Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Reis upp frá dauðum
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 25. janúar 2020 kl. 08:04

Reis upp frá dauðum

Hann fær fólk til sín utan úr heimi, sem vill komast í hendurnar á honum og fólk hvaðanæva að leitar til hans vegna allskonar krankleika, orðspor hans fer víða, einnig um landið okkar. Eiginkona hans er ekki síðri í að hjálpa fólki en bæði lærðu þau í Svíþjóð fyrir mörgum árum, eða rétt rúmlega tvítug, og hafa starfað í Grindavík síðan, í heimabæ frúarinnar.

Lífið hefur ekki alltaf farið um þau mjúkum höndum og saman hafa þau staðið sterk í gegnum veikindi sonar síns, sem fékk krabbamein ungur að árum en er frískur í dag, og veikindi eiginmannsins, sem dó en kom aftur því hans tími til að fara var ekki kominn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víkurfréttir fóru á trúnaðarstigið með Brynjari Péturssyni og Svanhildi Káradóttur eitt síðdegi á ísköldum vetrardegi á hlýlegu heimili þeirra í Grindavík, þar sem þau búa ásamt tveimur sonum sínum.

Ólst upp í kirkjunni á Bakkafirði

Viðtalið átti að snúast um Brynjar sem dó en reis aftur upp frá dauðum og gerði það í upphafi eða alveg þar til blaðakona áttaði sig á því að eiginkonan er svo tengd manni sínum að hún fékk að henda inn athugasemdum þegar við átti. En fyrst var að spyrja Brynjar hvaðan hann væri.

„Ég er fæddur árið 1961 og uppalinn á Bakkafirði, í þorpinu þar. Faðir minn var rafveitustjóri og organisti í kirkjunni í fjörutíu ár. Ég ólst upp í kirkjunni og fór á sjó með pabba á grásleppuveiðar frá því að ég var lítill strákur og hélt áfram með bræðrum hans sem voru einsetumenn. Það má segja að ég sé alinn upp á sjó á sumrin. Í framhaldinu ákvað ég að verða vélfræðingur því ég vildi starfa við sjómennsku og var einnig í rafveitunni með pabba. Ég lék mér líka í fjörunni heima, þar var leikvöllurinn. Á þeim tíma sem ég var að alast upp voru þrír sveitabæir í þorpinu. Síldin kom til Bakkafjarðar og þá var unnið í henni. Á þessum tíma var ekki oft farið í bæjarferð og því var það nauðsynlegasta keypt í stórum pakkningum þegar farið var í verslun. Það voru stórir hveitipokar og sykurpokar og það nauðsynlegasta, sem hægt var að geyma í langan tíma. Mamma bakaði í stöflum en við vorum sex bræður og ég var sá fimmti í röðinni. Það var nóg að gera á strákaheimili,“ segir Brynjar og nú langar blaðakonu að vita hvernig þau, Brynjar og Svana, hafi kynnnst. Svana skýtur inn að hann hafi komið til Grindavíkur þar sem hún er fædd og uppalin, en hún er tveimur árum yngri en Brynjar.

Ekki sammála um hvar þau sáu hvort annað fyrst

„Ég var 21 árs þegar ég fór á sjó á Geirfuglinum frá Grindavík, réði mig þangað sem vélstjóri. Svo var ég á mörgum bátum eftir það. Ég sá Svönu í sjoppunni í Grindavík fyrst,“ segir Brynjar og horfir brosmildur á konuna sína, sem svarar strax, enda gustar af henni: „Nei, var það ekki í Hollývúdd, manstu, sem við kynntumst?“ Brynjar brosir og samsinnir því og heldur áfram:

„En ég sá þig fyrst í sjoppunni og kannski hefur þú ekki tekið eftir mér þá en þar tók ég fyrst eftir þér,“ og þau spjalla aðeins um þetta en svo ryðst blaðakona inn í samtal þeirra og langar að halda áfram með viðtalsþráðinn. Hvað gerðist svo? Svana tekur við:

„Við fórum að vera saman. Ég var verkstjóri á sumrin í frystihúsi og ætlaði alltaf að verða íþróttakennari, flugfreyja eða lögfræðingur en að fara í heilsunám til Svíþjóðar togaði líka í mig. Þar langaði mig að læra nudd, það var stefna mín og hann var til í það með mér, langaði með til útlanda. Þetta átti að vera ævintýri sem þróaðist í ævistarf okkar. Við fórum saman til Svíþjóðar þegar ég var 22 ára og hann 24 ára. Við eignuðumst trillu saman sem við gerðum út frá Bakkafirði á sumrin en vorum í Svíþjóð á veturna að læra. Við vorum kornung, þau yngstu í skólanum og ég man einn kennarinn sagði við mig, hvernig verður þú þegar þú ert orðinn eldri þegar þú ert svona ung þegar þú byrjar að læra að taka fólk í meðferð? Þú verður örugglega mögnuð þegar fram líða stundir en mér fannst þetta þá samt svo eðlilegt. Við skildum allt sem fram fór í náminu þrátt fyrir að vera svona ung,“ segir Svana, full af krafti þegar hún segir frá þessu ævintýri þeirra.

Lærðu bæði í Svíþjóð

„Við fórum bæði að læra heilsumeðferð, mig langaði út með Svönu til Svíþjóðar þrátt fyrir að ég var búinn að læra allt annað áður, þá fann ég að þetta nám höfðaði til mín. Við lærðum bandvefsnudd þar sem við erum að endurnýja taugakerfið, íþróttanudd, sænskt nudd, kinesiology, eða vöðvatest, og ég byrjaði í osteopatanámi en kláraði það ekki en lærði nóg til að nota með þegar ég meðhöndla. Við kláruðum allt hitt. Við sóttum um þetta nám í Svíþjóð þrátt fyrir að mig vantaði líffræðina á þeim tíma en ákváðum að fara þangað áður en við fengum svar frá skólanum því við vissum að okkur langaði að prófa að búa í Svíþjóð. Við fórum með tvær ferðatöskur með okkur og ekkert annað og fórum með Norrænu yfir hafið. Fyrst gistum við hjá vini okkar í mánuð en svo hittum við örlagavald okkar beggja, íslenska konu sem sagði að við yrðum að fara í nám hjá Göteborgs Gymnastiska Institut en það voru osteopatar sem áttu þennan skóla sem var útibú frá hinum fræga Axelsons-skóla í Svíþjóð. Við erum ennþá í sambandi við eiganda skólans og kennum þar stundum. En svona byrjaði ferill okkar beggja,“ segir Brynjar pollrólegur og yfirvegaður.

Fólk vildi ekkert káf

Þegar þau koma heim aftur eftir námið í Svíþjóð ákvað Brynjar að fara aftur á sjó því þá gátu þau ekki lifað af því að meðhöndla eins og þau gera í dag. Það var einnig ákveðin feimni í fólki á þessum árum, á níunda áratugnum, við að fara í nudd og svona, sérstaklega í litlu samfélagi eins og Grindavík var á þeim tíma. Hvernig gekk að fá fólk til ykkar?

„Ég byrjaði strax að fá fólk í heilsumeðferð en Brynjar gat það ekki strax því fólk var feimið,“ segir Svana og Brynjar bætir kíminn við:

„Nudd! Maður er ekki að fara að láta káfa á sér, sagði fólk fyrst. Nudd var ekki eins algengt þá og það er í dag þegar allir vita hvað það gerir okkur gott og finnst það alls ekkert feimnismál að leggjast léttklædd á nuddbekkinn. Ég ákvað að vera áfram á sjónum fyrst um sinn og nuddaði á milli sjóferða. Þetta gerðum við fyrst. Það var meira að gera hjá okkur á veturna og þá fórum við á trilluna okkar á sumrin og fiskuðum vel. Ég hef alltaf verið mjög fiskinn og þegar við vorum að læra þá fjármögnuðum við allt námið og dvölina í Svíþjóð með fiskveiðum á sumrin á Bakkafirði. Svo fór að vera meira og meira að gera hjá okkur í heilsusetrinu okkar litla niður við sjó hér í Grindavík en þar erum við enn með stofu þar sem við tökum á móti fólki. Nú eru það ekki eingöngu Grindvíkingar sem leita til okkar heldur kemur fólk af öllu landinu í meðferð og einnig utan úr heimi,“ segir Brynjar.

„Við vinnum mjög mikið saman og þurfum ekkert að segja þegar við vinnum saman, við erum það tengd og vitum hvað þarf að gera með hvern og einn. Það hefur alltaf verið svona hjá okkur þegar við erum að vinna með fólk. Ég man þegar við vorum að læra að þá spurði stundum kennarinn okkur tvö hvernig við myndum gera hlutina, því þeir fundu sambandið á milli okkar, mín og Brynjars,“ segir Svana og nú berst talið að næmleika. Talað hefur verið um næmleika Brynjars í gegnum árin en þau hjónin eru bæði greinilega næm þegar þau vinna.

Næmni getum við öll þroskað með okkur

Ertu næmur Brynjar?

„Ja, ég vissi alltaf hvar fiskurinn var í sjónum,“ svarar Brynjar kankvís til að staðfesta næmi sitt og bætir við: „Já, ég hef alltaf verið næmur enda alinn upp í náttúrunni á Bakkafirði og fæ stundum sýnir sem koma sér vel. Næmni er eitthvað sem við getum öll þroskað með okkur og þegar þú ert að meðhöndla fólk eins og við gerum, þá lærirðu að lesa í fólk sem er mjög hjálplegt fyrir alla. Við Svana hjálpumst að við meðhöndlunina þegar þarf, ég kem inn til hennar og hún kemur inn til mín þegar þannig stendur á. Sérstaklega þegar losa þarf fólk, liðlosa um spennu í fólki, þá eru fleiri hendur betri. Við bætum hvort annað upp.“

Brynjar sá ljósið

Talið berst næst að því hvort Brynjar hafi séð ljósið, hvort það sé satt að hann hafi dáið?

„Já, það er satt. Fyrir fjórum árum fann ég fyrir hækkun á blóðþrýstingi, þreytu og mæði eftir hreyfingu en ég hef alltaf stundað líkamsrækt og verið í mjög góðu formi líkamlega. Þetta var því mjög óeðlilegt fannst mér. Ég fór til hjartalæknis og út af sögu í fjölskyldu minni þá vildu þeir skoða mig betur. Pabbi minn fór í hjartaþræðingu 53 ára gamall sem leiddi til þess að hann fór í opna hjartaaðgerð og skipt var um fjórar æðar en hann lifði til 89 ára aldurs eftir það. Ég var að bíða eftir að komast í hjartaþræðingu og var búinn að bíða í níu mánuði. Einn daginn fórum við saman á Þorbjörn, ég og Svana, og ég bað hana að labba hægar því mér fannst hún labba ótrúlega hratt upp fjallið. Þá horfir hún á mig og segist ekki vera að ganga hratt. Eftir þetta ákvað ég að þrýsta á læknana, sagði þeim að ég gæti ekki beðið lengur eftir þræðingu og fékk það í gegn. Þegar ég kom á hjartadeildina tóku tvær konur á móti mér og spurðu mig hvað ég væri að gera þarna því ég leit svo vel út en það kom annað í ljós þegar ég var þræddur. Fremri kransæðin var 90% stífluð og settar voru þrjár fóðringar en það þurfti ekki að skera mig,“ segir Brynjar og Svana bætir við:

„Þetta kom okkur algjörlega á óvart því Brynjar hefur alltaf lifað heilbrigðu lífi, passað vel upp á mataræði og hreyfingu alla tíð. Við áttum ekki von á þessum niðurstöðum.“

„Svo er ég að jafna mig inni á stofunni, Svana var hjá mér, og fæ verki sem er alveg eðlilegt að hluta til. Þá stoppar í mér hjartað og Svana er að nudda á mér hvirfilinn og ekkert að fylgjast með hjartalínuritinu sem var orðið að flatlínu, engin hjartsláttur. Ég var auðvitað bara að hvíla mig, hélt hún,“ segir Brynjar og Svana heldur áfram með frásögnina:

„Þá kemur hjúkrunarfræðingur inn í eftirlit og sér strax á mónitórnum að hjartað slær ekki. Hún hrópar upp: „Hann er í hjartastoppi!“ Ég horfði þá á Brynjar sem var dáinn. Inn kemur fullt af starfsfólki, læknar og hjúkrunarfólk og ég fór fram. Mér bregður náttúrlega og fer að hugsa um allt sem gæti gerst ef hann myndi deyja, hvað það yrði sorglegt fyrir okkur fjölskylduna, strákana, mig og alla. Ég fór á fullt í huganum. En það var samt svo skrýtið að inni í mér, var ég alveg róleg og beið frammi þegar starfsfólk kom hlaupandi til að fara inn á stofuna og bjarga Brynjari. Ég vissi að hann kæmi til baka.“

„Ég finn að ég er farinn og kominn annað. Ég vissi að ég var dáinn en það hef ég áður upplifað nokkrum sinnum en alltaf komið til baka.“

Hvítklætt fólk með hvít andlit

En Brynjar hvað var að gerast hjá þér á þessari stundu?

„Á meðan á öllu þessu stóð þarna inni á stofunni þá fékk ég mjög djúpt hátíðnihljóð inn í mig, hljóð sem ég hef aldrei heyrt áður og get ekki útskýrt. Ég finn að ég er farinn og kominn annað. Ég vissi að ég var dáinn en það hef ég áður upplifað nokkrum sinnum en alltaf komið til baka. Ég var kominn inn í sal þar sem fullt af fólki sat við sporöskjulagað borð og var að skoða framtíðina, ræða hvar þyrfti að bregðast við næst til að koma í veg fyrir alvarlega atburði. Mér fannst ég vita hvaða fólk þetta var en samt sá ég ekki andlit þeirra, þau voru með hvítt andlit og hvítklædd. Samskiptin voru ekki með orðum heldur á huglægu sviði. Ég sit við þetta borð og finn fyrir orku fólksins. Svo fannst mér kona við hlið mér spyrja mig: „Brynjar, hvað ert þú að gera hér?“ og rétt áður en hún spyr mig að þessu var ég sjálfur að hugsa, já svona sjáum við þegar við höfum engin augu, svona tala ég án þess að anda. Svo segir þessi vera aftur við mig: „Þinn tími er ekki kominn.“ Þarna voru íslenskar setningar notaðar fannst mér og ég skildi allt. Um leið og hún segir þetta við mig þá fer ég í gegnum endalausa birtu, opna augun og sé að skurðlæknirinn er mættur á svæðið. „Hvar er Svana?,“ spyr ég og vildi fá hana til mín. Læknar mínir sögðu mér að ég hafi verið farinn í tvær mínútur en þeir gáfust ekki upp og héldu áfram að hnoða mig þar til ég kom inn aftur. Mér fannst verst þegar ég kom til baka að sjá ekki Svönu við hlið starfsfólksins en svo kom hún inn til mín. Í framhaldi af þessum atburði var ákveðið að setja í mig gangráð því hjarta mitt slær of hægt ef það fær enga hjálp en það hefur alltaf verið svoleiðis. Í kjölfarið fékk ég blóðtappa og er einnig á blóðþynningu. Ég hafði stundum dottið út áður en rannsóknir þá leiddu í ljós og talað var um að ég væri með hjarta eins og Björn Borg, íþróttamannshjarta. Þegar það gerðist áður að ég datt út, þá sá Svana um að kippa mér inn aftur en nú sér gangráðurinn um að halda hjartanu mínu við efnið og fyrir það er ég mjög þakklátur.“

„Ég hef ekkert breyst nema að í dag ber ég meiri virðingu fyrir mörkum mínum, er búinn að hægja aðeins á mér og er enn að læra það.“

Auðmýkt gagnvart lífinu

Það hlýtur að vera mikill skóli fyrir mann eins og Brynjar að lenda í þessari lífsreynslu, maður sem hefur alltaf staðið sterkur og hvatt aðra áfram til að gera sitt besta. Fólk á ekki von á því að svona sterkar manneskjur lendi í þessu. Þarna kippir lífið fótunum undan Brynjari sem þarf að læra að lifa á annan hátt, eða hvað?

„Maður verður að vera auðmjúkur gagnvart því sem gerðist. Þetta bjargaði lífi mínu og að vera með gangráð heldur mér frískum. Ég hef ekkert breyst nema að í dag ber ég meiri virðingu fyrir mörkum mínum, er búinn að hægja aðeins á mér og er enn að læra það. Í sumar var ég í tíu tíma úti í garði að atast í fallega veðrinu og þá kom sonur minn til mín og sagði að ég þyrfti nú ekki að taka þetta alveg í botn. En svona hefur maður alltaf verið, gert allt hundrað prósent. Það er þetta stolt en aldurinn er líka farinn að segja til sín og það þarf að virða. Nú er að læra að gera hlutina öðruvísi. Ég er þakklátur fyrir þessa reynslu og auðmjúkur. Ég hef alltaf haft samkennd með fólki en þetta kennir mér að við þurfum öll að bera ábyrgð á eigin lífi, það er í hendi okkar hvernig við viljum leyfa lífi okkar að þróast. Ég hef alltaf verið hreinn og beinn, talað hreint út, það hefur ekkert breyst en ég er einnig æðrulaus og dæmi ekki fólk sem kemur til mín. Það hafa allir sín verkefni til að fara í gegnum í lífinu, það fá allir sinn pakka. Við Svana björgum engum, fólk verður alltaf að taka ábyrgð á sjálfu sér og heilsu sinni að lokum, þó við getum hjálpað og leitt það í gegnum hindranir og þær áskoranir sem fólk tekst á við. Lærðu að tala við sjálfan þig, hlusta á sjálfan þig og skilja sjálfan þig, þannig ertu tilbúinn að takast á við lífið. Þeir segja mér læknarnir að ef ég hefði ekki verið í svona góðu líkamlegu standi þá hefði ég dáið þar og þá. Ég hef alltaf verið heilbrigður og er það ennþá, en núna er ég öðruvísi heilbrigður. Ég var með undirliggjandi hjartasjúkdóm sem kom fram fyrir fjórum árum. Mér finnst ég ótrúlega heppinn í dag að hafa farið í gegnum þetta og einnig upplifað það sem ég sá þegar ég dó. Það vakti ugg í mér fyrst á eftir en í dag líður mér betur með þetta allt saman og finn að ég er sterkari. Ég hef alltaf verið harður við sjálfan mig og þarf kannski að læra að vera mildari við mig sjálfan, það er lærdómurinn,“ segir Brynjar og brosir þessu óræða brosi sínu. Svana segist einnig vera þakklát í dag og finnst gott að allt fór vel með Brynjar en þessi hjón hafa ekki aðeins fengið þetta verkefni í lífinu.

Erfiðara að sjá soninn veikan

Árið 2006 varð yngri sonur þeirra alvarlega veikur af krabbameini. Á þeim tíma héldu margir bæjarbúar Grindavíkur því fram að stóru möstrin í útjaðri bæjarins væru að geisla óæskilegum bylgjum yfir bæjarfélagið, því margir af yngri kynslóðinni voru að veikjast af krabbameini. Fólk krafðist skýringa og mælinga af hálfu Geislavarna ríkisins sem mældu á sinn hátt og sögðu ekkert óeðlilegt við þessi möstur sem standa enn og hefur m.a.s. fjölgað eftir að herinn hætti þar starfsemi því nú hafa íslensk fjarskiptafyrirtæki sett upp fleiri möstur á þessum sama stað. Kannski hefur geislunin aukist ef eitthvað er.

„Mér finnst þessi skóli sem ég fór í gegnum ekkert eins og að horfa á barnið mitt veikt. Það var erfiður tími og tók verulega á. Maður vill allt gera fyrir barnið sitt. Í dag er sonur okkar heill heilsu og kallaður kraftaverkabarnið því honum var ekki hugað líf. Við Svana gáfumst aldrei upp á að hjálpa honum ásamt læknunum, við gerðum allt sem við kunnum og þeir gerðu sitt. Fyrir það erum við mjög þakklát,“ segir Brynjar að lokum.