Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Rannsakar áhrif loftslagsbreytinga á farfugla
Sölvi Rúnar Vignisson að störfum með súlu. Ljósmynd/Lára Guðmundsdóttir
Laugardagur 4. mars 2017 kl. 06:00

Rannsakar áhrif loftslagsbreytinga á farfugla

- Fuglarnir drógu Sölva Rúnar Vignisson til Suðurnesja

Sölvi Rúnar Vignisson hefur alltaf verið mikill áhugamaður um fugla og starfar hjá Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði við rannsóknir á háttum fugla. Sölvi Rúnar ólst upp á Akureyri en flutti til Suðurnesja þegar honum bauðst staða líffræðings í Sandgerði. Hann kann vel við sig á Suðurnesjum og er búinn að festa kaup á íbúð í Reykjanesbæ. „Hérna líkar mér mjög vel, sérstaklega innan um alla fuglana,“ segir Sölvi sem ver miklum tíma, bæði í vinnunni og utan hennar, úti við með kíkinn eða myndavélina að skoða fugla. Í lok síðasta árs hlaut hann einnar milljóna króna styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja til að hefja rannsókn á áhrifum loftslagsbreytinga á tjaldastofninn.

Ber saman far- og staðfugla
Tjaldurinn er einn af einkennisfuglum fjörusvæða á Suðurnesjum og segir Sölvi því að tegundin gefi góða mynd af ástandi annarra fuglastofna sem nýta sér fjörur svæðisins. Tjaldurinn er bæði staðfugl og varpfugl og því er mjög hentugt að rannsaka hann. Niðurstöðurnar verður svo hægt að heimfæra á aðrar sambærilegar tegundir. Þar sem hluti stofnsins eru staðfuglar færa þeir sig ekki yfir til hlýrri landa yfir vetrartímann. Í rannsókninni ber Sölvi saman þá stofna sem eru á Suðurnesjum yfir vetrartímann og þá sem fara á hlýrri staði. „Til að auka skilning á áhrifum loftslagsbreytinga með verndun í huga þarf að vera hægt að tengja lífslíkur og varpárangur einstaklinga við farhætti innan sama stofns. Þá er hægt að mæla stærð eggja og unga og fylgjast með því hvað margir ungar komast á legg.“ Ef munur er á niðurstöðum mælinga á far- og staðfuglum getur Sölvi nýtt þær til að meta líkleg áhrif loftslagsbreytinga á fuglastofna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sölvi þarf á hjálp fuglaskoðara að halda við að skoða litmerki fuglanna á næstu árum. Ljósmynd/Halldór Pálmar Halldórsson

Með loftslagsbreytingum undanfarinna ára hefur hlýnað á Íslandi sem talið er hafa haft í för með sér að fuglar þurfi ekki endilega að fara til hlýrri heimkynna yfir vetrartímann. Sölvi segir meiri ávinning fyrir fuglana að vera kyrrir hér á landi ef þeir hafa næga fæðu og veðrið er nógu hlýtt. Því fylgi minni áhætta en að fljúga til Evrópu. Enn sem komið er séu þetta pælingar sem eigi eftir að rannsaka betur.

Tjaldurinn gæfur fugl
Sölvi þarf að ná fuglunum til að rannsaka þá. Hann segir það fara eftir tegundum hversu vel það gangi. Það sé þó frekar auðvelt að ná tjaldinum þar sem hann er ekki í felulitum, með appelsínugulan gogg, tiltölulega stór og sést því vel. „Fyrst finn ég hreiðrið. Þegar fuglinn sér að ég nálgast geng ég beint að hreiðrinu og tek eggin hans og set á góðan stað í bílnum mínum og set gerviegg í staðinn. Svo set ég hreiðurgildru ofan á hreiðrið. Fuglinn gengur inn í gildruna og þá get ég tekið hann og gert þær mælingar sem þarf að gera á fuglinum og eggjunum.“

Sölvi segir mjög misjafnt hvernig fuglar taki því að vera teknir og rannsakaðir. Sumir reyna að bíta hann en þegar tjaldurinn á í hlut er það ekki sársaukafullt þar sem goggurinn hans er ekki sterkbyggður. Annað mál er með stærri fugla svo sem máfa eða súlur en þeir eru með öflugan gogg sem vel getur rifið hold. Við rannsóknina setur Sölvi dulu yfir augu fuglanna og þá róast þeir. Eftir mælingarnar er eggjunum skilað í hreiðrið og fuglinum sleppt. Litmerki eru sett á fætur þeirra svo hægt verði að fylgjast með þeim í framtíðinni en tjaldurinn er langlífur fugl sem sækir sömu varpstaði ár eftir ár.

Sölvi þarf á hjálp fuglaskoðara að halda við að skoða litmerki fuglanna á næstu árum. Á næstunni mun hann kenna nokkra tíma í náttúrufræði við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og leggja þá áherslu á að kynna sérstöðu vaðfugla og hve mikilvægt svæði Suðurnesin eru fyrir þá enda er mikið um skeljar, orma og aðra fæðu fugla í fjörum hér á svæðinu. Rannsóknin mun taka nokkur ár og er markmiðið að birta niðurstöðurnar í virtum vísindatímaritum þegar þar að kemur.

[email protected]