Puttalingarnir: Frá Inkaslóðum til tippaslóða - Cusco - Puno
Frá teygjustökki, úr fjögra daga göngu á 500 ára gömlum vegum í túristaverstu rútuferð í heimi.
Fyrsti dagur á Inkaslóðum: Inkaslóðir eru undir þeirri bölvun að vera of vinsælar, þangað fer enginn maður nema í 16 manna hóp með 2 leiðsögumönnum, kokki og tuttugu burðarmönnum sem tjalda fyrir mann, vaska upp og bera á borð. Það er ekki hægt að kalla þetta óbyggðir lengur og maður þarf að borga tilheyrandi verð fyrir þessa ofþjónustu. Jæja þetta er nú þess virði. Þegar við frændur stígum upp í rútuna, sem fór sér ferð til að sækja okkur, heyrum við kvenmansrödd spyrja: „Eruð þið Íslendingar?“ „Já,“ svörum við á íslensku ótrúlega hissa að við skulum hitta landa okkar. Seinasti Íslendingur sem við sáum var flugfreyjan sem þakkaði okkur fyrir flugið á Stanstedflugvellinum í Lundúnum. Og að þarna í sömu rútu, á leiðinni í 4 daga göngu á Inkaslóðum til Machu Picchu skuli ekki bara vera einn Íslendingur með okkur heldur tveir. Anna heitir önnur og hin Katrín, frænkur sem voru að fara að hitta skyldmenni í Santiago í Síle en ákváðu að taka smá útúrdúr fyrst og eyða aðfangadegi örþreytt í Machu Picchu borgarrústunum. En landar okkar eru ekki þær heppnustu. Áður en gangan hefst finnur Katrín fyrir veikindum sem munu hamla getu hennar töluvert til að ganga þessa leið. Fyrir okkur hin er þessi fyrsti dagur mjög auðveldur. Bara 12 kílómetrar með mörgum stoppum. Fyrstu rústirnar eru ekki langt frá upphafsreitnum, þær bera það skemmtilega nafn Hlíðarborg og eru svolítið mjög magnaður forsmekkur að því sem koma skal. Svo er gengið aðeins lengra og stoppað fyrir snæðing í hádeginu. Fyrsti hádegisverðurinn kemur manni svolítið spánskt fyrir sjónir. Þriggja rétta máltíð með 3 settum af hnífapörum á mann er ekki eitthvað sem maður býst við að sjá lengst út í sveit. En þar kom svarið við hvers vegna við þurftum 20 burðamenn. Við komum svo á tjaldsvæði fyrsta dagsins um fjögurleytið (Anna og Katrín þó aðeins seinna en skiluðu sér þó, sem telja má afrek sökum slappleika Katrínar). Þegar við sjáum tjaldsvæðið er búið að tjalda og allt fyrir okkur og það eina sem við þurfum að gera er að leggjast í tjaldið og bíða eftir að kokkurinn eldi ofan í okkur. Það hefði verið mjög auðvelt samt að ganga lengra en reglur þjóðgarðsins leyfa bara næturstöðvar á örfáum stöðum innan hans svo allir verða að tjalda á sama stað. Leiðsögumaðurinn segir okkur frá Inkarústum í klukkutímafjarlægð frá tjaldsvæðinu og bannar okkur svo að fara þangað þar sem hann segir að það fari að dimma bráðum og skógurinn sé hættulegur eftir myrkur. Menn geta ekki sagt hvor öðrum frá einhverju merkilegu og ætlast svo til þess maður sleppi því að skoða það. Svo Rúnar hleypur þangað, gegn vitund og ráðum leiðsögumannsins, kemur að rústunum á 30 mínútum, skoðar þær í flýti, hleypur svo til baka svo hann nái aftur fyrir myrkur og lýsir svo undrun sinni á staðnum. Þarna var heil borg og leiðsögumaðurinn ætlaði bara að láta hana fara fram hjá okkur. Kvöldmaturinn er eldaður og borinn fram og í eftirrétt kemur kokkurinn í fullum skrúða með bakka fullan af íkveiktum piscabanönum (lúxusinn hættir ekki að koma manni á óvart).
Annar dagur á Inkaslóðum: Náttúran hættir ekki að koma manni á óvart. Þetta er ótrúlegt, hversu fjölbreytt getur hún orðið? Annar dagurinn á að vera erfiðastur af þeim öllum. Maður verður að vorkenna Katrínu að taka upp veikindi akkúrat í þessum aðstæðum. Við klifrum úr 3000 í
Þriðji dagur á Inkaslóðum: Nei, náttúran getur ekki hætt að koma manni á óvart hérna í Andesfjöllunum. Þessir miklu og hrikalegu tindar, þessi svakalega kyrrð og allt þetta plöntulíf. Þeir segja að þriðji dagurinn sé skemmtilegastur. Þá gengur maður tiltölulega auðveldan steinhlaðinn stíg (sumstaðar upprunalegan frá tímum Inkana) á milli heillandi rústa í gegnum skóga og sléttur á fjallshlíðum og niður í dölum. Maður gengur meira að segja í gegnum göng sem Inkarnir byggðu. Maður er heillaður nú þegar af afrekum þessa gamla Indíánaveldis og enn á maður eftir að sjá rúsínuna í pylsuendanum, Machu Picchu. Alls 15 kílómetrar í dag, þokkalega auðvelt það og maður myndi klára það á örskotstundu ef ekki væri fyrir þessari náttúru og þessum rústum sem geta ekki hætt að heilla mann upp úr skónum. Undir lokin getur maður svo valið milli þess að fara styttri leiðina á síðasta tjaldsvæðið eða þá lengri sem innifelur ræktsvalir frá tímum Inkanna. Sumir okkar ákveða að fara lengri leiðina og sjá þar steinhlaðninga upp fjallshlíðina sem ná eins langt og augað eygir. Hreint út sagt ótrúlegt að einhver skuli byggja svona lagað, en á morgun munum við sjá stórvirkið sjálft, Machu Picchu. Ætli þessar rústir blikni ekki í samanburði eins og Chichen Itza bliknar í samanburði við Tikal.
Fjórði og síðasti dagurinn á Inkaslóðum: Fjögra daga erfiði, Einu sturturnar eru -3° C, sólbruni á nefi og á eyrum, öll nærföt skítug og við vöknum í tjaldi enn með hálsríg síðan í teygjustökkinu vitandi hvað við erum að fara að skoða eftir fáeina tíma. Reglur þjóðgarðsins banna alla umferð utan tjaldsvæða fyrir klukkan 5:30 svo við þurfum að bíða í röð eftir að vera hleypt af stað. Allir viljum við vera á undan hvor öðrum því allir vitum við hvað við skemmum upplifunina fyrir hver öðrum með því að vera fyrir. Bara í göngunni þennan dag eru 200 túristar og svo koma 1000 aðrir með lestinni um 9 leitið. Svo nú er mál að flýta sér. Katrín hefur svo til náð sér, það vantar bara smá upp á orkuna en hún nær að klára þetta eins og hetja, enda með víkingablóðið í æðum.
Upp bröttustu tröppur til þessa (og þær hafa verið brattar fyrir) og við sjáum einhvern gamlan múr. Við göngum í gegnum hliðið og undrið blasir við okkur. Heimsminjarnar Machu Picchu, hin týnda borg Inkana. Eitt af hinum sjö nýju undrum veraldar (listi sem verður kannski tekinn í sátt aftur eftir fíöskuna með Chichen Itza). Borgin var aldrei fundin af Spánverjunum, og ekki skrítið það miðað við staðsetninguna í miðjum Andesfjöllunum. Hún fannst ekki fyrr en 1911 og enn er fólk að rífast yfir því hvaða tilgangi hún þjónaði. Sumir segja að hún hafi verið byggð svo ríka fólkið gæti nýtt orlofið sitt þarna, aðrir að borgin hafi verið helg og fólk hafi farið þangað í pílagrímsferð. En eitt er vitað að borgin er falleg, bæði byggingalistin og fjöllin í kring geta ekki gert neitt nema heillað mann.
Jólin héldum við frændur að hluta í Machu Picchu og að hluta í Cusco. Lestin kom ekki til Cusco fyrr en klukkan 9 um kvöldið, en maður lætur sig ekki vanta í kirkju til að fagna fæðingu frelsarans. Í Cusco leggja þeir örlítið meiri áherslu á orðið fagna en við erum vön heima. Að ganga í miðnæturmessu í dómkirkjunni, framhjá vopnatorginu, er brjálæði. Fólk hleypur um með flugelda í gegnum bál, pappírsflygsur og brotna og/eða brennda hálfsmíðaða bása. Brennivínið vantar ekki, með tilheyrandi öskrum, og ef maður vissi ekki betur mætti halda að þarna væri borgarastyrjöld á ferð, frekar en aðfangadagskvöld. Vitaskuld heyrast lætin inn í kirkjuna og þar sem presturinn messar um Krist og ljósið í gegnum messusöngva spilaða á snældu á alltof hröðu tempói skapast svolítið súrt augnablik þar sem maður getur ekki gert að því að brosa. Þegar messan er svo búin er farið á hótelið þar sem tekinn er vel áunninn nætursvefn í rúmi í fyrsta sinn í langan tíma. En á leiðinni eru göturnar fullar af blindfullum gringóum á leiðinni á hávær diskótek. Þessir gringóar eru að halda upp á jólin eftir siði heimamanna sem eru vanir að detta í það á aðfangadagskvöld og dansa svo eins og vitleysingar á diskótekum bæjarins.
Jóladagur var þó með hefðbundnara sniði. Við frændur átum jólagjöf ömmu okkar og afa á fínasta veitingastað bæjarins með bestu list. Reikningurinn hljóðaði upp á 240 sol sem samsvarar 4800 krónum íslenskum. Samsvarandi verð fyrir þessa máltíð á íslenskum veitingastað væri þó 24000 krónur (skv. bjórígildisvísitölunni margviðurkenndu þar sem 240 sol eru 48 perúsk bjórígildi).
Lítið var þó um skötufnykinn á Þorláksmessu, pakka frá vinum og vandamönnum á aðfangadag eða hangikjötsveislunni á jóladag heima hjá ömmu Rún og afa Ingólfi þessi jólin. Þess í stað skemmtum við okkur við að segja útlendingunum, sem gengu Inkaslóðirnar með okkur, sögur af 13 jólasveinum, sonum trölla sem skemmta sér við að hræða börn og stela af fátækum fjölskyldum og jóla ketti sem er frægur fyrir að borða óþæga krakka.
Titicacavatn er svo næst á dagskrá. Við erum komnir í stærsta bæinn við vatnið, Puno. Við komum þó ekki þangað án þess að öðlast eitt ævintýri í leiðinni. Forsagan er sú að áður en við fórum á Inkaslóðirnar höfðum við ætlað að kaupa lestarmiða hingað. Útsýnið úr lestinni á víst að vera stórbrotið. En þegar við fórum að kaupa miðana tókst konunni í afgreiðslunni að sannfæra mig (Rúnar Berg) um að rúta með leiðsögn væri betri kostur. Enda kostaði rútan bara 5 dali meira og innihélt leiðsögn á ensku, skoðunarferðir um 5 áhugaverða staði í leiðinni og hlaðborð sem maður gat étið að vild. Skúli var ekki á sama máli og var enn sannfærður um lestina sem færi bara beint í gegn en þó myndi skila okkur seinna á áfangastað en rútan. Ég fékk að ráða að þessu sinni. Og fæ það sennilega aldrei aftur því rútan var ein sú versta túristaupplifun sem getur komið yfir bakpokalinga eins og okkur. Leiðsögnin var meira svona: „Þessi staður heitir þetta. Inkarnir töluðu Quechua, hinir töluðu hitt. Þetta er veggur og þetta er vegur.“ Svo líka voru hinir áhugaverðu staðir uppsprettan að kjánahrolli næstu mánuðina. Kirkja sem átti að vera sixtínska kapella Ameríku var ómerkilegri en Kirkjukotið heima í Grindavík (án þess að við séum að gera lítið úr Kirkjukoti). T.d. var búið að skreyta málverk af Kristi á krossinum með gullkrúnu sem hafði verið fest yfir þyrnikrúnuna og svo var búið að klæða hann í gullpils með mynd af Benidikt XVI páfa í miðjunni, er fólk alveg búið að gleyma hvers vegna Kristur dó á krossinum og hví hann var með þyrnikrúnu og stafina INRI skrifaða fyrir ofan sig?
Eftir að rútan kom til Puno og ég (Rúnar Berg) hafði beðið Skúla margsinnis afsökunar á þessum hræðilegu mistökum mínum hafði ég heyrt af frjósemishofi hér nálægt. Auðvitað lætur maður ekki svoleiðis fram hjá sér fara. Þetta hof er í
Heimasíða Rúnars og Skúla: http://www.123.is/puttalingurinn/