip ég tækifærið og ákvað ég að sjá hvort ég gæti ekki gert eitthvað í þeim málum. Þá má geta þess að barnabörnin mín hafa verið nemendur hér í Tjarnarseli og komið nánast læs út úr skólanum og gengið í framhaldi af því mjög vel að lesa í grunnskóla,“ segir hann stoltur og tekur sérstaklega fram að hið góða starf sem á sér stað í Tjarnarseli og þau þróunarverkefni sem þar eru unnin, hafi skilað góðum árangri. „Ég er rétt byrjaður að prófa mig áfram í samstarfi við börnin, hvernig best er að gera þetta. Það er ekki einfalt mál að læra að skrifa. Ég fylgist með hvað þau geta og hvernig þau vinna.“ Hann segir vissa kúnst að draga til stafs og í leikskóla sé það því mikið tengt leikjum. Farið sé í vettvangsferðir og stafirnir tengdir við það sem beri fyrir í umhverfinu. Börnunum sé einnig leyft hverju og einu að uppgötva sjálft sig og gera allt á sínum hraða og forsendum. „Börn eru komin mislangt af stað í færni, hreyfigetu og fínhreyfingum,“ segir Gunnar Þór.
Börnin fljót að grípa og tengja
Þá segir hann mest gefandi að vera með krökkunum og kennurunum. Heilmikil hugmyndavinna eigi sér stað með þeim og ýmsar leiðir prófaðar. Honum finnst mikilvægt að leikskólar haldi sínum venjum og vinnu og hann sé ekki kominn til að breyta leikskóla í grunnskóla. „Ég er ekki aðalmaðurinn í þessu starfi leikskólans og þetta er fjórði tíminn sem ég stýri í lestrar- og skriftarkennslunni. Gleðin og ánægjan sem skín úr andliti barnanna og hversu móttækileg þau eru, er eftirtektarverð,“ segir Gunnar Þór. Einnig sé alltaf gefandi að sjá árangur erfiðisins og hversu fljótt þau grípa og tengja við það sem kennt sé. Krakkarnir leiti að stöfum í götunöfnum, skiltum og nöfnum á verslunum og fyrirtækjum. Ótrúlegar breytingar megi sjá á stuttum tíma. „Kennslan tengist í raun öllu starfi sem hér fer fram, inni á deildum, í samræðum við börnin, sögustundum og vali. Öll menning í skólanum er meira og minna íslenskukennsla.“
Bætir örlítið kynjahlutfallið
Gunnar Þór segir að í raun komi honum fátt á óvart í starfinu. Starfsfólkið hafi gert svo góða hluti og sé svo opið og orkumikið eins og börnin. Hann geti kannski mögulega komið með einhverja nýja sýn inn í starfið með sínu framlagi. Einnig séu of fáir karlmenn sem starfi í leikskólum og grunnskólum á Íslandi og gott að geta aðeins bætt úr því. Spurður um hvort hann sjái sig fyrir sér að sinna þessu á næstu árum segist Gunnar Þór munu sjá til. „Gamli skólinn, Heiðarskóli, togar líka í mig og það getur vel verið að ég geti gert eitthvað gagn þar líka í framtíðinni.“