Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Puttalingarnir: Huacachina-Lima
Miðvikudagur 16. janúar 2008 kl. 10:45

Puttalingarnir: Huacachina-Lima

„Þú ert plebbi... ef þú heilsar íslendingi í útlöndum sem þú þekkir ekki“ Jón Gnarr


Það kannast allir alvöru Íslendingar við spennuna sem fylgir því að hitta landa sína í útlöndum. Nú erum við frændur búnir að hitta fjóra landa okkar í Perú. Ótrúlegt að hitta einn, en fjóra? Frænkurnar Anna og Katrín frá Inkaslóðum eru farnar heim að öllum líkindum. En í Huacachina (pínkuponsulítill bær í kringum lind í eyðimörkinni sem má með réttu kalla þetta vin) voru aðrar tvær stelpur. Hildigunnur og Birna, hvers ævintýri er hægt að lesa um á http://blog.central.is/farfuglar , eru á leiðinni til Argentínu í gegnum alla þá staði sem frændur höfum nú þegar heimsótt síðastliðnar 3 vikur. Huacachina er draumur sandbrettafíkilsins þar sem sandöldurnar eru mýmargar í allar áttir frá bænum. Bara 200 metra gangur upp ómögulegan eyðimerkursandinn og þú getur rennt þér að vild, með það í huga að maður þarf að ganga upp aftur sem er hægara sagt en gert. Sandbretti var líka það eina sem við stunduðum þarna, ásamt hinum Íslendingunum. Þegar við vorum þó orðnir of þreyttir á að ganga alltaf upp þessar brekkur og rassinn of aumur til að þola annað fall var kominn tími til að kveðja hinar íslensku vinkonur okkar og feta okkur nær Líma. Ekki þó áður en við vorum búnir að skola sandinn úr öllum rifum með fínum sundsprett á hótelinu.

 

15. ágúst 2007: Mikill jarðskjálfti varð í Perú þennan dag þegar Nascaflekinn rakst undir Suður-Ameríkuflekann. Hann mældist 8 á Richterskvarðanum og urðu skemmdir mestar í borginni Ica og bænum Pisco. Skjálftinn er talinn hafa valdið yfir 500 dauðsföllum auk þess sem fjölmargir slöðusut og/eða misstu heimilið sitt.

Ofangreindur jarðskjálfti lagði gjörsamlega borgina Pisco í rúst. Það var svo gott sem ekkert eftir af miðbænum þegar við komum þangað 4 og hálfum mánuði eftir skjálftann, bara múrsteinar hér og þar og gólf þar sem hús stóðu einu sinni. Maður fékk allslæmt samviskubit að horfa upp á þetta vitandi að maður gæti hafa gefið til hjálparstarfs rétt eftir jarðskjálftann en ekki gert það af einhverjum ástæðum. Fólk býr svo bara í tjöldum eða í eiginlegum kofum gerðum úr fyrrverandi húsgögnum á miðri umferðaeyju. Þetta er eiginlega of þunglyndislegt umhverfi til að vera að greina of mikið frá því hér.

 

Ástæðan fyrir heimsókn okkar til Pisco var þó ekki að verða vitni að hversu samviskulaus móðir jörð getur verið, heldur er borgin eiginlega skyldustopp fyrir alla þá sem vilja skoða Ballestas-eyjurnar. Þessar hitabeltiseyjur má eiginlega líkja við samansafn af eldeyjum nokkrum gráðum sunnan miðbaug. Samkvæmt okkar heimildum er þetta næst þéttsetnasta svæði dýralífs í Suður-Ameríku næst á eftir Galapagos-eyjunum við Ekvador, sem gefur Ballestas-eyjunum kenninafnið Galapagos fátæka mannsins eða Litlu Galapagos þar sem Ballestas eru víst nákvæmlega eins nema bara á mun minni skala og albátrosinn hefur ekki bláar fætur hér. Þetta er víst alveg þokkalega vinsæll viðfangastaður túrista og við förum í torfum með bátum til að skoða hjarðirnar af selum, sæljónum, svartfuglum og mörgæsum. Mjög merkilegt það alltsaman.

 

Að skoðunarferðinni lokinni skall svo blákaldur raunveruleikinn í hausinn á okkur. Perú er búið. Það er ekkert eftir fyrir okkur að skoða eða upplifa sem við höfum færi á. Sem leiddi okkur til Líma á ný. Hringnum lokað. 36 dögum eftir að við fórum inn í landið á fáránlegan hátt í gegnum Amasónskógin og við erum enn ólöglegir í landinu. Við erum ekki ennþá komnir með inngöngustimpil. Okkur var tjáð að ef við værum heppnir gætum við sloppið með mútum en í versta falli yrðum við reknir heim til Íslands þar sem það er víst ólöglegt að vera inn í þessu landi án þess að vera með tilheyrandi stimpil í vegabréfinu sínu.

Svo við, blásaklausir Íslendingar sem allir hafa verið svo vondir við og neitað að gera okkur löglega, þurftum að redda þessum bobba sem við vorum komnir í. Ástæðan fyrir þessum háskaleik okkar var ekki einhver ævintýraþrá og uppreisnarárátta til að sýna hversu fáránleg uppfinning landamæri eru, heldur er þetta aðgerðarleysi útlendingaeftirlitsmanna að kenna sem neituðu hver á eftir öðrum að gefa okkur bölvaðan stimpilinn og víðsuðu okkur hvað eftir annað á annan stað því þeir nenntu, að öllum líkindum, ekki að redda þessu sjálfir. Í þetta sinn ætlaði þetta að vera eins. Señoran sagði okkur að okkar eini möguleiki væri að fara aftur til Ekvador, þaðan sem við komum inn í landið, og fá stimpilinn þar. Þegar við svo tjáðum henni með tárin í kverkunum að þeir hafa ekki stimpil þarna auk þess sem við ættum flug til Punta Arenas eftir miðnætti sama dag, sagði hún okkur bara að yfirgefa bygginguna. Við vissum alveg að þetta væri endastöðin, ef við fengjum ekki þennan eftirsóknaverða stimpil þá væri reisan svo gott sem búin og ef það er eitthvað sem við höfum lært hingað til í öllum þessum fjallgöngum og fleira er að uppgjöf er aldrei möguleiki. Grindavík náði ekki að halda sér í efstu deildinni í 12 ár með því að gefast upp. Þannig að nú var að duga eða drepast. Í þessari stöðu er líka mikilvægt að kunna á menn. Engan pirring því enginn vill hjálpa pirruðum einstaklingi. Og það sem við gerðum eftir að señoran bað okkur á braut var að halda ró okkar, halda kyrru fyrir, horfa til hennar og biðja fallega aftur og aftur um hjálp hennar en hún sussaði okkur niður í hvert skipti áður en við náðum að útskýra hvers vegna við værum í þessari stöðu. Það leið svona einn klukkutími og ótrúlega margar beiðnir frá señorunni að fara burt áður en hún loksins tók mál okkar til greina. Eftir á getum við sagt að hún var tekin á gamla góða brosa og horfa í augun sálfræðibragðinu því engin getur neitað brosandi manneskju sem horfir í augun á manni um neitt.  Sannleikinn er nú samt að hún áttaði sig á að við vorum ekki að fara rassgat svo eina leiðin til að losna við okkur væri að hjálpa okkur.

 

Eftir að mál okkar var svo loks tekið til greina var okkur leyft að skrifa umsókn sem innihélt ástæðuna fyrir aðstæðunum okkar á ensku meira að segja. Svo þurftum við að heimsækja ræðismanninn okkar í Perú ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Og það var hinn einstaki Dr. Augusto Arriola sem glaður tók á sig ábyrgðina fyrir að hleypa okkur inn í landið þrátt fyrir að við gætum vel verið með eitthvað illt í huga í Perú. Eftir að hann hafði skrifað útlendingaeftirlitinu einlægt bréf þar sem hann sagði þeim að við hefðum ekkert illt í hyggju fór svo boltinn að rúlla. Og eftir um 9 tíma puð í útlendingaeftirlitinu heyrðum við loksins besta hljóð í heimi. Hljóðið þar sem stimpillinn snerti vegabréfin okkar. „Jibbbí! Við erum á leiðinni til Síle.“ Þó hafði kellingarbeljan passað sig á að gefa okkur bara 30 daga stimpil í stað hins hefðbundna 90 daga sem þýddi að við vorum teknir fyrir og látnir borga sekt þegar við reyndum að yfirgefa landið.

En maður getur ekki sagst hafa farið til Perú án þess að hafa smakkað naggrís, eða cuy eins og þeir kalla hann. Seinasta kvöldmáltíðin okkar í landinu innihélt djúpsteikta útgáfu af þessu nagkvikindi. Og til að gera máltíðina enn skemmtilegri er það lenskan að steikja naggrísinn með kjafti og klóm og svo er hann borinn heill á diskinn. Bragðast svolítið eins og kjúklingur nema hvað naggrísinn inniheldur lítið sem ekkert kjöt. Það er virkileg kúnst að plokka allt þetta litla kjöt af dýrinu, auk þess sem skinnið festist mjög við tennurnar á virkilega óþægilegan og kúgandi hátt og þar á ofan er þetta nagdýr mun dýrari matur en allt annað af matseðlinum. Eini tilgangur með að éta þetta dýr er að nú getum við frændur sagst hafa snætt naggrís í Perú.

Myndir: 1: Í sandbrettabruni, 2: Eitthvað lostæti hér í gangi, 3: Steiktur naggrís gjörðu svo vel!

Fleiri myndir má sjá á heimasíðu félaganna: http://www.123.is/puttalingurinn/default.aspx?page=albums

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024