Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ragna sýnir í Suðsuðvestur
Miðvikudagur 23. janúar 2008 kl. 15:59

Ragna sýnir í Suðsuðvestur

Sýning á verkum Rögnu Hermannsdóttur opnar laugardaginn 26. janúar kl.16 í sýningarýminu Suðsuðvestur í Reykjanesbæ.

Á sýningunni gefur að líta úrval verka síðastliðinna 30 ára þar sem bókverkin hennar fá þó að vega þyngst en auk þeirra eru sýndar vatnslitamyndir, þrykk, ljósmyndir og tölvuunnin verk.


Meðfylgjandi er texti úr sýningarskrá eftir Diddu Hjartardóttir:

Stór hluti af myndlist Rögnu er bókverk og spanna þau mjög stórt svið bæði hvað varðar tækni og framsetningu, hún hefur notað bókina sem miðil og unnið m.a. með  offset og silkiprentun en á síðari árum hefur Ragna notað tölvuforrit og prentara í bókagerð. Í safni þeirra bóka sem Ragna hefur gert  er að finna ljósmyndabækur, svarthvítar bækur og litskrúðugar, sögur, ljóð og texta. En fyrst og fremst byggja  bækurnar á myndrænni  framsetningu. Sá heimur sem birtist í bókum Rögnu  er hugleiðslukenndur. Það er eins og sjónpunktur hennar standi utan við sjálft efnið og horfi inn á við en samtímis horfi hún út úr síðum bókanna. Síbreytilegur  sjónpunktur Rögnu  skapar hreyfingu og  virkar þannig að þegar maður skoðar bækurnar  missir maður áttir og  dregst  inn í forvitnilegan  heim sem býr yfir  óskilgreinanlegri  vídd.  Umbreytingar gegna líka stóru hlutverki í bókum hennar, í þeim má oft sjá einskonar bið eða útungunartíma. Hringrás náttúrunnar  og eins hvað getur gerst þegar sú hringrás er rofin.

Ragna hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í mörgum samsýningum  bæði á Íslandi og erlendis þar á meðal  í Nýlistasafninu, á Kjarvalsstöðum og í Norræna húsinu. Á  Akureyri ,Ísafirð og Húsavík. New York, Amsterdam og Danmörku.

Sýningin mun standa til 24 febrúar og verður opin laugardaga og sunnudaga frá kl.13. til kl.17.30.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024