Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Prímadonnurnar á tónleikum í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 14. maí 2009 kl. 14:59

Prímadonnurnar á tónleikum í Reykjanesbæ

Fjórar af fremstu sópransöngkonum landsins, þær  Auður Gunnarsdóttir, Elín Ósk Óskarsdóttir, Hulda Björk Garðarsdóttir og Þóra Einarsdóttir munu koma fram á tónleikum í Kirkjulundi í Keflavík sunnudaginn 17. maí kl. 20.00.   Söngkonurnar hafa allar verið önnum kafnar og gert garðinn frægan bæði hér heima og erlendis og er því nokkuð fréttnæmt að ná þeim öllum saman á tónleikum.
 
Við píanóið verður Antonía Hevesi, fastráðinn píanóleikari Óperunnar sem er löngu kunn af störfum sínum hérlendis, m.a. fyrir hina vinsælu hádegistónleika í Hafnarborg. Efnisskráin verður ekki af verri endanum en þar má finna margar af helstu perlum óperubókmenntanna, aríur, dúetta og samsöngsatriði, eftir Bellini, Mozart, Verdi, Wagner, Puccini, Rossini og fleiri.
 
Söngkonurnar komu áður fram á tvennum tónleikum í Íslensku Óperunni en tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins, Ríkarður Örn Pálsson, gaf tónleikunum fjórar stjörnur og sagði Prímadonnurnar hafa slegið rækilega í gegn. Í grein sinni hrósar hann meðal annars metnaðarfullri og fjölbreyttri efnisskrá, frábærri sviðsframkomu og glæsilegum söng.
 
Galakjólar og greiðslur munu gleðja augu áhorfenda og því er kjörið tækifæri fyrir tónleikagesti að gera sér dagamun,  klæða sig upp og gleðjast í góðra vina hópi.
 
Tónleikarnir eru á vegum Tónlistarfélags Reykjanesbæjar.  Sala aðgöngumiða fyrir tónleika fer fram í Listasafni Reykjanesbæjar í DUUS húsum á opnunartíma safnsins sem er alla daga kl. 11:00 -17:00, auk þess er hægt að hringja inn í síma 421 3796.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024