Raka af sér hárið til styrktar UNICEF
Birta Dís Jónsdóttir og Helga Sóley Halldórsdóttir, nemendur í 10. bekk í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ, fara ótroðnar slóðir til að styrkja starf UNICEF. Þær munu raka af sér hárið þann 18. desember næstkomandi og safna nú áheitum. Þessar 15 ára stúlkur leggja mikið á sig fyrir gott málefni enda ekki margar stúlkur á þessum aldri sem gætu ímyndað sér það að láta raka af sér allt hárið og þurfa auk þess að fara í gegnum jólahátíðirnar án þess að setja upp jólagreiðslu.
Söfnun þeirra Birtu Dísar og Helgu Sóleyjar hefur farið fram úr björtustu vonum en þær hafa nú safnað 100 þúsund krónum. Þær eru alveg óhræddar við að missa hárið. „Við erum ekkert smeykar við að missa hárið. Það er jú vont að missa hárið út af kuldanum úti en maður setur þá bara á sig góða húfu,“ segir Helga Sóley. „Ég hlakka eiginlega bara til að raka þetta af. Þá þarf ég ekki að hugsa um hárið næstu mánuðina,“ segir Birta Dís. Hugmyndin kom mjög óvænt upp að sögn þeirra stúlkna.
„Ég var eitthvað að fara í gegnum hárið á Helgu. Hún er með rakað hár öðru megin og ég sagði þá hvað það væri þægilegt að hreinlega snoða sig. Vinkona mín sagðist heita á okkur 10 þúsund krónum ef við myndum snoða okkur og þá kviknaði hugmyndin að styrkja eitthvað gott málefni. Við höfðum einmitt séð auglýsingu frá UNICEF deginum áður og ákváðum að styrkja það starf,“ segir Birta Dís.
Alveg þess virði
Þær Birta Dís og Helga Sóley opnuðu Facebook síðu þar sem þær auglýstu eftir áheitum. Sú áheitasöfnun hefur hreinlega slegið í gegn og eru þær löngu búnar að ná markmiði sínu. „Markmiðið var 50 þúsund í upphafi en núna erum við komnar með 100 þúsund sem er frábært. Ég held að hárið á okkur sé alveg 100 þúsund króna virði,“ segir Birta Dís og hlær. Þær óttast ekkert að geta ekki sett upp glæsilegar jólagreiðslur. „Við hugsum þetta þannig að það er fullt af börnum úti í heimi sem hafa ekkert til að borða um jólin en það er auðvelt fyrir okkur að vera ekki með neitt hár um jólin. Þetta verður alveg þess virði.“
„Fjölskyldan hefur tekið vel í þetta. Mamma sagði strax já en pabbi var svolítið smeykur. Systur mínar hafa ekki verið alveg eins jákvæðar en flestir hafa hvatt okkur áfram. Við erum spenntar,“ segir Birta Dís.
Þeir sem vilja heita á þessar hugrökku ungu stúlkur er bent á að hægt er að leggja fram frjáls framlög inn á bankareikning sem þær hafa stofnað. R.nr.: 0142-05-071036, kt.: 230197-2969. Einnig má finna frekari upplýsingar á Facebook síðu þeirra stúlkna.