Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Puttalingarnir: Ramadan og aðrir mjög svo eðlilegir hlutir
Laugardagur 15. september 2007 kl. 22:02

Puttalingarnir: Ramadan og aðrir mjög svo eðlilegir hlutir

Ramadan er byrjuð og það sést á götum úti. Fyrir kristna menn að verða sér úti um mat fyrir sólsetur er hægara sagt en gert. Því brá annar okkar, Rúnar Berg sem fyrr, á það ráð að fasta einfaldlega með múslímska meirihlutanum hérna í Rabat. Ferðinni var svo heitið til Kenitra sem sögð var öruggur kostur fyrir þá sem vilja skella sér á brimbretti. Eins og víðast hvar í múslímsku löndunum voru nær allir veitingastaðir lokaðir í Kenitru, nema einn pítsastaður. Sem þýddi það að 8 klukkustunda löngu föstunni hans Rúnars var lokið.

Við dvöldum yfir kosningarnar í Er-Rachidia. Og marakkóskar kosningar eru engu líkar þeim sem við könnumst við heima. Þar er dansað, sungið og spilað á trommur og lúðra á meðan við étum pulsur, drekkum kaffi og spilum vist heima. Samt er öllum sama um kosningarnar hérna. Eða eins og einn Marakkóbúi orðaði það þegar við spurðum hann hverjir væru að vinna: „Það er enginn að vinna kosningarnar, trén halda það (hann benti í átt að slíkum látum að það mætti halda að Old Trafford væri hinum megin við götuna) en meiri hlutinn kýs með því að kjósa ekki. Því sama hverjir halda að þeir hafi unnið og sama hverju þeir lofa, þá gerist alltaf ekki neitt, og það er þess vegna sem göturnar hérna eru svona.“ (hann benti á götuna fyrir neðan okkur sem var lítið annað en malarhrúga.)

Ekki ósvipað lóninu okkar bláa heyrðum við af náttúrulegri laug 20 kílómetra í burtu. Þetta urðum við frændurnir að kíkja á, þarna var jú fallegt en að bera þetta saman við Bláa lónið er eins og að bera Jóda saman við sólgleraugu. Við tókum nokkra sundspretti og létum það nægja um sinn.

Daginn eftir fórum við til Azrou. Azrou er fimm klukkustundum frá Er-Rachidia, en samt héldum við báðir að við hefðum villst hinum megin við Gíbraltarsund, því meira að segja moskan í þessari 50.000 manna borg er líkari spænskri kirkju en nokkurn tíman þeim arkitektúr sem við höfum vanist hér í Marakkó. Það var ekki fyrr en við eftir 2 tíma göngu um umliggjandi skóga og fjalllendi (sem einnig voru evrópskir að líta) að ágætlega stór api varð á vegi okkar þegar við loksins áttuðum okkur á því hvaða heimsálfu við virkilega vorum staddir í.
Leiðin lá til Rabat, í gegnum Féz og Meknéz með viðkomu í hinni heilögu borg Mouley Idriss. Fornt, er orðið sem notað er til að lýsa þessum borgum (að Meknéz undanskilinni) því, m.a., stendur háskóli í völundarmedínunni í Féz sem var reistur á 9. öld. Og unnið er að því að gera hann aftur starfhæfan. Okkur lærðist líka mikilvæg lexía í Féz, þegar maður er með opinberan leiðsögumann að fylgja sér minnkar söluáreitið um 100%. Meknéz er ekki nærri því jafn spennandi og Féz, að því frátöldu að hin heilaga borg Mouley Idriss og hinar rómversku rústir í Vulubilis, eru steinsnar í burtu.

Fólkið í þeim hluta Marakkó sem við höfum verið í undanfarið er svo gjörólíkt því sem við kynntumst í Casablanca eða Marakesh. Reyndar setur Féz sig í flokk með hinum borgunum tveimur en allsstaðar annarsstaðar eru vinsemin ósvikin. Tungumálið á það til að bæla félagslífið okkar, t.d. í fyrrnefndri laug í Er-Rachidia kynntumst við manni sem vildi ólmur bjóða okkur heim til sín. En áður en við vissum af vorum við búnir að afþakka boðið í sömu setningu og við þáðum það. Okkur grunar að enska orðið fyrir atviksorðið „núna“ hafi hrundið þessum misskilningi af stað þar sem það er of líkt upphrópuninni „nei“ á þessari fjölþjóðatungu. Í Azrou var líka einn stráklingur sem fylgdi okkur í gegnum áðurnefnda skóga og fjalllendi. Eftir að hafa sýnt okkur apa og fylgt okkur niður bröttustu brekkuna og í gegnum þéttustu þyrnana bauð stráksi okkur með sér heim í te og brauð. (Ef leið ykkar, kæru lesendur, liggur einhvern daginn til Marakkó þá verðið þið að smakka heimalagað te.) Vitaskuld endaði þetta teboð á teppasýningu, en okkur til furðu hætti móðirin að sýna okkur teppi um leið og við tjáðum áhugaleysi yfir þessum undurfögru ruggum. Þessi nýja sölutækni kom okkur frændunum algjörlega í opna skjöldu og við enduðum á því að skipta við konuna á tveimur hálsmenum og samtals 350 dírhömum (2800 kr.), en við litum á það þannig að í leiðinni værum við að borga stráksa fyrir leiðsögnina um skóginn fyrr um daginn.

Það er ekki hægt að segja að sögumenn hafi sloppið við alla bakhnekki, eða alla vega ekki sá hluti okkar sem nefndur er Skúli. Á meðan hinn helmingurinn af okkur hefur svo gott sem sloppið við allan óþvera (matareitrun, moskítóbit o.s.frv.) hefur sá fyrri, allur út bitinn með tilheyrandi kláða, verið haldin misvægri matareitrun svo gott sem alla ferðina að fyrstu fjórum dögunum undanskyldum. Síðarnefndur höfundur, Rúnar Berg, varð svo næstum sprengdur í loft upp tvisvar sömu nóttina í Féz. Þruma varð í seinna skiptið til þess að vekja Skúla þar sem hann hélt að um sprengja hefði valdið hávaðanum, eða eins og sagt var: „Rúnar!!! Heyrðurðu þetta? Þetta var sprengja.“ (Hvort of mikill gullfoss valdi óhóflegri paranóju er fyrir vísindamenn að kanna.) Hin umrædda sprengjan var kannski örlítið alvarlegri en hún gerðist svo:
„Leslampinn í hótelinu er ekki að fúnkera sem skildi og því tekur Rúnar það á sig að lagfæra hann svo Skúli eigi auðveldara með svefn á meðan sá seinni liggur við lestur. Peran er eitthvað skökk og ekki er unnt að hreifa hana á meðan glergaurinn er fyrir svo hann er tekinn af. Peran er líka tekin tímabundið frá og könnuð. Eftir að greiningin hefur leitt í ljós að ekki hægt að laga hana nema að skipta um stykki sem erfitt er að fá svo seint um nótt er hætt við viðgerðina og gengið frá lampanum í fyrra horf. Peran er sett á sinn stað hrakfallalaust. En þegar röðin er komin að glergaurnum kemur svo hár hvellur að rúðan skelfur og allt ljós hverfur í byggingunni. „Er allt í lagi með þig Rúnar?“ Spyr Skúli. En Rúnar getur engu svarað þar sem hann liggur í krampa, þesskonar krampa er hlátur kann að valda. Nokkrar mínútur líða þar til ljósið birtist á ný og þá sést brunablettur á málningunni þar sem lampinn var fyrir þetta skelfilega atvik og hola í vegnum á stærð við lítinn handbolta.“
Engum varð þó meint af þessum bakhnykkjum og veiki hluti sögumanna er á batavegi.

Nýr mánuður hófst eftir að 1428 ár eru liðin síðan Gabríel engill byrjaði að bera orð Guðs til Múhameðs spámans. Þessi mánuður er nefndur Ramadan og venjan er að allir heilbrigðir múslimar fasti þennan mánuð. Um kvöldmatarleitið sáu sögumenn eitthvað sem þeir höfðu aldrei búist við að sjá í höfuðborg Marakkó. Göturnar voru tómar en þegar kvölda tók trylltust götur Rabat sem aldrei fyrr. Fyrr þennan dag höfðu sögumenn farið í misheppnaða brimbrettaferð til Kenitru og daginn þar áður var farið í misheppnaða bíóferð. Ramadan setur svo sannarlega króka á vegi manns.

Ekki er þó ætlunin að enda þennan pistill án þess að segja dálítið um Rómversku rústirnar í Volubilis og heilögu borgina Mouley Idriss. Á meðan Skúli lá lasinn á hótelinu í Meknés tók komst Rúnar að því að margir ofgreiða fyrir ferð á fyrrnefnda staði. Leigubílsstjórar hrúguðust að honum og buðu 3ja tíma sérferðir til þessara tveggja borga á aðeins 350 dírham. Í Volubilis þyrfti svo að greiða 10dh. í aðgangseyri og 120dh. fyrir leiðsögumann. Alls 480 dírham fyrir ferðina (3840kr.). Þess í stað borgaði sögumaður 10dh. í grand taxa (lýsingu á grand taxa er að finna í fyrsta pistli) til Mouley Idriss. Sú borg var byggð af fyrsta konungi Marakkó sem var uppi, var sögumanni tjáð, á 8. öld. Þegar þangað var komið í mannkynssögunni voru flestir Rómverjar farnir burt frá Norður-Afríku, enda Rómaveldi hrunið. En einhverjir voru enn eftir í Volubilis, en þeir hurfu þegar Arabarnir komu. Ferð með taxa kostaði svo 30dh. frá Mouley Idriss til Volubilis. Á gullöld Volubilis bjuggu þarna um 20.000 manns, bæði Berberar og Rómverjar, lífsviðurværi íbúanna virðist hafa verið útflutningur á ólífuolíu til Róm. Þrátt fyrir að borgin hafi verið notuð sem grjótnáma til að byggja upp nálægar Arababorgir og þrátt fyrir þá staðreynd að jarðskjálfti fór mjög illa með rústirnar á 18. öld, þá er borgin ótrúlega heilleg á að líta. Enn má sjá mósaíkið á gólfunum eins og það var lagt í gær og frá Volubilis er Mouley Idriss ótrúlega sérstök viðsjónar. Hún byggist efst uppi á bröttum hólum og má helst líkja henni við kamelhnúa.

Nú liggur leiðinn til Casablanca, þaðan sem við fljúgum til Kúbu. Að öllum líkindum verður næsti pistill skrifaður þaðan. Það er að segja ef Castró hleypir okkur inn í landið.

Insha’llaah Rúnar Berg og Skúli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024