Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Puttalingarnir: León til Panama
Þriðjudagur 11. desember 2007 kl. 12:42

Puttalingarnir: León til Panama

Rúnar:
Skúli er enn í burtu, klukkan er hálf sjö fimmtudaginn 29. nóvember og ég er að bíða eftir bát sem ferjar mig yfir stærsta stöðuvatn Mið-Ameríku eða Níkaragvavatn. Bátsferðin mun taka 10 tíma og að henni lokinni mun ég kveðja tvær aukapersónur í þessum leiðara sem ekki hafa verið kynntar áður. Aukapersónurnar nefnast annars vegar Mark og hins vegar grænmetisætan (ekki sú fyrsta og ekki sú seinasta sem ég hitti) Will, eða Bretarnir eins og ég hef verið að kalla þá. Í fjarveru Skúla hef ég ferðast með þeim síðan í León. Okkar fyrsta verkefni var að koma okkur úr León til Granada í gegnum höfuðborgina Managua. Ekki mjög erfitt það. Næsta verkefnið var að koma okkur að áður kynntu Níkaragvavatni og sigla um til að skoða eyjarnar þar m.a. Apaey þar sem einhverjum vitleysingjum datt í hug að fanga apa á til að sýna túristum. Ég og grænmetisætan Will réttlættum skemmtun okkar á þessum öpum með því að trúa því innst í hjarta okkar að þeim hafi verið bjargað úr hendi veiðiþjófa sem ætluðu að selja þá til tilraunastofu ónafngreinds kanadísks álfyrirtækis, svo og skoðuðum við tvær eyjar með villum ríkasta manns Níkaragva, sá kauði á víst eðalrommfyrirtækið Flor de Caña. Við heimkomu kynntumst við þrír kanastelpu að nafni Celeste og tríóið varð kvartett. Næst skoðuðum við eldfjall að nafni Masaya sem er reyndar þekktara fyrir nærliggjandi bæ sem hefur frægasta handiðnaðarmarkað Níkaragva. Reyndar var hvorugt spennandi nema þá ein hengirúmskaup (sem ég álít lífsnauðsyn) og sú staðreynd að í virka gíg Masaya eldfjallsins var fólki með "rangar" stjórnmálaskoðanir varpað niður úr þyrlu fyrir ófáum árum síðan, maður gat reyndar ekki séð neinar beinagrindur en ég efa það ekki að slíkt væri hægt ef ekki væri fyrir eiturgufunum sem stíga úr gígnum. Risastórt gígvatn að nafni Apoyo var síðast á dagskránni áður en við fjögur plús norsk stelpa að nafni Ellen ætluðum til Omitepeeyju (stærstu eyju Níkaragvavatns sem samanstendur af tveimur eldfjöllum sem bæði ná yfir 1000 m.y.s.). Ellen hafði ég reyndar hitt þrisvar áður og átti samt erfitt með að þekkja hana í fjórða skiptið (svo skelfilegur er ég með andlit og nöfn). Við Mark sáum tvo kajaka við höfn tilbúna til afnota og auðvitað brúkuðum við þá. Fórum þvert yfir gígvatnið, klukkutíma hvora leið, vissum það náttúrulega ekki þá að gígvatnið væri svona stórt. En tilfinningin var æði, við höfðum yfir kílómetra radíus fyrir okkur eina á spegilsléttu vatninu með frumskóginn í allar áttir þar sem fuglar sungu og apar öskruðu. Tvímælalaust tilefni til gæsahúðar. Það var líka fleki nær landi þar sem við öll lágum saman í sólbaði með romm og ananas þar til sólin settist. Daginn eftir kom svo ekkert annað til greina en að taka eina blöndu af pramma og tjikkenböss yfir á fyrrnefnda Omitepeeyju.

San José:
Hinn meðal bakpokalingur sem kemur til San José, Kostaríka segist annaðhvort hafa orðið þunglyndur í borginni eða hissa. Hinir tveir fræknu frændur voru sammála um að vera hluti af þeim seinni. Borgin lítur út eins og flestir hafa ímyndað sér New York. Miðbærinn ku vera allur út í fjögra til sex hæða glerbyggingum sem bæði skyggja á sólina og láta mann halda að borgin sé 20 ára gömul en ekki 200. Stórar og breiðar umferðagötur aðskilja hverfin í sundur og íbúarnir ganga um göturnar talandi í gemsana sína, hlustandi á tónhlöðurnar sínar eða horfandi á fæturna sínar algjörlega úr sambandi við umheiminn í kringum sig. Kannski eins og Reykjavíkurborg er á leiðinni að verða. En hinir tveir fræknu frændur litu á San José sem einhverskonar vestrænt frí frá þróunarheiminum. Þar sem unaður á borð við heitar sturtur, nútímalist og rokktónlist var nýttur til hins ýtrasta eftir tvo mánuði í kaldri sturtu, horfandi á fjöldaframleitt túristalistarusl og reggítón sem hafði verið fast á heilanum síðan forever. San José hefur það líka framyfir borgirnar í nágrannaríkjunum að þar er maður ekki stöðugt angraður af öskrandi tjikkenbössaðstoðar- og snakk- og vítamínsölumönnum, fólk þrefaldar ekki verðið á söluvarningi þegar hvítur maður labbar framhjá og svo getur maður líka gengið öruggur frá brjáluðum bílstjórum um upplýstar gangbrautir. Gallinn er bara sá að í þessum vestræna hugsunarhætti er fólk ekkert að eyða óþarfa orku í að hjálpa öðrum. Í Níkaragva er fólk ekki lengi að koma til að bjóða fram aðstoð ef gringói virðist áttavilltur en í San José yrða þeir ekki á mann þó maður standi klukkustundum saman í rangri röð.

Leiðirnar til San José eru margar og misspenandi. Hinir tveir fræknu frændur fóru akkúrat tvær misspennandi leiðir þangað. Eina frá fyrri stöðvum í San Juan del Sur með túristaböss, og aðra frá ferskvatns- eldfjallaeyjunni Omitepe með tjikkenbössbát og niður á með fljótabát. Skúli fór með fyrri kostinum og Rúnar þeim seinni. Erfiðasta skrefið var reyndar að yfirgefa síðarnefnt bú. En þegar það hafði tekist var Celeste kvödd því hún, eins og svo margir aðrir amerískir bakpokalingar, ætlaði heim um jólin. Rúnar og Bretarnir fóru þá þrír saman að höfninni þar sem þeir biðu eftir að bátur legði af stað klukkan 19 og myndi ekki koma til lands fyrr en 10 tímum seinna. Þeir voru mættir mörgum klukkustundum áður en báturinn lagði úr höfn, eða klukkan 13:00. En það gaf ekki tilefni til leiðinda því svæðið í kringum höfnina var krökkt af villtum frumskógi sem þeir nutu að skoða. Og þeir héldu sér inni í skóginum uns hópur 15-20 karlapa rak þá úr skóginum með þvílíkum öskrum. Við höfnina lentu þeir á tali við Þjóðverja sem bölvaði yfir því að hafa ekki verið á eynni síðasta sunnudag og fengið að sjá eldgosið. "Ha! Hvaða eldgos?" Spurðum við allir í kór. "Nú þessi eyja gaus síðasta sunnudag, vissuð þið það ekki? Það kom í fréttunum og allt." "Nei, við urðum ekki varir við neitt, svo virðist vera sem við höfum misst af eldgosi í eins tveggja kílómetra fjarlægð frá okkur. Hvernig fórum við að því?"

Rúnar:
Ferðin yfir vatnið var sú allra óþægilegasta. 10 tímar í sömu þrengslunum og maður er vanur í tjikkenbössunum. Þegar komið var í höfn í San Carlos voru ferðafélagar mínir síðustu 11 dagana kvaddir. Þungu fargi var af mér létt þegar póstþjónustan tók við jólagjöfunum frá mér til ástvina, vegabréfsstimpill var fenginn og svo stökk ég í pinkulítinn fljótabát sem ferjaði mig næstu tvo tímana niður á í gegnum þéttan skóg, framhjá vopnuðum landamæravörðum Níkaragva að hinu herlausa Kostaríka. Svo tók við fimm tíma rútuferð til San José, höfuðborg Kostaríka. Alls sautján tímar með miklum pásum þar sem beðið var eftir næsta faraskjót. Klukkan var 21:00 á föstudeginum þegar ég kom á hina alræmdu Kóka-kóla rútustöð í San José. Það þýddi tvennt. Ég var búinn að ferðast síðustu 26 tímana og það var myrkur og ég var á svæði sem bæði Biblían (Lónlí planet) og fólkið í rútunni hafði varið mig við að ferðast einsamall um nótt því þarna er fólk barið, stungið og/eða skotið í hausinn fyrir eignir sínar. Allir taxar sem ég stöðvaði bentu mér á að hótelið sem ég hafði ákveðið að fara á væri stutt í burtu og það tæki því ekki að keyra þangað svo ég ákvað að reyna á göngutæknina mína þar sem ég geng hratt og ákveðið í eina stefnu. Auðvitað fann ég ekki hótelið í fyrstu atrennu og horfði upp á róna og ungmenni í skopparafötum nálgast mig í bland við vændiskonur og hef sjaldan verið eins paranójaður. Borgin var sú skuggalegasta og kóka-kólahverfið var handan þess að vera vafasamt. En ég komst leiðar minnar án þess að vera rændur þar til 20m. frá hótelinu að tvær löggur stoppuðu mig og ásökuðu mig að bera eiturlyf. Það tók hálftíma leit til að sanna sakleysi mitt og þá var ég loksins, eftir 27 tíma, kominn í öruggt skjól í hótelinu.

"Það kostar svo sannarlega svita og blóð að fara þessa slóð til San José frá Omitepe."

Já, Omitepe. Hvílíkar minningar hef ég frá þessari eldfjalla- ferskvatnseyju. Kvartettinn sem kynntur var fyrir löngu í þessum sama leiðara dvöldum á lífræna bóndabænum í El Zopelote. Það var fínn staður. Reyndar var hann æðislegur. Hann var reyndar svo æðislegur að allir draumarnir sem ég og Mark höfðum látið okkur dreyma um að gera, hjólreiðatúr, sofa í hengirúmi einhversstaðar í frumskóginum, elda okkur fisk o.s.frv. fóru í súginn eftir að við festumst í þeirri hippasveitastemningu sem einkennir þennan bæ. Við náðum reyndar að klífa óvirka eldfjall eyjarinnar á sunnudeginum (á sama tíma og hitt fjallið gaus) áður en við festumst í kviksyndinu. En það eina sem gerði gönguna göngunnar virði var gangan sjálf. Uppi var ekkert að sjá fyrir þoku, sem er víst þarna allan ársin hring. Mitt plan hafði verið að fara til Kostaríka á mánudeginum en himneskar lífrænar landbúnaðarafurðir (þ.á.m. súkkulaði, kaffi, bananar, bakkelsi, marmelaði, granóla, hrísgrjónagrautur, romm og vindlatóbak) gerði það ómögulegt svo og allt hitt hippadæmið þar sem allir eru vinir, hanga saman, tala saman, drekka romm og gera ekkert annað þar til langt fram á nótt. Þetta gerði það að verkum að ég, Will, Mark og Celeste héngum saman með gott bros á milli varanna þar til á fimmtudeginum.

Skúli:
Eftir að hafa kvatt góðan vin minn Jakob sem ferðast hafði með mér non-stop í einhverja tvo mánuði hélt ég leiðar minnar til Panamaborgar í von um að hitta Rúnar Berg á ný. Rútuferðin tók ekki nema 15 klukkustundir sem var reyndar mjög þægileg. Reyndar var landamæravörðurinn með einhver leiðindi þar sem hann grandskoðaði vegabréfið mitt og hélt því svo fram að Ísland væri ekki til. Svo þurfti ég að fá lánaða 500 bandaríkjadali frá random gaur í rútunni til að sýna félaganum að ég hefði efni á að fara frá Panama. Klukkan fimm að morgni lenti ég á hosteli, tjékkaði mig inn og byrjaði að bíða eftir Rúnari sem ég átti von á að kæmi sama dag. Reyndar kom hann þremur dögum seinna og eyddi ég tíma mínum í að rölta um Panamaborg, versla nýja myndavél og bara hanga með fólkinu á hostelinu. Panamaborg er mjög svo nútímaleg borg með fjöldan allan af skýjakljúfum, McDonalds og Kenni frændi út um allt og risastór moll.

Þegar við frændurnir vorum loksins sameinaðir á nýjan leik héldum við um kvöldið í eitt af fjölmörgum spilavítum Panamaborgar og fórum beint í tuttugu-og-einn. Ég setti 50 bandaríkjadali undir en Rúnar 20 dollara og við ein góðtíðindi röltum við út úr húsinu brosandi tveimur mínútum seinna þar sem okkur var boðnar konur, eiturlyf og guð má vita hvað. Daginn eftir versluðum við flugmiða til Quito í Ekvador eftir að Rúnar hafði falsað nemendaskírteini með góðum árangri. Sama dag kíktum við svo á hinn víðfræga Panamaskurð sem er þessa dagana mikið túrista-attraksjón og fannst okkur frændunum þetta allt hálf-sillí þegar túristarnir klöppuðu fyrir bátsmönnunum sem sigldu framhjá á gígantíska fraktbátnum. Svo hafði fólk kost á því að syngja í gegnum hátalarakerfi og Rúnar fór með eitt af ljóðunum sínum við góðar undirtektir hinna túristanna. "Það er alltílæ að vera með fíflagang ef það fer ekki út í sprell." (Tvíhöfði, 2001 : lag 26)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024