Rausnarlegar gjafir í minningarsjóð Ölla
Hún var notaleg stundin í Njarðvíkurkirkju á sunnudag þegar Þorgrímur Þráinsson, verndari minningarsjóðs Ölla, talaði til gesta og Erna Agnarsdóttir tilkynnti um myndarleg framlög til sjóðsins. Minningarsjóðurinn var nýverið stofnaður í nafni körfuknattleiksmannsins Örlygs Arons Sturlusonar sem lést langt fyrir aldur fram árið 2000.
Erna Agnarsdóttir amma Örlygs gaf við athöfnina 150.000 krónur í minningu eiginmanns síns Örlygs Þorvaldssonar sem lést nýlega. Svava Agnarsdóttir, systir Ernu gaf svo 50.000 kr. í minningu manns síns, Garðars Péturssonar. Félag eldri borgara í Reykjanesbæ gaf svo ágóða af kaffibasar sem haldinn var á dögunum, alls 42.500 kr.
Markmið sjóðsins er að styðja börn sem minna mega sín á Íslandi til íþróttaiðkunar. Móðir Örlygs, Særún Lúðvíksdóttir vildi halda nafni sonar síns á lofti með því að styðja við bakið á börnum sem ekki eiga kost á því að stunda íþróttir. Hún fékk gott fólk í lið með sér en meðal þeirra sem koma að sjóðnum eru áðurnefndur Þorgrímur Þráinsson og Ólafur Stefánsson handboltakappi, ásamt vinum og fjölskyldu.