Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Pólski sendiherrann heimsótti Sandgerðisskóla
Laugardagur 26. janúar 2019 kl. 06:00

Pólski sendiherrann heimsótti Sandgerðisskóla

Einn af fáum skólum landsins sem býður upp á pólskukennslu

Gerard Pokruszynski sendiherra Póllands og eiginkona hans heimsóttu Sandgerðisskóla í upphafi nýs árs. Sendiherrann ásamt Magnúsi Stefánssyni, bæjarstjóra, hitti pólska nemendur skólans og starfsfólk. Nemendur sögðu frá því hvaðan í Póllandi þeir væru ættaðir og spjölluðu við sendiherrann. Pólskumælandi nemendur kynntu fyrir gestum starf grunnskólans og  tónlistarskólans. Einnig var starfsemi bókasafnsins kynnt en þar er má finna fjölbreyttar, pólskar bókmenntir.

Í viðtali við Hólmfríði Árnadóttur, skólastjóra Sandgerðisskóla, kom fram að móðurmálskennsla nemenda af erlendum uppruna styddi við annað tungumálanám.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við tókum upp pólskukennslu á skólatíma nemenda af pólskum uppruna vegna rannsókna sem styðja það að sterkur móðurmálsgrunnur sé forsenda frekara náms. Hér áður höfðu nemendur farið utan skóla, jafnvel um helgar, í pólskuskóla þar sem foreldrum fannst mikilvægt að börn þeirra viðhéldu móðurmálinu sínu og lærðu enn frekar. Þetta nám kostaði og var jafnvel greitt með tómstundastyrk barnanna sem varð til þess að þau fóru ekki í aðrar tómstundir. Þetta fannst okkur hér í Sandgerðisskóla ótækt og með rökstuðningi þess hver gróði þessara barna væri þar sem móðurmálskennsla styddi við annað nám tók fræðsluráð vel í hugmyndina.

Við réðum pólskan kennara með kennsluréttindi í grunnskóla og hófum móðurmálskennslu í pólsku haustið 2017. Við fengum myndarlegan styrk frá sveitarfélaginu Brwinów í Póllandi og hér eru allir með námsefni viðhæfi. Okkur stjórnendum var svo boðið þangað í kynnisferð vorið 2018, þar sem við heimsóttum skóla og kynntumst pólsku skólakerfi. Þá erum við smám saman að efla bókakost á pólsku á bókasafninu í samráði við pólskukennarann okkar og nú síðast pólska sendiráðið sem hefur einnig verið okkur innan handar. Nú hafa allir nemendur og starfsmenn af pólskum uppruna fengið skólaskírteini sem þeir geta nýtt til afsláttar við bóka- og námsefniskaup í Póllandi sem og á söfn og aðra menningarstaði.

Hvað okkur varðar þá er þetta framtak einnig að efla samkennd þessa hóps sem er 15% af nemendahópnum okkar, efla virðingu þeirra fyrir rótunum og þess að eiga annað tungumál. Þau eru opnari fyrir því að ræða um pólsku og það sem pólskt er og um leið eru þau að fá viðurkenningu á því að móðurmálið þeirra og uppruni er mikils virði. Næst á dagskrá er samvinna við vinaskóla í Brwinów, samskipti við jafnaldra þar með stuðningi tækninnar og áframhaldandi þróunarvinna móðurmálskennslu á pólsku. Sandgerðisskóli er einn af fáum skólum landsins sem býður upp á pólskukennslu fyrir nemendur sína.“