Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Puttalingarnir: Utila - León
Mánudagur 26. nóvember 2007 kl. 11:36

Puttalingarnir: Utila - León

Rúnar:

Þegar síðasti punkturinn var settur aftast við síðasta pistill höfðum við frændurnir nýlokið sitthvorri gráðunni í köfun. Sú köfun var eftir vonum og hin mesta skemmtun þó annað, t.d. veður og árásir annarra lífvera á okkar auma líkama, fór miður. En þó ætluðum við ekki að vilja sætta okkur við að við karabíska hafið er rigningatímabil og við megum búast við rigningu hvenær sem er á meðan við dveljumst þarna. Svo við fórum frá Flóaeyjum til meginlandsins og ókum vesturettir meðfram strandlengju Hondúras til staðs sem nefnist Trujillo í grenjandi rigningu alla leiðina og á móti okkur tók (en ekki hvað?) grenjandi rigning. Annar af Dönunum tveim sem ferðast hafa með okkur í yfir mánuð gerði ekki einu sinni tilraun til að flýja rigninguna og var eftir í Utila, Flóaeyjum, og verður þar fram í desember til að læra köfunarmeistarann. Þegar hann hefur lokið því mun hinn Daninn, Jakob, bíða eftir honum í Kostaríka. Þá, á hinn bogin, eigum við frændurnir stefnumót við Suður-Ameríku sem þýðir að við höfum sagt skilið við Anders. En Jakob mun ferðast áfram í sömu rútu og við allt til Kostaríka þar sem hann áformar að dvelja þar í yfir mánuð.

En nú að meginlandinu. Það eina sem Skúli og Jakob geta sagt um Trujillo, sem er einhver merkilegasti staður Mið-Ameríku hvað sögu varðar, er að þeir hafa verið þarna. Þarna steig Kristófer Kólumbus fyrst fæti á meginland Ameríku, þarna voru sjóræningjaárásir svo tíðar að bærinn var margsinnis rændur, brenndur og jarðaður við jörðu og þarna var ævintýramaðurinn William Walker líflátinn og grafinn eftir misheppnaða valdaránstilraun yfir alla Mið-Ameríku. Vegna rigningar tóku Skúli og Jakob þá meðvituðu ákvörðun að flýja til Kyrrahafsins með fyrstu mögulegu rútu næsta dag. Ég ákvað samt að bíða með að taka rútu þar til eftirmiðdegið. Morguninn notaði ég svo til að skoða öll þessi sögulegu undur sem bærinn hafði að bjóða.

Það var hægara sagt en gert að flýja regnið. Það tók fjöldann allan af kílómetrum og ein landamæri. Alls tók ferðin 2 sólarhringi með 4-7 rútum (eftir hversu mikið menn voru reiðubúnir að borga fyrir). Og þegar birti til vorum við staddir í hinni einu sönnu höfuðborg byltingarinnar: 

„Það er mjög erfitt að fara héðan frá León. Ég er núþegar búinn að vera hér í 9 daga sem er allt of mikið miðað við tímamörk. Um daginn var karníval, daginn eftir voru haldnir stórtónleikar, svo kom annað karníval nema þann daginn renndum við Skúli okkur niður virka eldfjallið Cerro negro, bjórinn hefur verið drukkin og rommið hefur verið blandað og salsað hefur verið spilað (í bland við miður gott reggíton) og dansinn hefur fylgt hvert einasta kvöld, ef undanskilið er kvöldið í gíg virka eldfjallsins Telica (meira um það síðar). Svo hef ég heimsótt merkileg söfn og kirkjur. Þar má nefna stærstu kirkju Mið-Ameríku og byltingarsafnið (sem er meira fjórir veggir allir útataðir í úrklippum, ljósrytum og myndum frá byltingunum auk eins byltingarsinna sem gæti þess vegna verið bróður Daníels Ortega eða sonur Che). Svo hefur mér líka margoft verið boðið að vera sagt sögu Níkaragva þar sem einn Leónbúi gengur um göturnar og útskýrir fyrir mér hvernig þau fjölmörgu málverk sem er búið er að mála um borgina tengjast sögu þessa lands. Á síðasta hluta seinasta málverksins sem mér var sýnt var mynd af tveimur krökkum sem hlupu, haldandi í hendur, út í óvissuna í engi sem hafði tekið við vopnunum sem lágu á víð og dreifð í blóðugri eyðimörkinni. Um þessar götur í dögginni má maður líka heyra trommuslátt. Það er trommusláttur sögu Níkaragva. Þrír krakkar, sem klæddir eru í búninga eftir aldagamalli hefð, dansa við þessa trommuslætti og segja sögu þeirra lands bundna í rímu. Svo er það bara ströndin, sólin, kaffið, vindlarnir, rommið og ekki síst fólkið sem gerir León að uppáhaldsstaðnum mínum hingað til.“

En það er ekki allt búið enn. Í næsta nágreni eru fjöldin allur af virku eldfjöllum og sem Íslendingur má ég ekki missa af þeim. Ég prílaði á tvö þeirra. Það fyrra, Cerro negro, fór ég með Skúla og öðru liði með pallbíl að rótum fjallsins. Þar var okkur fært sleða og búninga til seinni tíma nota. Svo hófst prílið að óvirkum gíg fjallsins. Ekkert að sjá þar sem maður hefur ekki séð áður, nema útsýnið frá kolsvörtum 400m. hólnum yfir græna akrana sem ná útfyrir sjóndeildarhringinn. Svo var virki gígurinn sóttur heim og sömuleiðis var þar ekkert nýtt að sjá fyrir Íslendingana. Því næst safnaðist hópurinn saman, sleðarnir settir á jörðina, við í búningana, við á sleðana, „Ohh, you’ve got one of the Ferrari ones,“ segir leiðsögukonan, „Ðets kommfortíng tú nóf,“ svara ég horfandi niður 400m. brekku með 45 – 50° halla, mér ýtt, ég renn niður, ég fer hraðar, og hraðar og hraðar, sleðinn byrjar að vagga, ég er kominn niður í miðja brekkuna, og enn eyk ég hraðann, sleðinn vaggar meira, ég sé jörðina nálgast allt of hratt, enn eyk ég hraðan og sleðinn heldur áfram að vagga, ég fell á hliðina, sleðinn flýgur í loftið eins og aldrei fyrr, ég rúlla og flýg í sömu átt og sleðinn, einn hringur, tveir hringir, kastast í loftið, lendi á bakinu, og renn svo næstu 20m. með hausinn á undan. Einn andardráttur, tveir, „hjúff, ég er á lífi,“ þrír, „Ég verð að standa upp og vona að enginn hafi séð þetta. Ég dríf mig niður og lít á sárinn, þetta eru bara einhverjar skrámur. Næstur er Skúli. Og niður fer hann eins og hann hafi aldrei gert annað alla sína ævi, ólíkt mér, á sleðanum allan tíman.

Seinna eldfjallið, Telica, var ekki jafn mikið ævintýri, þó mér hafi tekist, eflaust fyrstur manna að fara í vímu af greipaldinn. Gangan að toppnum var erfið en gígurinn, sá stærsti sem ég hef séð, gerði þetta allt þess virði. Í dögginni mátti til dæmis sjá fljótandi hraun og í dögun voru þau risa þverhnípi sem umliggja virka gíg fjallsins drungalegri en Látrabjarg getur nokkurtíman látið sig dreyma um. Í þennan gíg var venjan að kasta fólki með „hættulegar“ stjórnmálaskoðanir niður úr þyrlu í einu af þeim fjölmörgu borgarastyrjöldum sem þetta land hefur þjáðst af.

Og svo var líka einn menningarviðburður sem ég sótti heim til viðbótar við karnívalin, pöbbatónleikana o.s.frv. Það voru stórtónleikar fyrir stúdenta. 20þús. manns, ef ekki meira. Og tónleikarnir fylltust. Ég fór með hostelhóp að tónleikunum til að komast að því að þeir voru girtir inn. Allt í lagi, ég get keypt mér miða. Nei! No puedo, svæðið er fullt og það verða ekki seldir fleiri miðar. Þrjóskan skyldi mig svo einan eftir, eftir að restin af hostelinu var farin á einhvern pöbbinn. Ég VARÐ að komast inn, þetta leit svo skemmtilega út og ég var alvarlega farinn að ganga hringi í kring um tónleikasvæðið til að reyna að finna út hvar væri best að hoppa yfir, troða sér undir eða múta öryggisvörðum. Eftir að hafa komist að því hversu mikil gunga ég er fór ég líka og hitti restina af hostelpakkinu á einum af fjölmörgum pöbbum í León.

Hvað Skúla varðar, sem hefur algjörlega vantað í þennan pistil, er hann núna staddur með Dananum Jakob við Kyrrahafsströndina í San Juan del Sur og mun að öllum líkindum segja sinn pistill við tækifæri.

 

Kveðja, Rúnar Berg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024