Puttalingarnir: Perú - Puno til Nasca
Núna erum við frændur komnir úr jólafríinu og byrjaðir að ferðast og njóta Perú eins og fyrr. Á milli jóla og nýárs, þegar þið heima unnuð ykkar tvo daga og láguð svo upp í sófa að spá í jólagjöfunum, skoðuðum við frændurnir það sem Titicacavatn er frægast fyrir. Það ku vera hinar fljótandi Uroseyjur. Semsagt maður siglir í gegnum gróður, fram hjá stráköggli og sér svo manngerða hluti úr stráum, og þá erum við að tala um hús, skip og náttúrulega heilu eyjarnar, allt búið til af mönnum. Maður hugsar með sér hvílík vinna fari í að vefja sér svona eitt stykki eyju. Maður veltir líka fyrir sér hvernig fólkið lifir á þessum eyjum, hvað það borðar og við hvað það vinnur, því eina svarið sem maður finnur er fiskur. Sagan segir að þegar Inkarnir sigruðu Titicacavatn og skattlögðu íbúana, þá sáu þeir hvað íbúarnir voru fátækir að þeim nægði að borga skít á priki í skatta.
Til að njóta okkur sem best, og líka til að hafa góða sögu að segja, gistum við eina nótt í strákofa einum á stærstu eyjunni. Málið var bara það að eyjurnar eru kannski áhugaverðar en ekki eru þær skemmtilegar og tuttugu mínútur ættu að nægja hverjum og einum á þeim. Við vorum um 15 klukkustundir sem þýddi 880 mínútur þar sem okkur drepleiddist í þeim nýstingskulda sem fylgir því að vera uppi í 3800 metra hæð.
Næst var það Arequipa (ennþá í Perú). Þessi 750þús. manna borg er í örlítið kristilegri hæð en við vorum búnir að venjast uppi á Andesfjöllunum, eða 2335 metrum yfir sjávarmáli. Nafnið á þessari höfuðborg útivistar í Perú myndi íslenskast sem „Stöldrum við hérna“ á Inkamálinu Quechua. Þarna geta menn farið í hvers konar fjallgöngur, flúðasiglingar, reiðhjólatúra, hópreiðtúra, klettaklifur, ísklifur eða bara hvað sem hinum meðal björgunarsveitamanni dreymir um yfir daginn. Það voru nú samt áramót við skiluðum okkur þangað og við vorum með eitthvað annað á prjónunum en að frjósa á einhverjum jökli yfir þessi tímamót.
Hótelstjórinn var svo elskulegur að leyfa okkur að nota hóteltölvuna til að horfa á Skaupið. Með gamlárssteikina í maganum (sem var lítið annað en kjúklingabringur í Tilda sveppasósu) settum við Ritzkex í skál með vínberjum og opnuðum okkur bjór á meðan Skaupið var í gangi. Þetta var næstum eins og að halda upp á áramótin heima. Nema bara að eftir Skaupið leið aðeins lengri tími þangað til við gátum byrjað að skjóta upp. Svona svolítið óþægilegur tími því venjulega er þessi hálftími milli Skaups og áramóta vandræðaleg bið það sem maður hefur ekkert að gera. Núna voru stundirnar fjórar.
Við frændurnir vorum fyrir framan kirkjuklukkuna á stóra Plaza de armas í Arequipa, Perú, með stjörnuljósin okkar og kampavínsflösku tilbúnir að skála fyrir nýja árinu. Perúbúar eru ekki eins áræðnir og við Íslendingar með flugeldana sína, þeir bíða með að kveikja í þar til klukkan slær tólf. Og það líður svo ekki sekúndubrot milli þess sem kirkjan klingir og þess sem 1000 litlir kínverjar og púðurkellingar springa samtímis. Þetta er heldur ekkert fansí með stórar tertur og tívolíbombur hérna í Perú. Guði sé lof fyrir það því fólki er alveg sama hvar þeir sprengja flugeldana sína hérna í Perú. Höggbylgjurnar frá vítunum köstuðu manni til og frá milli þess sem þau sprungu í metra fjarlægð. Venjan er nefnilega að sprengja sprengjurnar sínar bara einhversstaðar hér í Perú yfir áramótin, sama hvort það sé í mannþröngu torgi. Og sprengjurnar voru þarna í þúsundatali sem sprungu, misstórar, við fæturna manns. Þær sprengjur sem fóru upp voru ekkert að fara mikið hærra en kannski 2 metra upp í loftið áður en þær köstuðu glóðunum yfir mannhafið með tilheyrandi öskrum. Við hættum að telja hversu oft við gripum andann á lofti slíkt var brjálæðið. Það sem gerðist svo seinna um þessa nýársnótt er einungis okkar að vita en það getum við sagt að hún innihélt mikið Pisco (þjóðaráfengi Perú), salsa og logandi kokteila.
Ég stekk yfir 1. dag nýárs því, eins og hvar sem er í heiminum, er þetta viðburðalaus dagur með öllu. 2. janúar litum við frændur hins vegar á það safn sem inniheldur ísfrúnna Juanitu, sem fannst uppá einu fjalli hér í grenndinni á miðjum 10. áratugnum þar sem henni hafði verið fórnað 500 árum áður af Inkunum. Juanita fór hins vegar í varðveislu 31. desember síðastliðin svo við rétt misstum af henni. Við fengum nú samt að sjá aðra fórn. Sú ber nafnið Sarita, 17 ára gömul þegar hún var gefin guðunum svo þjóð hennar færi vel í þeim hörmungum sem steðjuðu að henni. Inkarnir trúðu því nefnilega að fjöllin væru guðdómleg. Og þegar fjöllin sendu þeim eitthvað illt, eins og eldgos eða óvinaher, þá reyndu þeir að seðja þá með fórnum. Þessar fórnir innihéldu marga gersemi, gull og postulín en líka eitt ungmenni sem gekk ásamt prestum upp þessi illkleyfu fjöll þar sem það mætti örlögum sínum. Uppi í þessari hæð er kuldinn svo mikill að líkami þessara fórnalamba hefur varðveist allt til dagsins í dag og er nú til sýnis í safni fyrir forvitna að skoða. Þó ég (Rúnar Berg) verð að segja fyrir mitt leyti að mér engan vegin eins og hún Sarita hafi verið einhver safngripur, heldur leið mér eins og ég væri að horfa á lík, manneskju sem áður lifði mögulega hamingjusamlegu lífi.
Ásamt Miklagljúfrinu í Bandaríkjunum og Cotahuasigljúfrinu nokkrum kílómetrum héðan, er Colcagljúfrið í Perú það stærsta í heimi með yfir 1200 metra frá brún að botni þar sem það er dýpst. Þangað skruppum við, stöldruðum aðeins við í 2 nætur og fórum svo með þessari fimm tíma rútu til aftur til Arequipa. Þess á milli máttum við nú varla annað en að fá okkur eina létta gönguferð niður á botn og upp aftur. Þá leið sem við fórum var þó ekki nema 1000 metrar dýpi sem þýddi 3 tíma gangur niður og um 4 stundir upp. Þegar svo annar helmingurinn vaknaði til að gera sig til í gönguna um morguninn (Rúnar Berg) var hann eitthvað skrítinn í maganum. Iss, smá matareitrun eða bara örlítil háhæðaveiki, ekkert sem stoppar mann. Svo þegar það er lagt af stað kemur í ljós að maðurinn er fárveikur með magapínu, hita, höfuðverk, niðurgang og það eina sem kemur í veg fyrir uppköst er afneitunin ein. Maður er þó kominn alla leið að þessu stórmerkilega gljúfri og maður er ekkert að fara þaðan án þess að skoða það almennilega. Svo gangan heldur áfram. Við komumst með miklum erfiðleikum alla leið niður á stað sem heitir Oasis, eða Lynd, því þarna er kristaltær blá lynd með pálmatrjám, grænum gresjum og öllu tilheyrandi þrátt fyrir að vera í miðri eyðimörk. Þarna var tekin góð hvíld svo veikir menn gætu jafnað sig. Við vorum jú komnir alla leið niður, vondu fréttirnar voru bara þær að það þýddi að við ættum eftir að fara alla leið upp aftur og veiki maðurinn var bara veikari nú en áður. Þarna dugði ekkert að gefast upp og upp þurftum við að komast ef við vildum ekki þurfa að sofa á lúsugum dýnum í niðurbrotnum kofa niðri í gljúfrinu eða í einhverjum helli á leiðinni upp. Og með þrjósku, þori og þvílíkri einbeitningu tókst veika manninum loksins að komast upp í þægilegt hótelherbergi með heitu hunangi, einkabaði, þægilegum dýnum og fjórum lögum af teppi til að halda sér heitum. „Þetta er það erfiðasta sem ég hef nokkurtíman gert.“
Veikindin voru kláruð við gljúfrið á einni nóttu og næsta dag var áætluð 17 tíma rútuferð til Nasca, með smá stoppi aftur í Arequipa. Ef, hins vegar, Perúbúi segir þér að eitthvað verði tilbúið klukkan níu um kvöldið, þvottur til dæmis, segir hann þér um kvöldið að það verði tilbúið klukkan sjö í fyrramálið. Klukkan sjö segir hann svo að það verði tilbúið eftir hálftíma. Hálftími þýðir svo 2 tímar á perúskum tíma. Þetta þýddi að við vorum ekki tilbúnir til að fara til Arequipa fyrr en klukkan tíu, þrem tímum á eftir áætlun. Við stukkum því upp í rútuna og spurðum rútubílstjórann hvenær hún legði af stað. „Klukkan 11,“ svarar hann. Klukkan 12 var svo rútan orðin full af farþegum og bensíni og ekki mínútunni fyrr lögðum við af stað, 5 tímum á eftir áætlun. Við komumst þá ekki eins langt og við ætluðum og þurftum að gista í Arequipa fyrir vikið. Frá Arequipa til Nasca (sem er frægt fyrir sínar línur) eru 12 tímar með rútu, sem þýðir 2 tímar í að bíða eftir að rútan leggur af stað, 1 tími í að bíða einhverstaðar á miðri leið og 9 tíma akstur. Það var því ekki mikill tími til að sníkja á þrettándanum hjá okkur þetta árið.
Strax um morguninn fengum við þau forréttindi að fá að fljúga yfir Nascalínurnar frægu. Þau forréttindi eru auðfengin ef maður borgar rétt verð fyrir. Í okkar tilfelli voru það 40 bandaríkjadalir (í Suður- og Mið-Ameríku er venjan að leggja allar ferðir fyrir í dölum og stundum vilja þeir ekki sjá sinn eigin gjaldmiðil) en þetta verð getur farið upp í 80 dali í júlí eða ágúst. Línurnar eru svo sannarlega dularfullar, þær eru til stórar og smáar, eru af mönnum, dýrum eða hverju sem er en flestar eiga þær það sameiginlegt að vera ein samfeld lína, gerð með því að færa stóra steina burt, sem ekki er ekki hægt að sjá neitt út úr nema úr lofti. Kenningarnar um línurnar eru mýmargar. Sú kenning sem er þó ofaná er sú að línurnar hafi verið búnar til af Nascaindíánunum (árið 500 – 800 eftir krist) til að varðveita stjörnudagatal. Þó eru til kenningar um að þarna hafi verið geimverur að verki eða jafnvel að æðsti prestur Nascana hafi haft aðgang að loftbelgi og honum hafi þótt gaman að fljúga þarna yfir í frístundum.
Að flugferðinni lokinni fórum við næst á sandbretti á hæstu sandöldu heims. Cerro Blanco heitir hún og er 2090 metrum yfir sjávarmáli. Jafn undarlegt þó og það má virðast var svarta þoka í eyðimörkinni. Svo þétt að það var varla að maður sá handa sinni skil. Leiðsögumaðurinn sagðist aldrei hafa séð neitt slíkt áður. Við þurftum að ganga 3 tíma upp á toppinn áður en við gátum rennt okkur niður og sú leið upp var ótrúlega margþrungin og jafnvel óhugnanleg þar sem maður stóð uppi á sandöldunni og horfði niður bratta brekku sem leiddi ekkert, þess vegna niður í víti hvað við vissum. Þegar það var svo komið að því að renna sér niður mjökuðust brettin ekki áfram sökum þess hve skringilega sandurinn lætur í þokunni. Maður þurfti því að sitja á brettinu alla leiðina til að komast eitthvað áleiðis.
Nú erum við hins vegar komnir niður af öldunni heilir á húfi verandi búnir að heimsækja stærsta frumskóg heims, með hæstu stöðuvötnum heims, með, best varðveittu múmíu heims, með dýpstu gljúfrum heims, með dularfyllstu línum heims og hæstu sandöldu í heimi. Perú er svo sannarlega eitt mesta land í heimi.