Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Póstsendillinn  er löngu farinn  að þekkja mig  með nafni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 28. nóvember 2020 kl. 07:38

Póstsendillinn er löngu farinn að þekkja mig með nafni

Gígja Sigríður gerir gott í matinn heima hjá sér og er duglegur matarbloggari

Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, flugfreyja, sælkeri og matarbloggari, segir það algert möst að eiga sörur í frysti yfir hátíðarnar. Hún kaupir allar gjafir á netinu og segist vera mikill netsjoppari. Eftirminnilegasta jólagjöfin er sú sem hún fékk í fyrra og hún var af stærri gerðinni. Matarbloggarinn gaf okkur að sjálfsögðu uppskriftir sem sjá má hér í umfjölluninni.

– Ertu byrjuð að kaupa jólagjafir?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég er byrjuð og búin. Mér finnst rosalega gaman að gefa jólagjafir og ég byrja löngu fyrir jól að spá í hvað ég vil gefa hverjum og einum. Á Singles Day, 11/11, náði ég að afgreiða allar gjafirnar á sjö mismunandi netsíðum og póstsendillinn er löngu farin að þekkja mig með nafni, enda netsjoppari mikill.

– Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?

Það er mjög gaman að sjá hversu margir eru búnir að jólaskreyta snemma en ég held að við skellum því bara upp á fyrsta í aðventu eins og síðastliðin ár.

– Skreytir þú heimilið mikið?

Ég tel mig skreyta nokkuð mikið. Við fjölskyldan erum með óskrifaða reglu að bæta einhverju við á hverju ári, bæði seríum og jóladóti. Ég skreyti alla vega það mikið að ég þarf að tæma hillurnar til að koma skrautinu fyrir.

– Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst?

Sörur eru algjört möst, ég elska að eiga sörur í frysti yfir hátíðarnar. Í fyrra keypti ég svo sæta gjafapoka fyrir sörurnar svo gestir geti tekið með sér heim.

– Hvernig sérðu desember fyrir þér í jólastemmningu í ljósi Covid-19?

Jólin verða öðruvísi, ég held að þau verði frekar róleg í ár og við getum notið þeirra betur með okkar nánasta fólki. Við eigum stórar fjölskyldur og ég er viss um stóru jólaboðunum verði slaufað af jafnt sem jólatónleikunum sem við erum vön að sækja.

– Eru fastar jólahefðir hjá þér?

Það voru meira fastar jólahefðir þegar ég var yngri en núna er komið að okkur að skapa jólahefðir með börnunum okkar og ég er spennt fyrir því.

– Hveru eru fyrstu jólin sem þú manst eftir?

Þetta er erfið spurning, mér finnst minningarnar aftur í tímann bara endurspegla myndir sem við eigum – en eftirminnilegt er að ég og systir mín vorum oft í eins kjólum og ég man eftir að hafa hugsað af hverju ég þyrfti alltaf að vera klædd eins og hún þar sem hún er fimm árum yngri.

– Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

Nei, ég hef ekki komið mér upp á lagið með að sækja messur. Ég hef þó farið á tónleika í kirkjum yfir hátíðarnar.

– Eftirminnilegasta jólagjöfin?

Eftirminnilegasta jólagjöfin var á síðasta aðfangadag en þá fór Ásgeir Elvar, unnusti minn, á skeljarnar og bað mig um að giftast sér. Aðfangadagur sem gleymist ekki.

– Er eitthvað sérstakt sem þig langar í jólagjöf?

Nei, það er ekkert á óskalistanum þetta árið.

– Hvað verður í matinn hjá þér á aðfangadagskvöld?

Ég hef séð um matinn á aðfangadag á heimili okkar síðustu fimm ár og þá hef ég alltaf humar í æðislegri sósu á brauði í forrétt. Í aðalrétt hef ég verið óhrædd við að prófa nýja hluti en ég hef verið með rjúpur, hreindýr og Beef Wellington. Í desert hef ég verið með heimatilbúinn Toblerone og piparkökuís en í fyrra prófaði ég að gera æðislega góða Toblerone súkkulaðimús sem ég gef ykkur uppskriftina af.

Laxasnittur

Frábærar í jólaboðið sem forréttur

Innihald:

Pönnukökur

Graflaxsósa

Graflax

Rjómaostur

Dill

Aðferð:

Ég notaði tilbúið pönnukökuduft, auðvitað er hægt að gera pönnukökur eftir amerískri pönnukökuuppskrift líka.

Litlar pönnukökur eru steiktar á pönnu.

Pönnukökurnar eru smurðar með graflaxasósunni og graflaxi, rjómaostur og dill sett ofan á.

Jólaleg Toblerone súkkulaðimús

Uppskrift fyrir 4

Tími: 15 mínútur - 3 klst í kæli

Innihald:

130 gr toblerone

1 dl rjómi til suðu

2 eggjahvítur

2 msk sykur

hnífsoddur salt

1 bolli rjómi til að þeyta

Aðferð:

1. Tobleroneið er brætt yfir vatnsbaði og á meðan er 1 dl af rjóma hitað upp að suðu í öðrum potti. Þegar súkkulaðið er bráðnað er heitum rjómanum hellt yfir og hrært þar til glansandi. Þá er blandan látin standa í skálinni þar til hún hefur kólnað.

2. Eggjahvítur eru þeyttar með sykri og salti og sett til hliðar

3. 1 bolli rjómi er þeyttur. Helmingur rjómans er tekin til hliðar til skrauts og hinn helmingurinn fer í skál með súkkulaðiblöndunni og eggjahvítunum.

4.Hrærið hægt og rólega með sleif þar til allt hefur blandast saman

5. Sett í stóra skál eða 4 litlar og inn í ískáp í 3 kst í það minnsta. Músin geymist upp í 3 daga í kæli.

Toppur: Rjóminn sem þið tókuð til hliðar, súkkulaði og ber.

Uppskriftina er auðvelt að stækka og músin er einnig æðisleg með hvítu toblerone í stað súkkulaðis í uppskriftinni. Um jólin ætla ég að hafa bæði hvíta og brúna.

M&M kökur

Þessi uppskrift er æðislega góð, kökurnar eru dúnamjúkar og bráðna uppí manni.

Innihald:

Þetta er stór uppskrift og gerir um 50–60 kökur. Auðvelt að gera uppskriftina helmingi minni ef þið eruð hógvær.

300 gr smjör við stofuhita

2 bollar púðusykur

½ bolli sykur

2 tsk vanilludropar

2 egg

4 bollar hveiti

2 pakki vanillu Royal búðingsduft

2 tsk matarsódi

1 tsk salt

150 gr súkkulaðidropar

150 gr hvítir súkkulaðidropar

300 gr M&M

Aðferð:

Ofninn er hitaður í 180 gráður

Fjórðungur af  M&M tekinn til hliðar til að nota ofan á kökurnar (ég tók grænu og rauðu frá því þær eru jólalegastar).

Hrærið saman í hrærivélinni smjör, púðusykur, sykur í um tvær mínútur og bætið svo eggjunum og vanilludropunum út í og hrærið.

Í aðra skál blandið saman hveiti, vanillubúðingsdufti, matarsóta og salti og bætið því svo út í hrærivélina (best að nota hnoðarann á hrærivélinni en ekki þeytarann).

Í lokin er súkkulaðidropunum og M&M bætt við og hnoðað með höndunum þar til allur mulningur hefur blandast saman í deigið.

Deigið er næst hulið með filmu og sett í ískáp í um klukkutíma.

Þegar deigið hefur stífnað aðeins eru gerðar litlar kúlur og M&M raðað ofan á. Ekki hafa áhyggjur af því að deigið sé of þykkt eða stíft, það á að vera þannig.

Kökurnar fara inn í ofn í tíu til tólf mínútur, eða þar til þær hafa aðeins tekið lit. Leyfið þeim að kólna í um tíu mínútur áður en þær eru teknar af plötunni.

Njótið vel :-) með ískaldri mjólk! mmm