Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Puttalingar: Kúba
Föstudagur 28. september 2007 kl. 13:39

Puttalingar: Kúba

Það var alltaf til í stöðunni að leiðir okkur myndu skiljast einhvern tíma þessa átta mánuði sem við ferðumst.  Reyndar töldum við það óhjákvæmilegt.  Verst að það skyldi gerast þegar heilt haf skyldi á milli okkar.  Vegabréfsáritunin sem á vantaði reddaðist á svipstundu þegar um það var að spyrja, en jafnvel í Kúbu voru við frændur aðskyldir og áttum erfitt með að sameina leiðir okkar, jafnvel þó við værum á sömu eyjunni.
Reynslan sem við öðluðumst á Kúbu skiptist því í tvennt og sömuleiðis pistillinn að þessu sinni.

Skúli segir frá:
Eftir að hafa reynt að breyta fluginu okkar félaganna til Kúbu án árangurs reyndi ég að tjékka mig inn í flugið svo að allavega annar okkar þyrfti nú ekki að kaupa nýjan flugmiða.  Fljótlega komst ég nú að því að miðann til Havana vantaði af einhverjum óskiljanlegum ástæðum í flugmiðaheftið.  Ég reyndi tvo mismunandi tjékk-inn bása en ekkert gekk.  En, eins og einhver vitur maður sagði einhverntímann „allt er þegar þrennt er.“  Ég reyndi þriðja básinn og tjáði sú ágæta kona mér að það væri búið að loka fyrir tjékk-inn í flugið en henni tókst nú samt að redda þessu fyrir mig.  Þannig að ég hleyp af stað, verkjandi í geirvörturnar af stressi og hleyp í sirka hálftíma í gegnum risavaxinn  Madrid flugvöllinn.  Löðrandi sveittur bankar litli ljóshærði Íslendingurinn á lokaða flugvélarhurðina og gengur inn skömmustulegur á svip.  Jess, æ meid it.
Eftir rúmlega átta tíma flug lenti ég (með snyrtibudduna mína og megnið af fötunum í töskunni hans Rúnars í Madrid) í Havana og bað næsta leigubílsstjóra að skutla mér á hótel eða á Casa Particular (hálfgert bed&breakfast).  Sá elskulegi bílstjóri tók mig heim til sín og bauð mér kaffi.  Ég afþakkaði pent.  Þá fór hann með mig upp þar sem ég gisti þá nóttina.
Daginn eftir fór ég á casað sem við Rúnar höfðum bókað og hitti þar fyrir tvær elskulegar stelpur; Tali frá Ísrael og Suzie frá Ástralíu.  Þær stöllur drógu mig með sér í miðborg Havana þar sem við fórum á byltingarsafnið og í skoðunarferð í vindlaverksmiðju þar sem keyptir voru Cohiba vindlar (quality stuff).  Stelpurnar spurðu mig svo hvort ég væri ekki til í að fara í smá roadtrip með þeim og ég lét nú slíkt tækifæri ekki úr greipum mínum renna.  Við á bílaleigu og náðum í hinn ágæta Kia Rio sem var okkar í fimm daga.  Morguninn eftir sóttum við svo hinn ávallt hressa Jeff frá Ástralíu og kúbverska hálfkærustu hans Jani.  Þessi föngulega grúppa hélt síðan ótrauð af stað til Cienfuegos þar sem við tók einhver mesta leit að gistingu í manna minnum.  Þannig er nefnilega mál með vexti að af einhverjum ástæðum mega bara vera tvö herbergi í hverju casa og einungis tvær manneskjur í hverju herbergi.
Þetta leystist þó þannig að við gistum í þremur mismunandi húsum í sömu götunni.  Um kvöldið var auðvitað tekið í eitt stykki romm flösku sem var slátrað áður en haldið var á diskótek í plássinu.  Þar var dansað og drukkið mojito þangað til að húsinu var lokað.  Svona til að gera langa sögu stutta vöru næstu kvöld mjög svipuð; rommflöskur, dans og skemmtilegheit.  Eitt kvöldið reyktum við síðan kúbverskan vindil sem var alls ekkert svo góður þrátt fyrir að vera kúbverskur.  Eða kannski eru bara allir vindlar ógeð?
Á laugardagskvöldið komum við aftur til Havana og skiluðum bílnum.  Kvöldið var mjög rólegt þar sem að Suzie átti flug eldsnemma um morguninn til Mexíkó og þaðan til New York.  Þá vorum við Tali orðin ein eftir af hópnum góða.  Næsta dag vorum við á röltinu og hittum mjög vinaleg systkini sem fóru með okkur á bar í nágrenninu.  Þar drukkum við nokkra mojito, spjölluðum og reyndum að dansa salsa.  Bróðirinn var mjög elskulegur að bjóða mér systur sína eins og ekkert annað væri eðlilegra.  Svo þegar reikningurinn kom var mér ekki skemmt.  Heilir 114 CUC sem samsvarar um 8000 kalli.  “This is f***ing ridiculous” sagði ég en þá sagði bróðirinn “This a very famous place” við enduðum auðvitað á að borga þetta þar sem við nenntum nú ekki að lenda í einhverju veseni.  Hrikalega svekkjandi að fólk hérna geti ekki bara verið vinalegt án þess að þurfa að kreista peningana út úr ferðamönnunum því ég veit að bróðirinn hefur verið að fá einhverja prósentu.  Bölvað kvikindið.
Annars höfðum við Tali það bara gott síðustu daga í Havana.  Áreitið hérna verður bara fyndið eftir nokkra daga þar sem óteljandi tilboð um vindla, taxa, veitingastaði, casas.  “Hello my friend, where are you from?” var spurt mann á fimm skrefa fresti og við sögðumst alltaf vera frá Uzbekistan.  Bara gaman það.
Í dag fann ég svo loksins Rúnar Berg sem lét frasa eins og „I don’t sell it cheaper than I bought it“ við snæðinginn og Tali yfirgaf mig og fór aftur heim til Ísrael.
En á morgun förum við til Mexíkó.  Það verður eflaust nýtt ævintýri.

Rúnar segir frá:
„Í morgun fór ég í messu í San Francisco el grande í Madrid.  Kaþólsku messurnar eru ekki eins spennandi og ég hafði vonað.  Þær eru meira svona að presturinn er blaðrandi eitthvað um föðurinn soninn og heilaga andann.  Kvöldið áður hafði ég þar að auki skroppið á ísraelskt kvikmyndaþemakvöld í húsi fínna lista.
Jæja af þessum þrem kvöldum sem ég eyddi í Madrid fóru 2 seinustu í spænska bjórdrykkju.  Madrid er ótrúlega samevrópsk borg.  Eftirfarandi þjóðerni eru þau sem ég hitti þessi tvö kvöld:  Spánn, Pólland, England, Írland, Svíþjóð, Þýskaland, Holland, Rúmenía, Danmörk og Frakkland, auk Bandaríkjanna og Nýja-Sjálands.  Á eina stelpu rambaði ég líka tvisvar á tvö mismunandi kvöld.  Bea var hún kölluð, auðsjáanlega sænsk.  Hún var líka þokkalega vinsæl hjá kyninu mínu, líklegast út af ljósa hárinu.  Að mínu mati var nótt númer tvö í Madrid sú fjörugusta.  En hún hófst á tveggja tíma göngu í leit að blúsi sem, þegar loksins ég komst á staðinn, var lokaður.  Alveg dæmigerður ég líka því seinna komst ég að því að það voru 2 aðrir blúsar í kortersfjarlægð frá hostelinu.  Ég ákvað nú samt að fara í bíó senna kvöldið frekar en blús.  Þar sem maður kemst alltaf einhverstaðar á blús en það er svolítið sérstakt að horfa á ísraelskar kvikmyndir á Spáni, allavega hjálpar spænski textinn mér lítið að skilja hebreskuna.  Bea, samt sem áður, kvaðst dást að hugrekkinu mínu. Að ferðast einn án þess að skilja tungumálið né hafa hugmynd um hvað ég eigi eftir að gera og samt sem áður kynnast nýju fólki, stunda kirkjur, pöbba og menningarviðburði með bros á vör.
Ég eldaði mér líka verstu máltíð sem ég hef nokkurntíman smakkað á ævinni.  Þetta átti að vera einhverskonar hakk og spaghetti en þar sem eina kjöttegundin sem ég kann að bera fram á spænsku er carne de vaco (nautakjöt) varð ég að sætta mig við nautakjötssneiðar (frasaorðabókin mín hafði ekki orð yfir hakk).  Þar ofan á var ekki til neitt smjör eða olía á hostelinu svo ég varð að steikja kjötið úr vatni, sem auðvitað brann fyrir vikið. Þess á milli sauð ég svo of mikið spaghetti og kartöflumús svo úr varð hin mesta drulla.  Þegar ég ætlaði loks að koma þessu á matardisk sullaðist þetta svo út um allt.  En sem betur fer var hostelið tómt svo enginn varð vitni að þessari travestíu.
Allt annað norm sem ég stundaði í Madrid er kannski ekki frásögu færandi, þar sem það var ósköp venjuleg borgarskoðun.  Ég sparaði mér smá pening með að labba hana, sé ekki eftir því.  Og svo fór auðvitað hellings peningur í að reyna að redda þessu bölvaða flugi.
En nú er því reddað.
Ég var þrjár nætur í Havana á meðan Skúli ferðaðist um landið. Mér líkaði eiginlega ekkert sérstaklega við borgina. Of mikil mengun er ástæðan þá aðallega túristamengun.  Sökum hennar er ekki hægt að treysta neinum.  „Vinur minn, hvaðan ertu?“ spyrja þeir, en eru á höttunum eftir því að þú borgir fyrir þá mojitos, borgir fyrir kynlíf með systrum þeirra, kaupir af þeim vindla (allir virðast vinna í vindlaverksmiðju), eða einfaldlega gefir þeim eitthvað, buxurnar þínar, tónhlöðuna eða einfaldlega peninga. Í rauninni eru 3 af hverjum fjórum Havanabúar sem yrða á mann að fyrra bragði að reyna að selja manni vindla, sem oftast eru þýfi eða gervi, hinir eru að reyna að plata mann í að gefa sér eitthvað.
Eftir 3 nætur í Havana er ég hér í Trinidad. Ég byrjaði að taka einfalda skoðunarferð um þessa merku nýlenduborg, þar sem fólkið í fátækar hverfunum hefur ekki einu sinni götur til að ganga á. Byggð af Spánverjum á 16. öld stendur hún nær eingöngu úr nýlenduhúsum. Og hér eru nær allir listamenn. Um kvöldið er ég staddur á trúbador. Tala þar við 3 sænskar stelpur sem eru í 3ja mánaða reisu um latnesku-Ameríku. Meðal annars ætla þær í Inkatrail mánuði á undan okkur Skúla. Spurning hvor ég eigi ekki eftir að hitta þær aftur seinna einhversstaðar í Gvatemala eða Nigaragua. Svo er það salsa. Ég er ekki maður í að taka þátt í dansinum en maður lifandi hvað fólkið hér dansar villtan dans.
Núna daginn eftir er ég ríðandi á hest í þjóðgarði skammt frá Trinidad. Þar er náttúruleg baðlaug með fossi og helli þar undir sem er líkara paradís en einhverju hér á jörðinni. Eftir gott bað er svo riðið aftur í borgina og fengið sér kennslu í salsadansi. Sú kennslu stund reynist hin mesta tímasóun.  En rækjumáltíðin sem ég fæ eftir kennsluna er engri lík.  Ég er ekki búinn að sitja lengi um mojito í casa de la música undir berum himni áður en blók kemur að mér og biður mér að gefa mér buxurnar sínar.  Ég neita pent og horfi á villta dansinn að öðru sinni á meðan ég sit á spjalli við hollenskt kærustupar.  Þjóðerni þeirra er engin tilviljun því í raun eru um 50% gesta evrópskir.  Ég hafði rekist á diskó fyrr um kvöldið og finnst sjálfsagt að líta þar við eftir að salsanu líkur.  Diskóið er staðsett í stærðar helli, sem gerir það mjög sérstakt.  Helladroparnir rigna yfir mann á meðan maður er á dansgólfinu eins og ekkert sé eðlilegra.  Að labba þangað er enginn hægðarleikur fyrir ölvaðan mann í sandölum, nefnilega liggur leiðin í gegnum þykkt hitabeltiskjarr sem Guð-veit-hvaða-skepnur leynast í. Heill á húfi panta ég mér bjór og sest á borð. Á borðinu við hliðin á situr svo verulega sæt stelpa.  Eftir að hafa stappað í mér stálinu fer ég til hennar og býð henni upp í dans, á spænsku.  „Sí“ segir hún, mér til mikillar ánægu.  Þegar hún situr sem fastast eftir að ég hafði rétt henni höndina ítreka ég boð mitt, en átti mig þess í stað hversu ekkert ég kann í spænsku.
Ég geng í gegnum kjarrið í annað sinn og hitti svo nokkra strákpjatta að biðja mig um pening. „Nei!“ segi ég, „soy pobre,“ en nei fyrir þeim þýðir: „endilega þrengið meira upp á mig.“ Ég segi þeim að biðja frekar Kastró um pening en mig og upphef byltingu fyrir fólkið en hleyp loks burt eftir að þeir skipa mér að fokka mér.
Svo kemur nótt, svo morgun og loks nýr dagur.  Skipulagsleysið nær nýjum hæðum þegar ég pakka í bakpokann minn og rölti af stað út í buskann.  Leiðinn liggur mér-er-sama-hvert til eða frá Havana. Hitinn er óbærilegur og enginn bílar eru á götunni.  Tók ég ranga beygju einhversstaðar? Er þetta bara einhver sveitavegur? Af hverju stoppar enginn fyrir mér? Ávaxtasali á götunni segir mér að það séu 80km í næstu borg.  Kannski var þetta ekki svo góð hugmynd, þeir fáu bílar sem aka fram hjá eru fullir og þeir sem eru það ekki stoppa ekki.
En ég dey ekki, nei.  Ég enda í Cianfuegos, þaðan sem ég tek taxa til Havana tveim dögum seinna.  Í Cianfuegos geri ég mest lítið, tala við hippa og fer í leikhús sem er eitthvað það leiðinlegasta sem mun nokkurntíman gera.
Á tröppunum sit ég
í miðri Havana að bíða eftir
förunautnum.
Því einn hef ég ferðast.
Einn drakk ég í Madrid,
einn fór ég í hestbak í Trinidad,
einn dansaði ég í Trinidad,
einn lét ég plata mig í Havana,
einn húkkaði ég mér far til Cientfuegos,
og einn fór ég á ströndina í Cientfuegos.
En klukkan 3 verðum við tveir
í Capitulo í Havana.
Því tveir fljúgum við til Mexikó á morgun.


Myndin er frá ferðalagi þeirra félaga í Marokkó, en fleiri myndir má finna inni á síðu þeirra - smellið hér
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024