Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Reiðhjólaverkstæði fer vel af stað hjá Fjölsmiðjunni
Mánudagur 22. júní 2020 kl. 09:46

Reiðhjólaverkstæði fer vel af stað hjá Fjölsmiðjunni

Starfsemi Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum er ansi merkileg og ekki síður nauðsynleg í nútímasamfélagi en hún var stofnuð árið 2010. Stofnendur voru Rauði kross Íslands og Suðurnesjadeild hans, Reykjanesbær, Vinnumálastofnun, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Félag iðn og tæknigreina. Helstu markmið eru að hjálpa ungu fólki á aldrinum 16 til 24 ára að finna sitt áhugavið, öðlast starfsreynslu og auka þar með möguleika á þáttöku í atvinnulífi eða komast í nám. Fleiri mannbætandi þætti mætti nefna meðal markmiða en um tvöhundruð ungmenni hafa verið undir handleiðslu Fjölsmiðjunnar frá opnun og nú nýlega voru tvö ungmenni að ljúka stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla eftir að hafa hafið þann veg í Fjölsmiðjunni. Í Fjölsmiðjunni er Kompan sem er nytjaverslun og nýjasta afurðin er reiðhjólaverkstæði.

Þorvarður Guðmundsson stýrir málum á staðnum og við hittum hann í Fjölsmiðjunni og ræddum við hann um starfsemina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er rosalega margt í gangi hérna. Þetta er vinnuþróunarsetur fyrir krakka sem hafa lent í óvirkni eða dottið út af vinnumarkaði. Þeim er vísað til okkar frá félagsþjónustunni og Vinnumálastofnun. Frá upphafi hafa farið um 200 krakkar hér í gegn. Þau eru tuttugu og tvö hérna núna á aldrinum 16 til 24 ára. Hér eru þau í þjálfun við að komast í virkni og æfa sig á atvinnumarkaði.“

– Hver eru helstu verkefnin? Þið rekið hérna verslun og eitthvað fleira.

„Kompan er sýnilegi hlutinn af okkar starfsemi. Þessi nytjamarkaður hefur bara stækkað og stækkað. Það eru mörg störf sem eru starfsþjálfunarstörf sem tengjast þessu, s.s. í afgreiðslu og undirbúningi. Kompan er það sem hefur haldið okkur á floti og við njótum þess að fólk á Suðurnesjum er mjög velviljað í okkar garð. Við fáum mikið af góðum munum sem við svo seljum. Þetta eru munir sem eru að koma frá fólki og fyrirtækjum. Fólk er farið að hugsa út í það að það vilji ekki henda hlutum og vill frekar gefa þeim framhaldslíf hjá einhverjum öðrum.“

– Hvaða munir eru þetta?

„Í rauninni allt sem tengist heimili nema fatnaður. Fatnaður og skór fer til Rauða krossins en við erum með húsmuni og húsgögn. Hér eru skrautmunir, geisladiskar, plötur og bækur en við seljum helling af bókum. Við fáum ofboðslega mikið af góðum vörum. Barnakerrur, reiðhjól og margt fleira. Við erum með sendibíl í gangi allan daginn alla daga að ná í vörur og keyra heim fyrir fólk.“

– Þið sækið þá húsgögn heim til fólks sem vill gefa ykkur?

„Já, það eru þrír nemar á bílnum og þeir meta ástand þess sem á að gefa. Ef þeim lýst ekki á ástandið þá afþakka þeir kurteisislega eða hafa samband við okkur. Svo kemur fólk líka mikið með til okkar. Svo bjóðum við upp á heimakstur á stærri vörum þegar fólk er búið að kaupa þær hjá okkur. Við erum því háð því að einhverjir nemar séu með bílpróf og bíllinn stoppar nánast aldrei. Við fórum á síðasta ári yfir 1400 sendingar.“

– Hverjir eru svo viðskiptavinir Fjölsmiðjunnar?

„Það er fjölbreyttur hópur. Það eru fastagestir í búðinni okkar sem koma snemma og eru að leita að einhverjum ákveðnum hlutum. Hingað koma safnarar. Svo er það almenningur sem er að stofna heimilisfesti á Suðurnesjum og vantar eitthvað í búið. Svo erum við farin að fá fólk af höfuðborgarsvæðinu. Orðsporið hefur borist og Facebook-síðan okkar hefur skilað rosalega miklu eins og Instagram, þannig að við erum að sjá nýtt fólk í hverri viku. Svo eru margir innflytjendur sem nýta sér nytjamarkaðinn hér og eru vön þeirri stemmningu að heiman. Við þurfum reyndar að venja fólk á það að prútta ekki. Hér verðleggjum við vörur á sanngjörnu verði og um verðið á ekki að þurfa að prútta. Hér rennur allur afgangur til að halda þessu gangandi sem er mjög mikilvægt fyrir það unga fólk sem hér er.“

– Þetta er gefandi starf.

„Já, bæði gefandi og krefjandi. Þetta snýst um það að koma krökkum áfram í lífinu og rjúfa óvirkni og einangrun. Þetta eru allt flottir krakkar sem þurfa bara smá aðstoð til að komast áfram. Það er eitthvað sem hefur hent í þeirra lífi þannig að þau hafa dottið úr gírnum. Okkar hlutverk er að taka þau að okkur og finna styrkleikana. Við vinnum út frá styrkleika og jákvæðri styrkingu. Svo býðst þeim að fara í markþjálfun hjá mér ef sá vilji er til og það hafa margir nýtt sér það. Við erum með þetta einstaklingsmiðað á hvern og einn. Það er gaman að segja frá því að það voru þrír nemendur frá okkur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vetur, þrír í grunnmenntaskólanum og fjölmargir sem fóru á námskeið hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, þannig að þar eru margir hér að ná sér í fræðslu, sem er mjög mikilvæg.“

– Reiðhjólaverkstæðið er ný starfsemi hjá ykkur.

„Verkstæðið er viðbót við það sem fyrir var. Með þessu erum við að vonast til að geta stækkað viðskiptavinahópinn. Við erum einnig komin með nýtt verkefni sem höfðar til þeirra stráka sem eru hér hjá okkur en flestir sem nýta sér þjónustu vinnuþróunarsetursins eru strákar og þeir eru margir mjög færir í þessum viðgerðum. Við erum líka að horfa á að á reiðhjólaverkstæðið kemur annar hópur en er að versla á nytjamarkaðnum. Þetta býr til meiri umferð fólks um Fjölsmiðjuna og svo er þetta einnig til að svara þörf en ekkert reiðhjólaverkstæði hefur verið í Reykjanesbæ um nokkurn tíma. Við ákváðum að kaupa lager Hjólabúðarinnar í fyrra þegar okkur bauðst hann. Við söfnuðum styrkjum fyrir helmingnum og létum vaða. COVID-19 setti reyndar smá strik í reikninginn því við gátum ekki opnað á þeim tíma sem við ætluðum. Hér átti að opna í mars en við erum núna komin af stað og höfum fengið til liðs við okkur nýjan verkstjóra sem er vanur hjólamaður og hjólaviðgerðum. Þetta fer vel af stað. Starfsemin á verkstæðinu verður þannig að fólk pantar tíma í viðgerð fyrir hjól. Við höfum ekki húspláss til að geyma fjölda hjóla. Fólk pantar bara tíma fyrir viðgerðir og sækir svo strax að viðgerð lokinni og þá kemst næsti að.“