Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Rauk úr fermingu til að mynda flatnef
Laugardagur 13. apríl 2013 kl. 14:11

Rauk úr fermingu til að mynda flatnef

Grindvíkingurinn Eyjólfur Vilbergsson hefur vakið athygli fyrir frábærar náttúrulífsljósmyndir sínar sem meðal annars hafa verið birtar á vef Víkurfrétta. Hann hefur gott lag á því að taka myndir af fuglum og á heimasíðu hans má finna myndir af fjölda fuglategunda sem koma hingað til lands í lengri eða skemmri tíma.

Myndir hans rötuðu einnig á forsíðuna á síðasta tölublaði Járngerðar, upplýsingatímariti Grindavíkurbæjar, en þar mátti sjá súlu veiða sér til matar í höfninni í Grindavík sem er afar sjaldgæf sjón. Eyjólfur er fyrrum stýrimaður og skipstjóri en sneri sér að vinnu hjá HS Orku fyrir rúmum tveimur áratugum.

„Ég fékk myndavél í fermingargjöf en fylgdi því ekkert eftir,“ segir Eyjólfur. „Ætli það hafi ekki verið fyrir svona 16 árum sem ég byrjaði aftur að fikta í þessu eftir að ég fékk mína fyrstu stafrænu myndavél. Í dag er ég með fínar græjur, er með Nikon D7000 og einnig Nikon D700. Mann langar auðvitað alltaf í nýjar græjur en lætur það ekki eftir sér.“

Hefur séð 163 fuglategundir
Það er hins vegar ekki nóg að vera góðum myndavélum búinn til að vera góður ljósmyndari. Lykilatriði er að vera á réttum stað á réttum tímapunkti og einnig að hafa mikla þolinmæði. Eyjólfi þykir gaman að ljósmynda fugla og náði ótrúlegum myndum af fálka sem var búinn að fanga veiðibjöllu.

„Það var alveg ótrúleg upplifun að sjá fálkann rífa veiðibjölluna í sig og líklega það magnaðasta sem ég hef séð. Ég skaut svo mörgum myndum að ég kláraði bæði ljósmyndakortin,“ segir Eyjólfur og hlær. „Ætli ég hafi ekki tekið um 1500 myndir. Ég hef mjög gaman af því að taka myndir af fuglum og er búinn að sjá 163 fuglategundir. Það eru 77-80 varpfuglategundir hér á landi þannig að ég hef séð mikið.
Ég fer oft niður að tjörnum í Grindavík og er mikið á rúntinum. Svo er ég líka kominn með smá tengslanet og er oft látinn vita þegar sjaldséðar fuglategundir eru hér á sveimi. Félagi minn hjá Hitaveitunni hringdi í mig á sunnudaginn og lét mig vita af flatnef við Gerðasíki. Ég var sjálfur í miðri fermingarveislu í Grafarholti en rauk strax af stað. Maður er alveg heltekinn af þessu.“

Eyjólfur hefur ekkert lært ljósmyndun. Hann er sjálflærður og hefur fikrað sig áfram á þessu sviði. Eyjólfur er 65 ára gamall og ætlar að halda áfram að vinna næstu ár meðan heilsan leyfir. Ljósmyndun er helsta áhugamálið hjá Eyjólfi sem hefur einnig verið duglegur að mynda norðurljós í nágrenni Grindavíkur og skip er þau sækja á miðin við strendur Reykjaness. Á heimasíðu Eyjólfs má finna margar magnaðar myndir en þær má finna með því að fara á eftirfarandi vefslóð: http://www.flickr.com/photos/eyjovil/
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fálki gæðir sér á veiðibjöllu.

Silkitoppa gæðir sér á berjum í garði einum á Suðurnesjum.

Norðurljós og gufubólstrar á Reykjanesi.

Eyjólfur með barnabarni sínu, Kristu Líf.