RALLKEPPNI Í REYKJANESBÆ
Suðurnesjarall ESSO verður á Reykjanesi um helgina. Auk hefðbundinna leiða um Hvassahraun, Kleifarvatn, Ísólfsskála, Reykjanes og Stapa verður rallað um sjálfan Reykjanesbæ. Það er rétt, kl. 12:15 á laugardag verður ekin stutt sérleið um Reykjanesbæ. Keppendur verða ræstir á Bakkastíg í Njarðvík. Af Bakkastíg verður þeyst á Brekkustíg og Iðjustíg og þaðan aftur á Bakkastíg og eftir honum niður í Keflavíkurhöfn og upp á Víkurbraut og endað á Bryggjuvegi. Keppnin hefst á föstudag kl. 17 við Bílanaust í Borgartúni en fyrsta sérleiðin verður í Hvassahrauni en að loknum tveimur stuttum sérleiðum verður næturstopp við höfuðstöðvar L.Í.A í Laugardalnum. Á laugardag hefst keppni kl. 08 á sama stað og fyrri daginn. Endamark keppninnar verður við Aðalstöðina í Reykjanesbæ.