Poppstjörnur framtíðarinnar á Hjallatúni
Leikskólabörnin á Hjallatúni í Reykjanesbæ gáfu á dögunum út geisladisk með 16 sígildum barnalögum sem þau sungu sjálf og Geimsteinn tók upp. Foreldrafélag Hjallatúns sá um verkefnið í samstarfi við leikskólakennara og börnin að sjálfsögðu. Berglind Bára Bjarnadóttir, varaformaður foreldrafélagsins afhenti Guðríði Helgadóttur, leikskólafulltrúa Reykjanesbæjar, fyrsta eintakið á jólaballi Hjallatúns í gær.
Markmiðið með gerð disksins var að hvetja foreldra og afa og ömmur til að vera með börnunum og syngja með lögunum á disknum en söngbók með textum fylgir disknum.
Foreldrafélagið var stofnað á sama tíma og leikskólinn hóf starfsemi fyrir fimm árum og hefur sífellt verið að vaxa fiskur um hrygg. Þau hafa staðið fyrir fjölmörgum skemmtilegum uppákomum í gegnum árin s.s. ferðum í kvikmyndahús, leikhús og einnig styrkt leikskólann með góðum gjöfum eins og DVD spilara og myndbandsupptökuvél.
Söluandvirði disksins mun fara í þetta góða starf en óhætt er að segja að diskurinn sé vandaður og lögðu börnin sérlega mikið á sig að sögn leikskólakennaranna. Þau hafa æft lögin síðan í ágúst og voru ótrúlega dugleg að syngja þegar Geimsteinsmenn komu upp á leikskólann til að taka upp.
Foreldrafélagið vil þakka börnunum og kennurunum fyrir frábært starf sem skilaði þessum diski og útiloka ekki að einhvern tíma í framtíðinni verði tekið upp á slíku aftur í framtíðinni fyrst nú gekk svona vel.
Annars var mikið fjör á jólaballinu þar sem Giljagaur kom í heimsókn og gaf mandarínur og auðvitað var dansað í kringum jólatréð við undirleik Guðbrands Einarssonar sem hefur leikið við þetta tilefni í mörg ár. Myndir frá Jólaballinu má finna í Ljósmyndasafni VF hægra megin á síðunni eða með því að smella hér.
VF-myndir/Þorgils