Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Puttalingarnir: Santa Elena - Xela
Þriðjudagur 30. október 2007 kl. 10:22

Puttalingarnir: Santa Elena - Xela

Frá því síðast höfum þeir frændurnir verið í tvennu lagi, en samt ekki. Frá Flores fóru þeir með Dönunum Anders og Jakob til Kobán og í Kobán fóru þeir í tvær mismunandi ferðir. Anders, Jakob og Skúli fóru í dagsferð að skoða mjög sérstæð lón á meðan Rúnar Berg fór í þriggja daga sveitaferð í nálægum hverfandi skýjaskógum. Allir hittust þeir svo aftur í Quetzaltenango, eða Xela, sem er önnur stærsta borg Gvatemala með 110.000 íbúa í 2300 m. hæð yfir sjávarmáli. Daginn sem Rúnar kom svo seinastur til borgarinnar voru hinir þegar búnir að koma sér fyrir á þrem mismunandi stöðum og sóttu allir spænskuskóla á meðan sá sem seinna kom ákvað að sleppa honum og koma sér fyrir á fjórða staðnum í borginni. Því voru þeir allir dreifðir um borgina en hittust þó reglulega.

 

Síðasta laugardag sameinuðust Rúnar og Anders fjallgönguföruneyti sem samanstóð af níu öðrum þátttakendum og fjórum leiðsögumönnum í sjálfboðastarfi. Skúli og Jakob fundu fyrir veikindum og slepptu því göngunni en síðar kom í ljós að Jakob var hrjáður sníklum og var settur á 6 mismunandi lyf næstu fimm daga. Gangan tók 2 daga, þar var tjaldað í 4000 metra hæð, vaknað klukkan þrjú um morguninn gengið síðustu hundruð metrana og horft á hina undurfögru sólarupprás frá hæsta punkti mið-Ameríku, Tajamulco. Skúli og Jakob voru komnir með nóg af þessari borg og litu svo á að spænskan og slappleiki varð þeim um megn svo þeir flúðu að vatninu Lago Atitlan 2 dögum fyrir áætlun á meðan Anders og Rúnar, nýkomnir niður fjallið, skemmtu sér konunglega með fjallgönguföruneytinu næstu tvö kvöld.


Það sem Rúnari fannst merkilegast við Tajamulco var hversu íslenskt landslagið var. Þessi gígantíski gígur er meira svona 4000 m. útgáfan af Íslandi. Þar fyrir utan þótti honum mikið koma til sólarupprásarinnar sem og fannst honum merkilegt útvarpsmastrið þar sem það var notað til að senda upplýsingar til skæruliða í borgarastyrjöldinni, því þarna stóðu þeir af sér veðrir í þessum öfgaskilyrðum sem veðrið og hæðin halda við. Það er ekki hægt að hætta að tala um þessa ferð nema að gefa ferðaskrifstofunni Quetzaltrekkers hrós.


Eins og áður kom fram fór Skúli í dagsferð að undrafallegum lónum að nafni Champuche með Dönunum tveimur.  Það sem var merkilegt við þessi lón var að þau mynduðust þar sem feiknarstór á rann neðanjarðar 300 metra.  Leiðsögumaðurinn okkar fór með okkur niður sleipan stiga inn í hellinn þar sem áin rann með ógnarkrafti. Á íslandi hefði maður verið bundinn, með hjálm og örugglega björgunarvesti líka en ef maður hefði misst gripið biði ekkert annað en dauðinn fyrir neðan. Fyrir utan þessa dagsferð hefur Skúli gert lítið annað en að liggja og lesa eða glápa á sjónvarpið sökum veikinda.

Nú er bráðum tími til að kveðja Gvatemala. Mér  þykir það leitt því mér finnst vera svo margt sem þarf að gera fyrir þetta land, og það sem verra er að mér finnst ég geta hjálpað en geri það ekki af einhverjum ástæðum. Í þessu tilviki er það ég, Rúnar Berg sem talar í 1. pers. et. Það er gild afsökun að ég hélt í þessa ferð í þeim tilgangi að ferðast en ekki til að stunda sjálfboðastarf. Það er líka afsökun að ég veit að ég þarf að halda mér innan tímamarka. En samt líður mér illa. Ég hef það á tilfinningunni að landið eigi bara eftir að halda niður á við. Þið hafið eflaust öll heyrt í fréttunum ykkar um Pérez Molina forsetaframbjóðandann sem lofar þjóðaröryggi með hreyfanlegu hervaldi innan borgarmarka. Fréttirnar ykkar sögðu líka eflaust að þessi maður var gerður útlægur frá Gvatemala vegna þátttöku hans í þjóðarmorðunum árið 1982 og mætti því með réttu ekki einu sinni bjóða sig fram. Fátækur, upplýsingasnauður og örvæntingabrenglaður almúginn kýs þennan mann og hann mun að öllum líkindum sigra og opna veginn að hækkandi dánartíðni (sem þó er allt, allt of há í augnablikinu) því hann veit ekki betur og enginn er að gera neitt til að upplýsa hann. Á meðan friðarverðlaunahafi Nóbels, Menchú, fær fæst allra atkvæða. En eins og ég segi, er ég ábyggilega ekki að segja neitt nýtt því fréttirnar ykkar eru eflaust búnar að fjalla um þetta margoft.


Í sveitaferðinni minni kynntist ég svolitlu sem ég mun eflaust aldrei gleyma. Alvöru fátækt. Ég borgaði óháðum samtökum einhvern pening fyrir að vera milliliður í að koma mér þangað. Þessi samtök vinna að því að bjarga skógum frá rányrkju. Því í þessum darwiníska heimi þar sem fátækir eru dæmdir til að verða fátækari er engin leið fyrir bændur af indíánaætt upp á fjöllum að lifa nema annaðhvort að snúa aftur í 100% sjálfsþurftarbúskap eða rækta meiri maís. Til að rækta meiri maís þarf að stækka ræktlandið og eina leiðin til að gera það er að brenna skóga. Vesturveldin eru ekki reiðubúin að borga sanngjarnt verð fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir frá fátæku Ameríku og því mun það ávallt verða skógurinn sem mun lúta í lægra haldi því brátt mun hann hverfa allur ef ekkert verður að gert. Það sem fyrrnefnd samtök vinna svo að er í meginatriðum að borga bændum fyrir að láta skóginn eiga sig. Þau þjálfa karlmennina á bóndabæjunum sem leiðsögumenn og fá svo túrista til að borga fyrir þjónustuna. Ef skógarnir myndu hverfa, hefðu bændurnir ekkert til að sýna túristunum og því myndu þeir verða af þessu dýrmæta fé sem við komum með.

 

Lífsskilyrðin eru hræðileg sem þau búa við. Sá nálægasti vegur er vart hægt að kalla veg, samgöngur á honum eru stundaðar aftan á pallbíl þar sem fólk hrúgast saman, en fyrst þarf þó að ganga í sirka 2 tíma til að komast á veginn frá bænum. Bærinn er meira átta plankar með bárujárni hér og þar heldur en alvöru hús. Við það er ekkert rafmagn tengt og fyrir hvert sólsetur þurfa börnin (tveggja til átta ára) að ganga þó nokkra vegalengd til að sækja vatn. Svo þarf að sækja brennivið, mala tortillur og fullt af annarri erfiðisvinnu. Mér var tjáð að flest börn nái í gegnum þriðja bekk hér í Gvatemala og byrja svo jafnt og þétt að týnast burt frá menntaveginum. Eina skemmtunin þeirra, var fótbolti. En í svo mikilli fátækt verður að nota samanbundna plastpoka.

 

 


Ég hitti stelpu á hostelinu sem vinnur sjálfboðaliðastarf í svona sveit eins og þessari. Hennar starf er að upplýsa fólkið um alnæmi, svo virðist sem stjórnvöld séu óviljug til verksins. Umheiminum er sama um þetta land svo lengi sem landbúnaðarafurðirnar haldast lágar í verði og þau einu sem vilja eitthvað gera eru ungmenni sem hafa fengið nóg af því að vera stöðugt sagt hversu dásamlegur heimurinn sé. Ég er búinn að ákveða að í næstu ferð set ég mér engin tímamörk, engar fyrirfram pantaðar ferðir eða bókaðir áfangastaðir. Þá ferðast ég bara með flugvél til einnar borgar og vinn út ferðina þaðan. Ef ég hefði gert það svoleiðis núna væri ég bókað lengur hér í Gvatemala að leggja mitt af mörkum.
Við kveðjum þennan pistill með því að upplýsa lesendur um þá staðreynd að hann er skrifaður á 21. afmælisdeginum hans Rúnars, þann 24. okt. sem einnig er kvennafrídagurinn og því óskum við öllum konum til hamingju með daginn með baráttukveðjum frá Gvatemala.


Höfundar:
Skúli Pálmason, heimsfari
Rúnar Berg Baugsson, heimsfari

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024