Pulsur og samlokur flugu út – stórtónleikar í FS í dag
„Það var brjálað að gera í veitingasölu í allan gærdag, frá árgangagöngunni og langt fram á kvöld. Staðurinn hérna var hreinlega fullur af fólki og stemmningin var góð. Það var létt yfir fólki og það gekk hér út með eitthvað gott í gogginn, samlokur, báta og pylsur,“ sagði Bryndís Káradóttir á bensínafgreiðslluni Básnum í Keflavík.
Þátttakan í árgangagöngunni og fleiri atriðum á Ljósanótt 2009 hefur verið mjög mikil sem náði hápunkti í miðbænum í gærkvöldi þegar vegleg tónlistardagskrá var á boðstólum og flugeldasýning björgunarsveitarinnar kl.22. Þegar horft var upp eftir Hafnargötunni var fólk upp eftir allri götunni í tug þúsunda tali og naut sýninga sem í boði voru sem og að hitta vini og kunningja. Einar Bárðarson, kynnir á kvölddagskránni sagði að kannski hafa fólksfjöldinn verið á milli 40 og 50 þúsund manns.
Í dag eru enn opnar fjölmargar sýningar opnar en hápunkturinn í dag eru stórtónleikar á sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja kl.16. Kórar svæðisins og einsöngvarar flytja lög og atriði úr söngleikjum og óperum m.a. úr Jesus Christ Superstar, Fiðlaranum á þakinu, My fair lady og La boheme. Sjá nánar á ljosanott.is.
Þegar fréttamaður vf.is tók stuttan rúnt um bæinn í hádeginu mátti sjá fjölda húsbíla og fellihýsa víða um bæinn og ljóst að pláss fyrir slíkt er gott víða í bæjarfélaginu.
Þessi ungi herramaður var að skoða regnbogann, listaverk Guðmundar Rúnar Lúðvíkssonar, listamanns. Að ofan má sjá hjólhýsi á gamla sýslumannstúninu og efst er það Draumadísin sem var staðsett við Ægisgötu. Fólkið sat úti í góða veðrinu og naut blíðunnar. VF-myndir/pket.