Rækta nautgripi í Eyjafirði
Það var gamall draumur sem hefur blundað með okkur í mörg ár að setjast að í sveit og gerast bændur. Við höfðum skoðað mikið á Suðurlandi en það var allt svo nálægt ferðamannastöðum og því of dýrt. Síðan fyrir algjöra tilviljun dettum við niður á þennan bæ á Norðurlandi og lýst svona vel á,“ segir Elmar Þór Magnússon. Fyrr á þessu ári fluttist hann úr Garðinum, þar sem hann er fæddur og uppalinn, og settist að á Jórunnarstöðum norður í Eyjafirði ásamt konu sinni, Helgu Andersen, og þremur börnum. Börnin eru Alex Breki 11 ára, Aron Máni 9 ára og Kolbrún Líf 7 ára . Elmar fór norður um miðjan mars en Helga og börnin um vorið þegar skólanum var lokið.
Jórunnarstaðir eru innarlega í Eyjafirði. Aðeins eru fjórir bæir innar og stutt upp á hálendið. Úr bæjarhlaðinu á Jórunnarstöðum eru 35 kílómetrar til Akureyrar. Bæjarstæðið er snjólétt og vegarsamgöngur góðar því tryggja þarf að skólabíllinn komist um sveitina og þá eru þar jafnframt margir bændur í mjólkurbúskap. „Þó svo það sé allt á kafi á Akureyri, þá getur verið snjólétt hjá okkur,“ segir Elmar og segir að það sé veðursæld í sveitinni. Það sé einkum í sunnan- og suðvestan-áttum sem það blæs hressilega inn Eyjafjörðinn. Síðasta sumar hafi verið frábært veðurfarslega og mjög þægilegt.
Stefna á 120-30 nautgripi
Elmar og Helga eru í nautgriparækt og þegar þau tóku við búinu í mars á þessu ári voru þar 65 gripir. „Við höfum verið að stækka og stefnum á að vera með 120-30 gripi. Við erum komin í 90 gripi núna og höfum verið að betrumbæta húsnæði til að taka við fleiri kálfum“.
Auk 90 nautgripa er fjölskyldan með 12 hænur og þrjá hunda. Engar rollur eru á bænum en til stendur að bæta úr því, þá aðallega til að eiga lambakjöt í frystikistuna.
Langur vinnudagur
Sveitalífið kallar á langa daga. Fjölskyldan fer á fætur klukkan sex á morgnana. Skólabíllinn kemur kl. 7 að sækja börnin í skólann og Helga leggur af stað til sinnar vinnu í Hrafnagili tuttugu mínútum síðar. Elmar fer svo í fjósið um kl. 8. Þá er gefin morgungjöf og unnin tilfallandi störf. Þá er aftur kvöldgjöf kl. 18 síðdegis.
Síðustu mánuðir hafa farið í miklar endurbætur á útihúsunum að Jórunnarstöðum. Allt hefur verið þvegið hátt og lágt með háþrýstidælu, veggir málaðir og mikil smíðavinna til að gera aðstöðu fyrir fleiri nautgripi. Stefnt sé að því að vera með allt að 130 gripum en Elmar segir að húsakostur á staðnum geti tekið á móti allt að 180 gripum.
Börnin ánægð í sveitinni
Lífið í sveitinni er frábrugðið því sem það var í Garðinum og börnin eru að kunna vel við það í dag. „Þau eru alveg himinlifandi,“ segir Elmar. Þau séu hjálpsöm í fjósinu og bara mjög dugleg og finnst virkilega gaman að vera hérna.
Það var gamall draumur hjá Elmari og Helgu að gerast bændur og því liggur beint við að spyrja hvort raunveruleikinn sé eins og draumurinn. Hefur eitthvað komið á óvart?
Elmar segir fullt af hlutum hafa komið sér á óvart. Enginn dagur í sveitinni sé eins. „Vinnulega séð er þetta eins og ég bjóst við en í nautakjötsframleiðslunni kemur mér í raun á óvart hvað hægt er að rækta gripina á marga vegu,“ segir Elmar.
Í sumar tóku þau Elmar og Helga að sér börn í vistun til vikudvalar í senn. „Það var alveg æðislegt bæði fyrir okkur og börnin svo við ákváðum að halda því áfram með öllum bústörfunum og erum við núna orðin stuðningsforeldrar og erum að taka börn hingað í sveitina, bæði í skammtíma- og langtímavistun. Það má því búast við að það eigi eftir að fjölga töluvert á Jórunnarstöðum. Þá er Akureyrarbær búinn að hafa samband við okkur um helgardvalir nú í vetur“.
Prófar nýjungar í nautgripaeldi
Elmar segist vera að prófa margt nýtt í fóðurgjöfinni. Hann sé í samstarfi við fyrirtækið Búgarð á Akureyri og er að prófa nýja tegund af eldi, svokallað sterkt eldi. Það gengur m.a. út á það að nautgripir fara þá til slátrunar 20 mánaða í stað 24 mánaða eins og er í dag. Þess í stað eru gripirnir látnir stækka hraðar.
Elmar segist vera heppinn með húsakost að Jórunnarstöðum. Þar séu góð hús og verkstæði þar sem hann hefur unnið að því að gera upp þær vélar sem voru á bænum þegar þau keyptu býlið.
Ævintýri í heyskapnum
- Hvernig gekk heyskapur í sumar?
„Fyrsti mánuðurinn var ævintýri. Það tók tíma að læra inn á allt þetta enda hafði ég aldrei verið í heyskap áður. Nágrannar mínir eru frábærir og hafa aðstoðað mig alveg gríðarlega mikið“. Elmar segir að vinir og ættingjar þeirra Helgu hafi líka verið duglegir að koma í heyskapnum og aðstoða og án þeirrar aðstoðar hefði þetta orðið erfitt.
- Hvernig hafa aðrir bændur í sveitinni tekið ykkur?
„Þeir eru mjög ánægðir með að fá ungt fólk með börn í sveitina. Þá eru þeir duglegir að lána tæki og hjálpa til og rukka ekkert fyrir. Hér er bara greiði á móti greiða. Allir hjálpast að. Það er alveg ótrúleg hjálpsemi í sveitinni og þeim þykir þetta ekkert mál. Þetta er eitthvað nýtt sem maður kynntist ekki fyrir sunnan, svona mikilli hjálpsemi“.
Kaupir vikugamla kálfa
Í nautgriparæktinni eru engir kvótar á það hversu marga gripi má rækta. Bændur eru bara hvattir til að rækta meira því eftirspurn er eftir íslensku nautakjöti. Elmar segir að eins og staðan sé í dag sé of mikið um það að ungum kálfum sé slátrað aðeins vikugömlum. Þeir sem eru í mjólkurframleiðslu taki bara kvígurnar og ali upp en láti nautin strax í slátrun.
„Nú skottast ég um sveitirnar og er að kaupa vikugamla nautgripi sem ég síðan rækta hér á Jórunnarstöðum til tveggja ára aldurs. Ég er kominn í föst viðskipti á nokkrum bæjum og er að reyna að komast að hjá fleirum“. Norðlenska á Akureyri kaupir svo gripina af Elmari til slátrunar.
Búðarferðin er 70 km
Þegar blaðið ræddi við Elmar um miðjan nóvember var búinn að vera snjór yfir öllu í heilan mánuð og margir kaldir dagar. Frostið hafði farið niður í -15 gráður en oft verður mjög kalt svona innarlega í Eyjafirði en á móti kemur að verður er stillt.
Það þarf að skipuleggja daglegt líf öðruvísi þegar búið er langt inni í sveit því ein ferð út í búð kostar 70 kílómetra akstur. Það sé því alltaf keypt inn fyrir ca. 10 daga í einu og gott búr heima á bænum með öllum nauðsynjum. Helga fer þó inn á Akureyri tvisvar í viku með dótturina, Kolbrúnu Líf, til að æfa listhlaup á skautum. Það má því nota þá ferð til að bjarga nauðsynjum. Elmar segir að þrátt fyrir góðar samgöngur sé nauðsynlegt að vera á jeppa í sveitinni og vera við öllu búinn.
Gestkvæmt í sveitinni
Þó svo Elmar hafi flutt í sveitina í mars og Helga komið með börnin í lok maí, þá hafa vinirnir verið duglegir að kíkja norður í sveitina. Þau eru með risastóra gestabók og í haust töldu þau vel á annað hundrað nöfn gesta sem hafa kíkt við á Jórunnarstöðum. Þau Elmar og Helga leyfa fólki að tjalda við bæinn og erlendur ferðamaður fékk að tjalda í hlöðunni í sumar þegar gerði mikið rok og rigningu. Aðspurður hvort þau ætli í ferðaþjónustu, segir hann að það blundi í þeim. „Ætli það sé ekki inni á 10 ára áætluninni,“ bætir Elmar við og segir að nægt landrými sé fyrir slíkt. M.a. megi setja smáhýsi í fallega hlíð við bæinn. Þá henti íbúðarhúsið vel til að breyta því í gistiheimili. Þá liggur þjóðvegurinn framhjá bænum að Laugafelli og upp á hálendið.
Framundan er að halda jól og áramót í sveitarrómantík norður í Eyjafirði. Þau Elmar og Helga senda vinum sínum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og farsæld á nýju ári.
(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)