Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Rán í vinsælustu þáttaröð Íslandssögunnar
Rán Ísold ásamt Baltasar Kormáki leikstjóra Ófærðar og Baltasar Breka syni hans sem einnig leikur í þáttunum. Ljósmynd/RVKstudios.
Laugardagur 9. janúar 2016 kl. 07:00

Rán í vinsælustu þáttaröð Íslandssögunnar

Rán Ísold Eysteinsdóttir, tvítug stúlka úr Keflavík, fer með hlutverk í spennuþáttunum Ófærð sem sýndir eru á RÚV um þessar mundir.  Rán leikur stúlkuna Dagnýju í upphafsatriði fyrsta þáttar sem sýndur var 27. desember síðastliðinn. Hlutverkið í Ófærð er stærsta hlutverk Ránar til þessa. Ekki aðeins er fyrsta stóra hlutverkið hennar í vinsælustu sjónvarpsþáttaröð á Íslandi heldur krafðist hlutverkið þess að hún léki nakin í kynlífsatriði. Rán segir þetta hafa verið viðkvæmt verkefni en að fagmannlega hafi verið að öllu staðið. „Fyrir tökurnar hitti ég Baltasar Breka, leikarann sem lék á móti mér, á kaffihúsi svo við þekktumst aðeins. Á tökustað var talað opinskátt um senuna og ég fékk að spyrja eins margra spurninga og ég vildi. Það var tekið fullt tillit til tilfinninga minna og þess hversu ný ég er í þessu,“ segir hún. 
 
Erfitt að horfa á sjálfa sig í sjónvarpi
Rán segir það erfiðasta við hlutverkið að horfa sjálf á það og einnig að vita til þess að aðrir myndu líka horfa. Eftir sýningu þáttarins hefur hún fengið mjög góð viðbrögð. „Fólk hefur hrósað mér fyrir það hversu hugrökk ég er. Ég var reyndar ekki búin að segja mörgum frá hlutverkinu svo það vissu ekki margir að ég væri að leika í Ófærð. Það voru því margir hissa, fólk var bara heima hjá sér að horfa á Ófærð og þá birtist ég á skjánum.“
 
Þátturinn var frumsýndur í Sambíói í Egilshöll á Reykjavík Film Festival síðasta haust og sá Rán atriðið í fyrsta sinn þá. „Þar sat ég með kærastanum mínum og 500 öðrum sem var örugglega aðeins verra en að sjá þáttinn heima í sjónvarpinu. Ég var svolítið stressuð til að byrja með því ég vissi ekkert hvernig þetta myndi koma út. Ég dolféll svo fyrir þessu, atriðið er svo stílhreint og vel gert að ég sá ekki eftir neinu.“ 
 
Óraunverulegt að fá símtal frá Selmu Björns
Rán er nýútskrifuð úr Versló og tók virkan þátt í leiklistarlífi skólans. Selma Björns sá um að velja leikara í Ófærð og það var einmitt stelpa sem Rán þekkir úr Versló sem benti Selmu á hana. „Þessi stelpa var með mér í stjórn Nemendafélagsins og hún hefur ýmis sambönd. Selma hafði samband við hana því hún var að leita að stelpu með ákveðið útlit og ég passaði við lýsinguna. Svo hringdi Selma í mig og það var svolítið óraunverulegt að fá símtal frá henni,“ segir Rán. Við tóku prufur þar sem tekin voru myndbönd og myndir af Rán. Svo þegar hlutverkið var í höfn hitti hún leikstjóra þáttanna, Baltasar Kormák. 
 
Hvernig var svo að leika með einum fremsta leikstjóra á Íslandi og mörgum af þekktustu leikurunum? „Maður þorir ekkert að sýna að maður sé alveg að missa sig yfir þessu. Ég hélt að Balti væri mjög ákveðinn en svo er hann hinn ljúfasti og við vorum bara að gantast. Ég hitti hann einmitt úti í búð um daginn og knúsaði hann. Hann er ekkert öðruvísi en hver annar.“
 
Stefnir að námi í grafískri hönnun
Núna er Rán í ársleyfi frá námi og vinnur á bílaleigu. Næsta haust stefnir hún svo að því að hefja nám í grafískri hönnun. Hún kveðst þó ekkert hafa á móti því að leika meira í framtíðinni. „Ég er svolítill tækifærissinni og ætla ekki að elta leiklistarferilinn uppi en ég gríp öll þau hlutverk og tækifæri sem á vegi mínum verða. Upplifunin og tengslanetið sem hægt er að mynda í kringum verkefni eins og Ófærð er ómetanlegt.“ Eftir að tökum á Ófærð lauk hefur Rán farið í nokkrar prufur fyrir önnur hlutverk. 
 
Helmingur landsmanna, eða 128.000 manns, horfðu á fyrsta þáttinn þegar hann var sýndur á RÚV sunnudaginn 27. desember síðastliðinn. Enn fleiri horfðu á annan þátt sem sýndur var um síðustu helgi, eða 53 prósent, samkvæmt bráðabirgðartölum frá Gallup. Aðeins stakir dagskrárliðir eins og Áramótaskaup og Eurovision söngvakeppnin hafa fengið viðlíka meðaláhorf og því stefnir í sögulegar vinsældir Ófærðar. Þættirnir eru framleiddir af RVK Studios og eru ein dýrasta framleiðsla á sjónvarpsefni sem ráðist hefur verið í hér á landi en kostnaður við þættina nemur um 1,1 milljarði króna. Þættirnir fjalla um það þegar sundurskorið lík finnst á sama tíma og Norræna kemur til hafnar. Ekki er hægt að ljúka spjallinu án þess að spyrja Rán hvort hún viti hver morðinginn er. „Nei, ég hef ekki hugmynd. Ég er ekki viss um leikararnir viti það. Það er mikil dulúð og leynd yfir þessu öllu. Ég held að enginn viti það nema Balti.“
 
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024