Pólski sendiherrann og frú í heimsókn í Reykjanesbæ
Sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszynski og eiginkona hans Margherita Bacigalupo-Pokruszynska eru nú í óopinberri heimsókn í Reykjanesbæ. Þau hafa heimsótt menningarstofnanir og fengið kynningu á starfsemi þeirra. Þá hafa þau kynnt sér menningarlífið og samfélagið, m.a. móðurmálskennslu pólskra barna sem búsett eru í bænum.
Um 4000 íbúar í Reykjanesbæ eru af pólsku bergi brotnir. Bókasafn Reykjanesbæjar er búið góðu úrvali pólskra bóka fyrir börn og fullorðna. Reykjanesbær heldur úti Facebook síðu sem miðar að því að koma upplýsingum til pólskra íbúa og mynda tengsl. Þá hefur Reykjanesbær ráðið til sín verkefnisstjóra fjölmenningarmála, Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttur.