Rannveig fékk Súluna
„Þetta eru nærri því fimmtán þúsund manns sem hafa farið með mér í göngu eða fengið leiðsögn en það er nærri því sami fjöldi og allir bæjarbúar Reykjanesbæjar,“ sagði Rannveig Lilja Garðarsdóttir göngugarpur og svæðisleiðsögumaður en hún fékk Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar árið 2015, fyrir framlagt sitt til kynningar á menningu og sögu Suðurnesja. Rannveig hefur í fimmtán ár staðið fyrir skipulögðum gönguferðum um Reykjanesið en þær hafa verið afar vel sóttar á undanförnum árum. Verðlaunin voru veitt í Duus safnahúsum í gærkvöld og á sama tíma var sýningin „Kvennaveldið: Konur og kynvitund“ opnuð í húsinu en þar sýna 12 listakonur verk sín.
Súlan er veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í nítjánda sinn sem verðlaunin eru afhent. Auk Rannveigar voru eftirtaldir aðilar tilnefndir: Arnór Vilbergsson, Brynjar Leifsson, Guðmundur Haukur Þórðarson, Guðmundur Rúnar Lúðvíksson, Rannveig Lilja Garðarsdóttir, Valdimar Guðmundsson, Gunnheiður Kjartansdóttir, Freydís Kneif Kolbeinsdóttir og Íris Dröfn Halldórsdóttir. Formaður menningarráðs Eva Björk Sveinsdóttir afhenti verðlaunin fyrir hönd bæjarstjórnar.
Rannveig hefur lengi haft brennandi áhuga á öllu sem viðkemur umhverfi sínu á Reykjanesi og þá bæði náttúru þess, sögu og menningu svæðisins. Hún er útskrifaður leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Íslands og með Diploma í Ferðamálafráði frá Ferðamálaskólanum í Kópavogi og hefur frá árinu 2000 verið ódrepandi í alls kyns kynningum og fræðslu sem leiðsögumaður um svæðið. Rannveig hefur lagt sig fram um að deila allri sinni vitneskju með þeim sem ganga með henni og til að virkja heimafólk á hverjum stað, leitar hún til þess og fær það til að segja gestunum frá náttúru og sögu hvers staðar fyrir sig. Þannig hefur Rannveig stuðlað að því að kynna menningu, sögu og náttúru svæðisins fyrir almenningi á Suðurnesjum og víðar. Víkurfréttir hafa sýnt gönguferðum Rannveigar áhuga og birt alla tíð myndir og texta frá ferðum hennar í miðlum sínum. Rannveig eða Nanný eins og hún er kölluð þakkaði nokkrum aðilum fyrir samstarfið í þessu verkefni. „Það er frábært að fá svona viðurkennningu. Hún hvetur mann áfram,“ sagði Rannveig.
Við sama tækifæri var styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar, sem nú var haldin í sextánda sinn, þakkaður stuðningurinn. Fram kom í máli bæjarstjóra, Kjartans Más Kjartanssonar, að virk þátttaka bæjarbúa sjálfra yrði meiri með hverju árinu sem liði og þeirra framlag ásamt fjárhagslegum styrktaraðilum gerði það að verkum að Ljósanótt væri orðin ein af helstu menningarhátíðum landsins. Helstu styrktaraðilar Ljósanætur í ár voru Landsbankinn, Íslandsbanki, HS Orka, Nettó, Norðurál og Skólamatur og voru þeim og öðrum bakhjörlum færðar bestu þakkir.
Rannveig með fjölskyldu sinni eftir afhendinguna í Duus-húsum. Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá athöfninni, m.a. frá mjög svo áhugaverðri listsýningu.