Puttalingarnir: Líður að ferðalokum
Ég hef verið að gramsa í þessum örlitla fataskáp, eða poka öllu heldur, sem ég hef borið síðustu 9 mánuðina. Af forvitni ákvað ég að skoða litla hvíta miðann á dótinu mínu. Sá þar að flestar eignir mínar eru „made in Vietnam“, þar með talinn 16.000 króna gore-tex regngalli keyptur í Útilíf áður en ég fór út. Og þar sem allt sem ég á er víetnamskt að uppruna fannst mér við hæfi að endurnýja fataskápinn (eða pokann) með ósviknum víetnömskum gæðavörum svona áður en ég myndi snúa heim sem tilvonandi námsmaður hvers litla orlof eru einu peningarnir sem hann á eftir. Ég lét sérsníða á mig glæný jakkaföt úr gæðaefni með vesti, silkibindi og skyrtu og auka buxur fyrir sama pening og made in Vietnam-regnstakkinn sem ég keypti í Útilíf. Auk þess keypti ég annað silkibindi á rúmar 300 kr. ósviknar Levis gallabuxur á rúmar 700 krónur, Lacoste pólóbol á rúmar 300, það besta, ekta Adidas sólgleraugu (made in USA) á 90 kall og að lokum lét sérsauma á mig eftirlíkingu af skóm sem myndu kosta svona 9-10 kall heima, skó sem væru þá saumaðir eftir staðli hérna í Víetnam hvort eð er, nema ég borgaði rúmar 2000 krónur fyrir og fékk þá afhenta næsta dag. Ég hef aldrei átt skó sem passa svona vel á mig og svo er mjög gott að losna undan léttgönguskónum sem ég keypti á 12.000 kall í Útilíf (Made in Vietnam)sem hafa verið að slitna jafnt og þétt og bera viðeigandi táfýlu sem á það til að myndast eftir 9 mánaða notkun.
Við þetta er pokinn minn orðinn svo gott sem troðinn. Uppgötvunin um að ég sé að fara heim eftir minna en viku fékk mig til að hala inn örfáum minjagripum og hlutum sem ég veit að koma sér vel heima en kosta einn áttunda hérna, til dæmis lítinn marmara-Búdda á 70 krónur. Ég átti öll þessi kaup í heimsminjabænum Hoi An sem hefur einnig verið ánefndur: –Staðurinn sem þú lætur gera á þig helling af fötum– því það kostar ekki neitt þarna. Auk þess að innihalda einstaka blöndu af víetnömskum, kínverskum, japönskum og evrópskum arkitektúr frá allt að 16. öld, sem fékk UNESCO til að setja bæinn á heimsminjaskrá, þá inniheldur bærinn tugi, ef ekki hundruð, klæðskerabúðir sem hanna flest allt, eða kópera öllu heldur, eftir óskum túristans.
Það er svo önnur stétt sem er reiðubúinn að fara mjög ítarlega eftir óskum túristans sem hefur blossað upp hérna í Víetnam. Stétt sem kallar sig upp á enskuna -easy rider- og ég kýs að íslenska sem léttreiðknapar. Þetta eru mótorknapar sem aka um borgir og bæi í leit af túristum til að hoppa upp á bak með sér og keyra þá um sveitir og stórborgir frá einum degi og upp í margar vikur. Ég hafði nýsloppið úr 12 tíma rútunni frá Hanoi til heimsminjabæjarins Hue þegar léttreiðknapi að nafni Hieu kom eins og riddari ríðandi á mótorhjóli og reddaði mér $5 gistingu. Hann kynnti mér fyrir dagsferðum sem hann stæði fyrir svo maður gæti séð helstu merkisstaði þessarar gömlu höfuðborgar (sem fékk útnefninguna frá UNESCO vegna leifa frá Nguyen-tímabilinu (1802-1945) þar sem stjórnvöld þess tíma settu Hue sem höfuðborg Víetnam þess tíma og skildu eftir sig fullt af mögnuðum stórvirkjum) og eftir að hafa séð að Íslendingar höfðu mælt með honum á móðurmálinu okkar í bók sem hann bar þá ákvað ég að slá til í einn stuttan reiðtúr. Hieu ók mig milli fjölda virkja, grafreita og pagóða. Fékk að sjá hvernig víetnamskir munkar biðja og bandarísk skotvirki frá 7. áratug síðustu aldar sem innihéldu einnig magnað útsýni yfir Ilmánna svonefndu til að byrja með. Hieu sagði mér að Bandaríkjamenn hafi skemmt ilminn sem fyrrnefnd á dregur nafnið sitt af með sprengjunum sínum í bandaríska stríðinu. Hieu ók mig líka að grafreitnum fræga sem inniheldur grafir helstu keisara Nguyen-tímabilsins þar sem gröf Tu Duc er hvað frægust. Hieu sagði mér að Tu Duc hafi verið frægur fyrir að hafa samið (eða sagst hafa samið) yfir 4000 ljóð en hann hefði verið skelfilegur keisari og fullt af fólki hefði dáið vegna skipana hans um að taka það af lífi fyrir minnstu sakir. Undir lok dagsins ók Hieu mig um sveitirnar í kring um Hue þar sem bæjarbúar voru á fullu að uppskera hrísgrjón. Af einhverjum ástæðum fannst þeim mjög eðlilegt að stafla grösunum á miðjan vegin (sem var svo mjór að hann myndi varla flokkast undir hjólreiðastíg heima) en þetta var allt mjög sérstakt. Hieu endaði svo reiðtúrinn á því að sýna mér „japanska“ brú frá 18. öld, sem er í raun víetnömsk kópering af frægri alvöru japanskt hannaðri brú í Hoi An. En eins og Víetnömum einum sæmir var eftirlíkingin hreint ekki svo slæm og sýnir það og sannar að í yfir 200 ár hafa Víetnamar alltaf verið bestir í eftirlíkingunum. Það var nú eitt í viðbót sem Hieu sýndi mér áður en hann fór með mig í sveitirnar í kring, að frátöldu sjálfu borgarvirkinu sem Hieu benti mér á að hefði verið að mestu sprengt í bandaríska stríðinu, en það var 400 ára gömul pagóða sem komst í heimspressuna 1963 þegar munkur frá pagóðunni, Thich Quang Duc, ók á blárri Austin bifreið frá Hue alla leið til Saigon, settist þar á götuna í lótusstellingunni, hellti yfir sig bensíni og brenndi sig lifandi í mótmælaskini fyrir harðræði Diem, sem var þáverandi forseti Suður-Víetnam og er bendlaður við dauða yfir 50 þús. manna. Munkurinn lést við mótmælin og er hann grafin undir stúpu í hofinu auk þess sem Austin-bifreiðin og nokkrar myndir af atburðinum eru til sýnis í hofinu. Meðal annars mynd af hjartanu hans sem Hieu sagði mér að hafði sloppið óskemmt frá brunanum. Það þarf greinilega meira en smá bruna til að gott og hugrakt hjarta eins og hjarta Thich Quang Duc beri skaða af.
Eftir þennan dagreiðtúr með mótorknapanum Hieu tókst honum að sannfæra mig að kannski væri sniðugara að fara til Hoi An aftan á hjólinu hans heldur en í rútu. Þannig varð þessi dagreiðtúr að þriggja daga túr. Við lögðum af stað snemma um morguninn eftir góða núðlusúpu með tófú í morgunmat á aðeins 36 krónur (í Víetnam getur maður víða fundið heitar máltíðir á undir 20 krónum, fullnægjandi 4ra rétta grænmetismáltíðir á 36 krónur og kalda drykki á rétt yfir tíkall en oftast fylgir íste frítt með hverjum máltíðum). Við komum til Hoi An rétt áður en það byrjaði að kvölda en á leiðinni stoppuðum við nokkrum sinnum til að sjá til dæmis magnaða paradísaströnd sem var alveg tóm, bandarísk og frönsk skotvirki, fílalaug og marmarafjall með urmul af hellum og tveimur pagóðum uppi. Marmarafjallið fannst mér hvað merkilegast af deginum þar sem hellarnir innihéldu hver sín Búddalíkneski sem hafði verið skorin úr hellisveggnum, einn þeirra ábyggilega 10 metrar á hæð. Mjög merkilegt að sjá þetta inni í svaka víðum hellissalnum þar sem eina lýsingin kom í gegnum örlítið gat á toppnum. Hieu sagðist halda að um 20 munkar lifðu á fjallinu í þeim tveim pagóðum sem þarna eru. Hieu náði að redda mér $5 gistingu í Hoi An, þó hann hefði þurft að leita dálítið fyrst því gistingar eru almennt ekki mjög ódýrar í Víetnam, þá sérstaklega ekki á túristastöðum eins og Hoi An. Næsta morgun var Hieu svo mættur fyrir utan hótelið klukkan 5:30 um morguninn til að skutla mér að Cham-rústunum í My Son sem er 40 kílómetrum frá Hoi An. En rústirnar eru víst nokkuð vinsælar meðal ferðamanna (enda á heimsminjaskrá UNESCO) svo það er vissara að mæta snemma bæði til að vera á undan túristaskaranum og hitanum. Rústirnar voru svona eins og við var að búast af 9. alda hindúahofum menningar sem síðar feldi Khmer-veldið (sem byggði Angkor) og átti svo eftir að vera hrakin til Kambódíu af Víetnömum og snúast þar til íslam. Þessar rústir mörkuðu svo endirinn á þriggja daga reiðtúr með léttreiðknapanum Hieu hvers helsti kostur var að vita alltaf hvernig maður átti að fara sem ódýrast að hlutunum. Hann ók mig til baka reynandi að sannfæra mig um að fara með honum í 6 daga til viðbótar til Da Lat nær Ho Chi Minh borginni en ég ákvað frekar að spara með því að taka næturrútuna til Nha Trang 3 dögum seinna og eiða sparnaðinum í fatakaup í Hoi An seinna sama dag.
Ég kom semsagt með mótorhjóli frá Hue til Hoi An og með rútu frá Hanoi til Hue. En áður en ég fór í rútuna til Hue þá pantaði ég mér þriggja daga pakka til bæjar sem heitir Sa Pa á hálendinu við kínversku landamærin. Sa Pa er þekktur fyrir minnihlutahópa í nálgum dölum af öðrum kynstofnum en þeim víetnamska en eiga það sameiginlegt að koma öll frá Kína á mismunandi tímabili síðustu 2000 árin. Víetnam hefur þá sérstöðu að það er í raun ódýrara að kaupa sér pakka en að ferðast sjálfstætt, nema gallinn er bara sá að maður þarf þá að ferðast með hópi og gera allt eftir fyrir fram ákveðnu plani. Ég lét mig hafa það að þessu sinni enda alltaf að spara og keypti semsagt pakka sem innihélt lestarferð til og frá Sa Pa, gistingu á flottasta hóteli sem ég hef gist á, mat, tvær leiðsagðar gönguferðir samtals einungis 20 kílómetra og heimagistingu í þorpi í miðri seinni gönguferðinni. Þetta var allt voðalega auðvelt og smá túristalegt, þó ekki jafn slæmt og gangan sem ég fór í frá Chieng Mai í norður-Tælandi. Veðrið þótti mér merkilegast þarna en það var eiginlega bara ískalt þarna þegar það var alskýjað. Við fórum í fyrstu gönguna strax þegar við komum úr lestinni um morguninn. Fengum að sjá þorp, hrísgrjónaakra og annað slíkt. Þessir minnihlutahópar þarna virðast halda vel í menningarnar sínar en þau voru flest klædd sínum hefðbundnu skrúðum og töluðu flest sín eigin tungumál þrátt fyrir að nær öll samskipti og kennsla barnanna fari fram á víetnömsku. Þorpin sem við sáum voru samt hefðbundin bóndabýli sem maður hefur séð svo oft áður, lítið um rafmagn og allt voða gamaldags svona. Svo var gengið aftur upp á hótel og tekið heita sturtu. Ég var alveg búinn að gleyma notalegheitunum sem fylgja heitri sturtu. Ein stelpa sem var með mér í göngunni sagði mér svo frá því hvernig hún hafði séð hund vera slátrað seinna um daginn. Hún sagði mér hvernig hún hafi séð hund fastann með höfuðið í rimlagirðingu og svo hvernig kona hafi komið út með barefli. Af skiljanlegum ástæðum leit hún undan og svo hafi hún heyrt mikið væl í hundinum sem svo hætti. Líklegast hefur svo verið snætt á hundinum seinna sama dag en eins og vitað er er allt borðað í Víetnam. Framandi matur eins og hundur, snákur eða skjaldbaka þykir þó svaka fínn matur og menn þurfa ekki að óttast að borða slíkt óviljandi þar sem maður myndi sjá það á formlegheitunum eða á verðinu.
Seinni tveir dagar pakkans voru svipaðir þeim fyrsta. Við gengum um, sáum hrísgrjónaakra og þorp. Nema í þessari seinni gönguferð var gist í heimagistingu í einu þorpinu. Það var samt ekki jafn spennandi og það hljómar þar sem það var risa-stór vist með tveim öðrum hópum þar inni. Svo var farið inn á hótel og beðið til kvölds þegar lestin lagði af stað aftur til Hanoi og undir morgun fjórða dags var ég kominn í þriðja sinn í þessa höfuðborg Víetnam.
Núna er ég hins vegar í bæ að nafni Van Gia sem er ágætlega nálægt Ho Chi Minh borginni í sunnanverðu landinu. Ég frétti að Ingi Björn, annar Grindvíkingur, væri hérna hjá frænda sínum að nafni Björn. Ég hafði samband við Inga Björn og fékk að dvelja hjá frænda hans í þessum bæ. Van Gia sér ekki mikið af vestrænu fólki. Það er greinilegt á fólkinu sem horfir á mann og börnunum sem hlaupa á eftir manni. En bærinn er fallegur. Alveg við sjóinn með eyjum og fjöllum í kringum sig auk hellings af bátum og húsum á fljótandi fiskeldi. En hérna verð ég þangað til á laugardaginn, fer þá til Ho Chi Minh borgarinnar þaðan sem ég flýg til Lundúna með tveggja tíma stoppi í Hong Kong á mánudaginn næstkomandi.
Mynd/Rúnar ásamt ferðafélögum sínum á dögunum