Rafmagnslaus dagur á Garðaseli
Börn og starfsfólk í Heilsuleikskólanum Garðaseli voru með rafmagnslausan dag í janúar. Öll ljós voru slökkt og fengu börnin að kynnast því hvernig hægt er að bjarga sér án rafmagns í nokkrar klukkustundir.
Mörg börn komu með vasaljós að heiman og skemmtilegt andrúmsloft myndaðist í hópnum þegar börnin reyndu að lýsa sér leið til að sinna verkefnum dagsins. Í salnum var haldin skemmtun þar sem börnin dönsuðu með vasaljósin við tónlist sem spiluð var af gömlu tæki sem knúið var af rafhlöðum. Hádegismaturinn var skyr þennan dag því ekki var hægt að nota rafmagnstækin í eldhúsinu.