Presturinn stöðvaði æfingu á föstudaginn langa
Eiginkonur gullaldarknattspyrnumanna Keflavíkur hafa verið saman í saumaklúbbi í tæpa hálfa öld.
Eiginkonur síðustu Íslandsmeistara Keflavíkur í knattspyrnu 1973 muna vel eftir Joe Hooley, þjálfara liðsins þetta magnaða ár. „Þetta var skemmtilegur tími en það gekk á ýmsu, hann rauk heim í fýlu og mætti ekki í fagnaðinn um kvöldið þegar liðið varð Íslandsmeistari. Við munum líka vel eftir því þegar hann var með æfingu á föstudaginn langa og það var ekki vinsælt í bæjarfélaginu og gekk svo langt að sóknarpresturinn okkar þá, hann Björn Jónsson, kom og stöðvaði æfinguna,“ sögðu þær stöllur í saumaklúbbi sem hefur verið lýði í 46 ár. Þær skvísur voru við laufabrauðsgerð á heimili einnar þeirra, Þorbjargar Óskarsdóttur, þegar Víkurfréttir litu við. Með Þorbjörgu í saumaklúbbnum eru þær Sigurbjörg (Bagga) Gunnarsdóttir, Svanlaug Jónsdóttir, Margrét Lilja Valdimarsdóttir, Sigrún Ólafsdóttir og Guðrún Aðalsteinsdóttir.
„Tíminn þegar þeir voru í fótboltanum var yndislegur. Við höfum hist reglulega sem saumaklúbbur síðan 1971 og við vorum fleiri í honum um tíma,“ segja þær aðspurðar eftir nánari fréttum af fjörinu með fótboltastrákunum, gullaldardrengjunum í Keflavík. Saumaklúbburinn var stofnaður í London þegar Keflavíkingar voru að mæta Tottenham í Evrópukeppninni í knattspyrnu. Þáverandi þjálfari, Einar Helgason, vildi endilega líma konurnar saman í klúbbi til að auka á samheldni hópsins og það varð úr.
„En við fengum ekki að gista með þeim á hóteli. Þjálfarinn vildi ekki fá konurnar inn á hótel fyrir leik,“ segja þær og hlægja og ein bætir við: „Við fórum í margar ferðir til útlanda með strákunum í Evrópukeppni. Það var mjög skemmtilegt en við héldum svo hópinn og höfum í gegnum tíðina farið víða hér heima. Á þessum árum var sett upp fjölskylduferð á Laugarvatn þar sem aðstaða var til að taka á móti öllum hópnum. Við höfum líka farið í eftirminnilegar ferðir, t.d. í Fljótavíkina vestur á fjörðum nú í seinni tíð. Þar sigldum við í fjögurra metra öldum en ferðin var frábær í yndislegu umhverfi.“
Gullaldarkonurnar, f.v.: Sigurbjörg (Bagga) Gunnarsdóttir, Svanlaug Jónsdóttir, Margrét Lilja Valdimarsdóttir, Sigrún Ólafsdóttir, Guðrún Aðalsteinsdóttir og Þorbjörg Óskarsdóttir.
Bagga, Svanlaug og Guðrún í laufabrauðs-„skrautgerð“.
Hjördís, Sigrún og Margrét sýna efniviðinn og verkfæri, þær nota m.a. jólaplatta í laufabrauðsgerðinni.
Platti upp á vegg hjá Þorbjörgu eiginkonu Einars Gunnarssonar, fyrirliða Keflavíkur 1975 þegar liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn. Einar skoraði sigurmarkið. Á stærri myndinni er verið að leika knattspyrnu á fótboltavelli við kirkjuna, nokkuð fyrr en þegar gullaldardrengir Keflavíkur voru við æfingar. Presturinn þurfti þá að fara lengra til að stöðva æfingu hjá Joe Hooley og gullaldardrengjunum.
Þorbjörg og Svanlaug við steikingu í bílskúrnum. Allt eftir kúnstarinnar reglum.